Skilyrði sem umsækjendur um ættleiðingar þurfa að uppfylla. Höfundur Jóhanna Sif Finnsdóttir
Í ritgerðinni eru skoðuð þau skilyrði sem umsækjendur um ættleiðingar eða forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni þurfa að uppfylla, með áherslu á skilyrðin um aldur og heilsufar. Samanburður er gerður við skilyrði sem umsækjendur um tæknifrjóvgun og fósturforeldrar þurfa að uppfylla auk þess sem skilyrði í frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun eru skoðuð. Þá eru skilyrði sem snúa að aldri og heilsufari umsækjenda um ættleiðingu á Norðurlöndunum skoðuð til samanburðar. Markmiðið með ritgerðinni er að rannsaka hvort skilyrði um aldur og heilsufar í lögum og reglugerðum um ættleiðingar hér á landi séu úrelt, í samræmi við önnur sifjalög sem og hvort þau séu í samræmi við önnur Norðurlönd. Einnig er kannað hvort skilyrðin séu of ströng eða of væg eftir að samanburður hefur verið gerður við ofangreind atriði.
Efni ritgerðarinnar var rannsakað með því að skoða lög, reglugerðir og dóma eftir því sem við átti. Jafnframt voru rannsökuð nokkur íslensk mál til að varpa frekara ljósi á rannsóknarefnið en aðgangur fékkst að fimm málum hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Tvö málanna snúa að aldri og þrjú að heilsufari.
Niðurstöður sýna að nokkuð mætti bæta þegar kemur að framsetningu á skilyrðum heilsufars en aldursskilyrðið er í ágætu samræmi við hin Norðurlöndin.
Meistaraitgerðin var skrifuð við lagadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi Jóhönnu var Hrefna Friðriksdóttir.
Skilyrði sem umsækjendur um ættleiðingar þurfa að uppfylla. Höfundur Jóhanna Sif Finnsdóttir