Fréttir

Aðalfundur 19. mars 2025

Stjórn Íslenskrar ættleiðingar boðar til aðalfundar félagsins sem haldinn verður hjá Framvegis, miðstöð símenntunar, Borgartúni 20, 105 Reykjavík, miðvikudaginn 19. mars 2025 klukkan 20.00. 

Dagskrá:

1. Skýrsla stjórnar um hag félagsins og rekstur þess á liðnu starfsári.
2. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár ásamt athugasemdum endurskoðanda félagsins skal lagður fram til samþykktar. 
3. Kjör stjórnar.
4. Ákvörðun árgjalds.
5. Breytingar á samþykktum félagsins. 
6. Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin.

Í samræmi við breytingar á reglugerð frá 2023 eru þrjú stjórnarsæti laus til kosningar á aðalfundi og skv. samþykktum félagsins rennur framboðsfrestur til stjórnarkjörs út klukkan 20:00 þann 5. mars næstkomandi. Tilkynning um framboð sendist á netfangið isadopt@isadopt.is.
Taka ber fram að kosið er til tveggja ára og sitja tvær stjórnarkonur áfram frá fyrra ári og tvær af þremur óska eftir endurkjöri.

Sú nýbreytni verður að boðið verður upp á tvö stutt erindi eftir að aðalfundarstörfum er lokið.
Katha Aþena Guðný Þorsteinsdóttir kynnir BA verkefni sitt í félagsfræði sem hún lauk í fyrra og ber titilinn ,,Saga barnsins og tengsl þess við upprunaland sitt mega ekki týnast." Þar fjallar hún um upplifun þeirra sem ættleiddir hafa verið frá Indlandi til Íslands en sjálf var hún ættleidd þaðan.
Selma Hafsteinsdóttir tónlistarkona, stjórnarkona í ÍÆ og foreldri ættleidds barns frá Tékklandi kynnir ættleiðingarhlaðvarpið ,,Allt um ættleiðingar" sem fór í loftið í febrúar 2023.

Stjórn ÍÆ hvetur alla félagsmenn og aðra áhugasama til að mæta en hægt verður að skrá sig í félagið á staðnum.

 


Svæði