Fréttir

Aðalfundur 21.03.2002

Haldinn þann 21. mars 2002 í húsakynnum félagsins í Ármúla kl. 20:30.

Fundargerð:
Lisa Yoder formaður félagsins, hóf fundinn með því að stinga upp á Guðmundi R.Árnasyni sem fundarstjóra og Ástu Þorbjörnsdóttur sem ritara fundarins. Var tillagan samþykkt með lófaklappi.

Fyrsta atriði var skýrsla formanns frá Lisu Yoder. Hún greindi frá því helsta sem stjórn félagsins stóð fyrir á sínu fyrsta starfsári sem löggilt ættleiðingarfélag. Hún greindi ítarlega frá undirbúningi á ættleiðingum frá Kína og hvernig farvegur ættleiðinga þaðan verði. Hún greindi einnig frá gagnlegri ferð sem farin var til Kalkútta sl. haust. Þar kom fram að reglur  um ættleiðingar frá Kalkútta myndu bráðlega breytast þegar reglur CARA um ættleiðingar tækju gildi þar líka.

Hún talaði um biðlistann, fjölda þeirra barna sem hafa komið á undanförnum árum og ört vaxandi biðlistann sem er svolítið áhyggjuefni miðað við hvað fá börn koma á ári hverju.

Hún greindi frá undirbúningi félagsins að skrifum til stjórnvalda um möguleikann á að fá sambærilegan styrk og kjörforeldrar á norðulöndum fá.

Hún greindi að lokum frá nauðsynlegri hækkun á biðlistagjaldi og fyrirhugaðri hækkun lokagreiðslu. (Skýrsla formanns er birt í heild sinni aftan við þessa fundargerð).

Síðan kallaði hún fráfarandi fræðslufulltrúa fram og þakkaði þeim fyrir vel unnin störf, jafnframt því sem hún afhenti þeim blómvendi. Hún óskaði jafnframt nýjum fræðslufulltrúum góðs gengis og velfarnaðar í starfi.

Þá var orðið gefið laust.

Spurt var um CARA, hvað það væri. Lisa svaraði því til að um yfirvöld ættleiðingarmála  á Indlandi væri að ræða.

Spurt var um væntanlega heimasíðu félagsins, hvenær hún yrði tilbúin. Hún verður væntanlega tilbúin í næsta mánuði.

Spurt var um hvort aðstandendur barnaheimilis okkar í Indlandi hefði nokkuð rætt um flutning vegna erfiðs ástands hjá nágrönnum annars barnaheimilisins. Nei, það mun ekki hafa verið gert.

Spurt var um í hvaða farvegi Kínaættleiðingar væru. Guðrún svaraði því til að búið væri að senda fyrstu 15 umsóknirnar þangað. Íslenska sendinefndin fór ekki  á barnaheimili en þau eru um 200 heimilin sem hægt er að ættleiða frá. Aldur barnanna er í kringum 1-2 árs.

Spurt var um hvort það hefði ekki áhrif á aldur barnanna frá Indlandi þegar ættleiðingarmálin fara undir CARA. Það má búast við því að aldur barnanna verði hærri.

Reikningar félagsins.
Ingvar lagi fram endurskoðaðað reikninga félagsins. Spurt var um verkefnatekjur. Ingvar svarðai því til að um væri að ræða styrk frá ráðuneytinu vegna Kína og fyrir þýðingar frá Reykjavíkurborg. Spurt var um hvort félagið sé komið á föst fjárlög. Ingvar sagðist halda að svo væri en hvort það væri jákvætt eða neikvætt væri erfitt að segja til um. Þeir aðilar sem eru á föstum fjárlögum þurfa oft að sæta niðurskurði. Reikningar félagsins voru samþykktir.

Kosning stjórnar og nefnda
Olga Stefánsdóttir gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu eftir 14 ár í stjórn félagsins. Formaður félagsins, Lisa Yoder, kallaði hana fram og þakkaði henni vel unnin störf og hún þakkaði á móti fyrir langt og ánægjulegt samstarf.

Helga Tulinius gefur kost á sér í stjórn auk þess hinir sem sitja fyrir. Hún er með fyrstu umsækendunum  til Kína. Lýst var eftir viðbótarframboðum en þau komu ekki. Klappað var fyrir nýrri stjórn.

Fjáröflunarnefnd gefur kost á sér áfram en hverjum og einum félagsmanni er heimilt að bjóða fram krafta sína til hvers sem er.

