Fréttir

„... ég er fædd í Kína en á heima á Íslandi og ég er ættleidd og ég er stolt af því ...“ Tvímenningarlegur heimur ættleiddra barna. Höfundur Jórunn Elídóttir

Jórunn Elídóttir
Jórunn Elídóttir

Í þessari grein og rannsókn sem hún segir frá er athygli beint að tvímenningarlegri félags- mótun ættleiddra barna og tengslum þeirra við upprunalandið en um það efni hefur lítið verið fjallað hér á landi. Höfundur á telpu ættleidda frá Kína og áhugi á þessu málefni vaknaði í kjölfar ættleiðingar, þegar takast þurfti á við margvíslegar spurningar, sjónarmið og uppeldislega þætti í daglegu lífi, en ætla má að umfjöllun um tvímenningarlega félagsmótun eigi erindi við alla sem standa í svipuðum sporum. Fræðileg umræða greinarinnar tekur mið af því og snertir nokkra af þeim þáttum sem hafa verið rannsakaðir undanfarin ár og varða þennan málaflokk. Jafnframt eru kynntar niðurstöður rannsóknar þar sem raf- ræn spurningakönnun var send til tíu telpna á Íslandi sem allar voru ættleiddar frá Kína. Markmið rannsóknarinnar var að fá innsýn í viðhorf telpnanna til tengsla við Kína og upp- runans þar og reynslu þeirra af því að vera ættleiddar þaðan. Í rannsókninni er sjónum beint að litlum hópi telpna en telja verður líklegt að margt af því sem hún leiðir í ljós um telpurnar tíu geti einnig átt við um önnur ættleidd börn og fjölskyldur þeirra. Ættleiðingar milli landa hafa aukist mikið síðastliðinn áratug og hópur ættleiddra barna er nokkuð fjölmennur í mörgum löndum (Tessler, Tuan og Shiao, 2011). Til Íslands hafa verið ætt- leidd yfir 600 börn. Byrjað var að ættleiða börn frá Kína árið 2002 og í nóvember 2013 hafði 171 barn verið ættleitt þaðan. Árlega hafa að jafnaði verið ættleidd til landsins um fimmtán börn af erlendum uppruna en ættleiðingum hefur fækkað síðustu ár. Í nóvember 2013 höfðu átta börn verið ættleidd á því ári með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar; fjögur frá Tékklandi, eitt frá Tógo og þrjú frá Kína (Hagstofa Íslands 2008; Íslensk ættleiðing, vefpóstur, 22.11. 2013).


Svæði