Skemmtinefnd gefur áfram kost á sér. Helstu verkefni hennar eru umsjón og skipulagning sumarferðar svo og jólaball félagsins.

Ritnefndin þverneitar að hætta en bauð alla velkomna sem vildu starfa með.

Félagskjörnir endurskoðendur.
Helgi gefur ekki kost á sér.  Páll Steingrímsson er nýr í hans stað. 

Norðurlandsnefndin.
Stjórn félagsins lagði til að þau yrðu öll endurkjörin og var það samþykkt með lófaklappi. 

Nýir fræðslufulltrúar.
Kristín Tómasdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir verða næstu fræðslufulltrúar félagsins. Fundarstjóri lýsti ágætum slíkrar fræðslu sem þau hjón hefðu fengið áður en þau fengu sitt fyrsta barn.

Hulda Finnbogadóttir mun annast fræðslu um umönnun ungbarna.

Spurning barst frá fráfarandi fræðslunefnd hvort eitthvað hefði komið frá stjórnvöldum um fræðslumálin en svo hefur ekki verið. 

Félagsgjöld voru borin upp fyrir fundinn, 4000 kr. fyrir félagsmenn sem hafa verið skemur en 5 ár í félaginu en 2000 kr. fyrir hina. Spurt var um skýringu á þessum félagsgjöldum og Guðrún Sveinsdóttir svaraði því til að um meiri þjónustu væri að ræða fyrstu árin en 2000 kr. hugsaðar til þess að halda fólki lengur í félaginu. Félagsgjöldin voru samþykkt.

Engar lagabreytingartillögur bárust.

Önnur mál.

Fjáröflunarnefnd bað um orðið og greindi frá helstu þáttum í þeirra starfsemi. Tilgangur fjáröflunar nefndarinnar er að styðja við bakið á börnum í þeim löndum sem við ættleiðum frá. Fastir samningar við VISA og EURO gefa jafnar  og stöðugar tekjur. Fleiri verkefni eru á döfinni. Þeirra hugmynd er að útbúa einhvern söluvarning sem hægt væri að hafa reglulegar tekjur af t.d. minningarbók sem hentar betur ættleiddum börnum.

Ný fræðslunefnd verður með prufukeyrslu á nýju prógrammi hinn 4. apríl nk.

Elín Arnardóttir, ein af einhleypu umsækjendunum, kom með bunka af bókum sem hún hefur mestmegnis pantað erlendis frá. Fundarstjóri lagði til að á nýrri heimasíðu yrði bókasíða með lista yfir góðar og gagnlegar bækur.

Spurt var um hvort einhleypir karlmenn hefðu sótt um ættleiðingu en svo mun ekki hafa verið.

Anna Margrét, stofnandi spjallvefjar um ættleiðingu, greindi stuttlega frá ört vaxandi vef.

Skrifstofan er að safna netföngum. Tölvupóstur er oft á tíðum þægilegri samskiptamáti en síminn.

 

Fleira var ekki rætt á þessum ágæta aðalfundi og honum slitið kl. 21:50.

Ásta Björg Þorbjörnsdóttir.

 

Skýrsla formanns
Síðasti aðalfundur Íslenskrar ættleiðingar var haldinn 27.03.2001.  
Síðastliðið ár er fyrsta starfsár félagsins sem löggilt ættleiðingarfélag. Aðild Íslands að Haagsamningnum um aðlþjóðlegar ættleiðingar og löggilding félagsins gerir félaginu auðveldara um vik að afla nýrra sambanda og einfaldar alla málsmeðferð við ættleiðingar milli ríkja sem aðild eiga að honum.

Alls voru haldnir 9 stjórnarfundir á starfsárinu og vinnu- og undirbúningsfundir voru nokkrir.

Fræðslu- og undirbúningsfundir voru nokkrir á árinu og ennfremur var haldinn einn foreldramorgunn  sem tókst vel.

Fréttabréf kom loks út í febrúar eftir langa bið.  Stjórnin var ánægð með fréttabréfið og væntir góðs af starfi ritnefndar.

Stjórn félagsins hefur í mörg ár unnið að því að koma á sambandi við kínversk yfirvöld.  Fulltrúar félagins fóru til Beijing þann 15. – 22. september sl.  Tilgangur ferðarinnar var að hitta starfsfólk kínversku ættleiðingarmiðstöðvarinnar, CCAA, afla upplýsinga og undirbúa jarðveginn fyrir fyrstu ættleiðingarumsóknir til Kína og einnig að undirbúa ferðir væntanlegra kjörforeldra sem ferðast munu þangað til að sækja börn sín. Var tíminn fyrir fundinn notaður til undirbúnings fundarins og ennfremur til skoða kennileiti í Beijing og nágrenni kynnast ýmsu sem kemur sér vel fyrir væntanlega kjörforeldra að vita.

Á fundinum sjálfum var fulltrúum félagins tekið af mikilli vinsemd og sátu fundinn forstjóri CCAA ásamt skrifstofustjórum allra deilda. Einng sat fundinn forstjóri Bridge of Love Adoption Service, BLAS, sem annast ýmsa þjónustu við erlendar ættleiðingarstofnanir svo sem þýðingar, öflun og miðlun upplýsinga, fararstjórn og annað sem utan starfsvettvangs CCAA.  BLAS er til húsa á sama stað og CCAA og er í nánu samstarfi við ættleiðingarmiðstöðina. Alls sátu fundinn 10 manns frá CCAA og BLAS á fundinum, ásamt Lísu, Guðrúnu og fulltrúum íslenska sendiráðsins, þeim Svanhvíti Aðalsteinsdóttur og Zhang Li.

Kínversku embættismennirnir spurðu margs um ættleiðingar á Íslandi og starfsemi ÍÆ og töluðu nokkrir þeirra ensku.

Meðal þess sem Kínverjar spurðu um var hvort einhleypir mættu ættleiða skv íslenskum lögum, og í framhaldi af því hvort samkynhneigðir mættu ættleiða. Var okkur sagt að þótt einhleypir gætu ættleitt væru ættleiðingar til samkynhneigðra útilokaðar skv. kínverskum lögum og að einhleypir umsækjendur þyrftu að senda yfirlýsingu um að þeir væru ekki samkynhneigðir.

Einnig var spurt um fjölda umsókna frá Íslandi og við áætluðum að um 25 umsóknir til Kína væru í vinnslu, þar af yrðu sennilega sendar 15 saman í fyrstu lotu. Var okkur tjáð að þær yrðu ekki afgreiddar allar í einu heldur sennilega 5 saman. Þegar spurt var um biðtíma vegna fyrstu umsókna  var svarið “ekki fyrir jól”. Það kom ekki á óvart enda umsóknirnar ekki tilbúnar og vantaði ýmsar upplýsingar um lokafrágang þeirra, þýðingar og annað.  Skýr svör fengust ekki um afgreiðslutíma fyrstu umsókna, en okkur var tjáð að til að sýna velvild í garð nýs samstarfsaðila yrðu þær afgreiddar á styttri tíma en venjulegt er, og gefið í skyn að um helming venjulegs tíma gæti verið að ræða, þ.e. 6 – 7 mánuði. Það er sambærileg afgreiðsla og fyrstu áströlsku málin fengu en Ástralir gengu frá samstarfi fyrir um tveim árum.

Við fengum upplýsingar um vottorð sem eiga að fylgja umsókn, um þýðingar og stimplanir. Öll gögn verða send á ensku enda er enginn löggiltur skjalaþýðandi af íslensku á kínversku til. Með hverri umsókn þarf að senda USD 365 umsýslugjald ásamt USD 200 fyrir þýðingu og einnig er stimpilgjald í kínverska sendiráðinu um 18.000. Annar kostnaður er greiddur þegar kjörforeldrar koma til Kína; USD 3.000-3.500 sem er greiðsla til barnaheimilis, ásamt greiðslum fyrir frágang ættleiðingarskjala og þýðingar sem gæti verið um USD 500.

Ferill ættleiðingarumsókna er þannig að fullbúin umsókn er send á ensku, stimpluð af Notarius Publicus, Utanríkisráðuneyti og kínverska sendiráðinu. Óska Kínverjar eftir að fá minnst fimm umsóknir saman því þeir útvega túlk/fararstjóra sem er umsækjendum til aðstoðar meðan á dvöl í Kína stendur og verður kostnaður of mikill ef hann deilist ekki á nokkra umsækjendur. Eftir að umsókn berst til CCAA er hún skráð og sendandi látin vita af móttöku hennar. Síðan fara skjölin í þýðingu og eru skoðuð. Þá er látið vita ef eitthvað vantar eða ef kínversk stjórnvöld synja umsækjendum um ættleiðingu. Allar umsóknir sem berast saman eru skoðaðar á sama tíma. Eftir þessa vinnu er margra mánaða bið og síðan er farið yfir umsóknirnar aftur og reynist þær í lagi fara þær í svokallað “matching” þar sem valin er fjölskylda fyrir hvert barn. Síðan eru erlendu ættleiðingarstofnuninni sem sendi umsóknina sendar upplýsingar um barn sem ætlað er ákveðnum umsækjendum, 2-3 myndir, læknisskýrsla og upplýsingar um dvalarstað barnsins í Kína. Oftast fá þeir umsækjendur sem sendu umsóknir saman upplýsingar um barn á sama tíma og eru börn fyrir hvern hóp venjulega af sama barnaheimili eða amk í sömu borg. Umsækjendur verða að taka ákvörðun um hvort þeir vilja ættleiða barnið og skrifa undir bréf þar sem þeir óska eftir að ættleiða þetta ákveðna barn. Öll bréfin eru send saman til baka til CCAA, sem sendir um hæl bréf sem býður væntanlegum foreldrum til Kína á ákveðnum tíma. Fólk flýgur þá til Kína, skoðar sig etv um i 2-3 daga og fer síðan til borgarinnar þar sem barnið er. Það fær barnið til sín á hótel og eftir að hafa kynnst barninu í sólarhring eiga foreldrar að svara hvort þeir vilja ættleiða barnið.  Síðan þarf að hitta embættismenn, sitja fyrir svörum um hagi fjölskyldunnar og ef yfirvöld samþykkja ættleiðinguna þá er skrifað undir skjöl sem síðan eru Notariseruð.  Svo þarf að þýða gögnin af kínversku á ensku og útvega kínverskt vegabréf fyrir barnið, þetta tekur allt nokkra daga. Á meðan dvelur nýbakaða fjölskyldan á hóteli.

Nauðsynlegt er að hafa túlk og etv. fararstjóra til aðstoðar, einhvern sem gjörþekkir  ættleiðingarferlið og aðstoðar fólk við þessa vinnu. Síðan er flogið til Beijing og þaðan heim.  Ferðin tekur oftast um 12 daga.

Eins og stendur er biðtími um 12 mánuðir frá sendingu umsóknar til Kína þangað til upplýsingar um barn berast, og síðan um 6 vikur þangað til væntanlegir kjörforeldrar fara til að ættleiða barn sitt.  Búist er við að tíminn lengist eitthvað árið 2002 en styttist síðan aftur

Fundinum hjá CCAA lauk um hádegisbil og við lok hans var skipst á gjöfum að kínverskum sið.  Var hverjum fundarmanni afhent Íslandsbók á kínversku og fengum mynd af kínverskum stríðhetjum. Síðan voru skrifstofur CCAA skoðaðar.  Stofnunin er á tveim hæðum, björt og nýtískuleg og virtist gott skipulag á öllu, hver starfsmaður hafði tölvu og önnur skrifstofutæki. Herbergin eru stór og vinna 6 – 8 starfsmenn í sumum þeirra. Alls munu vinna um 35 manns á  skrifstofu CCAA.

Íslensk ættleiðing mun nota þjónustu BLAS við þýðingar, við skipulagningu ferða innan Kína og annað sem íslenskir kjörforeldrar hafa þörf fyrir.

Daginn eftir þennan fund var fundað með fulltrúa frá íslenska sendiráðinu og Yue Wong Lotz sem er sérfræðingur danska sendiráðsins í Beijing hvað varðar áritanir fyrir ferðamenn. Þær töldu best að ættleidd kínversk börn fengju í framtíðinni kínversk vegabréf við ættleiðinguna og síðan yrði gefin út Schengen visa C og D, þe ein transit visa og önnur með þriggja mánaða gildistíma á ákvörðunarstað. Þessar áritanir yrðu í höndum danska sendiráðsins þar sem ekki er til staðar mannskapur í ísl. sendiráðinu til að sinna verkefninu. Þetta er skv ákvörðun útlendingaeftirlitsins hér. Töldu þær Yue og Guðrún Margrét að ef vel væri staðið að undirbúningi tæki skamman tíma að ganga frá þessum málum fyrir brottför fjölskyldnanna frá Beijing.

Ferðin varð til að auka enn áhuga okkar á ættleiðingum frá Kína. Skipulag ættleiðingarmála þar er framúrskarandi gott og landið mjög áhugavert fyrir kjörfjölskyldur og auðveldara er að vera ferðamaður í Kína en td á Indlandi.  Þó verður að undirbúa ferðir mjög vel.

Fulltrúar Íslenskrar ættleiðingar, fóru til Kalkútta 2 – 9 október síðastliðinn.  Dvölin í Kalkútta var einungis 4 dagar, frá 04.10 – 07.10, en þeir voru vel nýttir, við hittum forstöðukonu barnaheimilisins, frú Roy, á föstudegi, á laugardegi heimsóttum við barnaheimilið og tókum m.a. myndir af börnunum sem biðu þess að koma til Íslands, og á sunnudeginum vorum við viðstaddar dagskrá sem kallaðist  “Reunion” og var ætluð indverskum kjörforeldrum sem ættleitt höfðu frá stofnuninni Indian Society for Rehabilitation of Children.  Þangað komu foreldrarnir með börn sín, allir í sínu fínasta pússi, og hlustuðu á erindi, tóku þátt í umræðuhópum og dagskránni lauk með matarveislu.  Þetta var fyrsta svona samkoman í Kalkútta og þar hittist aðallega fólk sem ættleitt hefur á síðustu fjörum árum eftir að umræða um ættleiðingar opnaðist.  Áður voru ættleiðingar mikið leyndarmál á Indlandi.  Því miður skildist fæst af því sem þarna fór fram en gaman að hitta ýmsa af  því góða fólki sem vinnur við ættleiðingar í Kalkútta.  á meðal þeirra sem fulltrúar félagsins hittu voru Rebecca Hackworth sem vinnur fyrir Dillon ættleiðingarmiðlun í USA, samstarfsaðila ISRC, og sem ÍÆ  hefur stöku sinnum haft haft samband við.

Á fundinum með Anju kom fram að Bandaríkjamenn fá nú fleiri börn frá stofnuninni en bæði Svíar og Íslendingar, og sagði hún það vera vegna þess að Bandaríkjamenn væru mikið opnari fyrir að ættleiða börn sem væru annað hvort fyrirburar eða “medical cases”.  Stofnunin rekur nú tvö barnaheimili, annað á jarðhæð húss þess sem skrifstofan er í við Lake View Road og er það leiguhúsnæði, hitt er við Prince Anwar Shaw Road aðeins lengra frá miðborg Kalkútta og keypti stofnunin það fyrir um þremur árum síðan.  Anwar Shaw Rd. barnaheimilið er lokað fyrir heimsóknum, þar eru yngstu börnin, fyrirburar og veik börn.  Þegar þau stálpast eru þau flutt á Lake View Rd. þangað sem kjörforeldrar sækja þau.  Aðbúnaður barnanna á barnaheimilum ISRC er með því besta sem gerist í Indlandi, við höfum margoft séð börn frá öðrum stofnunum sem bera þess merki að hafa búið við verri aðbúnað.  Á hvoru heimili geta verið um 30 börn, meira en helmingur þeirra er ættleiddur innan Indlands eins og þarlendar reglur gera ráð fyrir, hin eru flest ættleidd úr landi, til USA, Svíþjóðar eða Íslands, og einstaka sinnum til Spánar eða annarra landa ef  CARA beinir umsóknum þaðan til ISRC.

Anju upplýsti einnig að nú væri ákveðið að reglur CARA um ættleiðingar tækju gildi í Kalkútta og að undanþágur sem gilt hefðu fyrir bengalskar stofnanir yrðu  afnumdar (Kalkútta er í V-Bengal fylki).  Ekki væri alveg ljóst hvaða áhrif þetta hefði, en reikna mætti með einhverjum töfum í afgreiðslu hvers ættleiðingarmáls, hins vegar yrði sennilega styttri bið eftir árlegri endurnýjun starfsleyfis stofnananna því CARA teldi að auðveldara yrði að fylgjast með starfi ættleiðingarstofnana eftir breytinguna.  Anju býst við að þegar starfssleyfið loks fæst verði það gefið út til þriggja ára.  En það má búast við hertum kröfum til umsækjenda, bæði varðandi aldur og heilsu, sennilega einnig vegna fjölskyldustærðar og etv fleira.

Allir sem ættleiða frá Kalkútta fljúga nú um London vegna vandamála við vegabréfsáritanir eftir þátttöku Íslands í Schengen.

Við höfum mikinn áhuga á að finna fleiri samstarfsaðila á Indlandi.  Mjög margir vilja ættleiða börn þaðan.

Aðeins eitt barn kom frá Rúmeníu á árinu 2001.  Rúmensk stjórnvöld tóku fyrir allar ættleiðingar úr landi í júní 2001 og amk fram til október næstkomandi meðan beðið er eftir nýjum ættleiðingarlögum.  

Félagið er ennþá í sambandi við frú Coman, lögfræðing í Rúmeníu, og hefur hún áhuga á að starfa áfram með ÍÆ um leið og ættleiðingar þaðan komast af stað aftur.

Á árinu 2001 komu 17 börn til Íslands,  16 frá Kalkútta og eitt frá Rúmeníu.   Ennþá eru engin börn komin á þessu ári, en umsækjendur okkar eiga 6 börn í Kalkútta sem vonast er til að komist heim á næstu mánuðum.  Eins vonumst við að á árinu komi heim  börn frá Kína fyrir 10 fyrstu umsækjendurna þangað.  Á árinu 2000 komu hins vegar 24 börn til Íslands.  Fækkunin er vegna aðstæðna erlendis en ekki vegna færri umsókna.  Sífellt fjölgar þeim sem eru á biðlista eftir því að ættleiða barn erlendis frá og hefur það því verið eitt mikilvægasta verkefni stjórnar félagins á síðasta starfsári að afla nýrra sambanda.  Væntum við mikils af hinu nýja samstarfi við Kína.  Þangað hafa verið sendar 15 umsóknir og vonumst við eftir að fá fyrstu upplýsingarnar um börn til ættleiðingar nú í vor.  Fulltrúar kínversku ættleiðngarmiðstöðvarinnar hafa einnig boðað komu sína hingað næstkomandi maí til að kynna sér þessi mál hérlendis.

Möguleikar í nokkrum öðrum löndum hafa verið kannaðir, td í Tékklandi en svör hafa ekki borist við bréfum okkar þangað.   Suður-Afríka er nýtt ættleiðingarland  og við höfum aðeins skoðað möguleika þar og líka í Eþíópíu en ennþá hefur ekki verið reynt að komast í samband við stjórnvöld þessara landa.    Sem fyrr eru erfiðleikar við að finna nauðsynlega tengiliði í löndunum því þar eru engin íslensk sendiráð, þó er góður ræðismaður í Tékklandi.

Á árinu 2001 greiddu  38  umsækjendur biðlistagjald en 6 þeirra munu ekki senda umsókn til erlendra yfirvalda.

Á þessu ári hafa komið inn 11 umsóknir á tæpum þrem mánuðum.

Staða biðlista er þannig að um á honum eru um 60 umsækjendur og stefna álíka margir til Indlands og til Kína.  Ein umsókn er í Tælandi og ein í Kólombíu.  Mál fjögurra umsækjenda eru í biðstöðu í  Rúmeníu og hafa þeir allir beðið mjög lengi.

Vart hefur orðið aukins áhuga einhleypra kvenna á ættleiðingum erlendis frá.  Hugsanlega má rekja þennan áhuga til nýju ættleiðingarlaganna.  Möguleikar einhleypra ættleiðenda erlendis eru ekki sérlega góðir þvíi erlend yfirvöld vilja helst að börnin eignist bæði föður og móður.   Má nefna að Kínverjar hafa nú takmarkað fjölda umsókna einhleypra frá hverju ættleiðingarfélagi við 5%, en áður var næstum þriðja hver umsókn  í Kína frá einhleypum.

Kjörforeldrar á Norðurlöndunum fá styrki vegna ættleiðingarinnar og er félagið að undirbúa skrif til stjórnvalda með óskum úrlausn mála fyrir íslenska kjörforeldra.  Stéttarfélög, s.s. Samband Íslenskra bankamanna, hafa veitt félögum styrki vegna ættleiðingar og vil ég hvetja  allt biðlistafólk til að sækja um hjá sínum félögum og vísa til þess fordæmis sem komið er.  Í athugun er hjá stjórn ÍÆ að skrifa launþegasamtökum bréf og benda á þörf fyrir styrki.

ÍÆ tekur þátt í norrænu samstarfi og EurAdopt. Fulltrúi félagsins í norræna samstarfinu er Gerður Guðmundsdóttir og í EurAdopt er Kristín Tómasdóttir.

Biðlistagjald var hækkað í 50.000 frá 16 mars og fyrirhuguð er hækkun lokagreiðslu í 90.000 seinna á árinu.  Þessar hækkanir voru óhjákvæmilegar til að mæta auknum kostnaði erlendis.

Á meðal annarra verkefna sem framundan má nefna að útbúa meira fræðsluefni og námskeið um umönnun ungbarna er í undirbúningi.  Stefnt er að fréttabréf komi út amk 3svar á ári og heimasíða félagins er í smíðum.

 


Svæði