Aðalfundur ÍÆ 20.03.2007
Aðalfundur Íslenskrar ættleiðingar haldinn þann 20. mars 2007 kl. 20:00 í safnaðarheimili Fella- og Hólakirkju.
Ingibjörg Jónsdóttir formaður ÍÆ setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hún tilnefndi Hrafnhildi Arnkelsdóttur sem fundarstjóra og Arnþrúði Karlsdóttur fundarritara og var það samþykkt af fundarmönnum með lófataki. Fundarstjóri og fundarritari tóku þegar til starfa og Hrafnhildur kynnti dagskrá fundarins.
1. Venjuleg aðalfundarstörf:
Skýrsla stjórnar:
Ingibjörg Jónsdóttir formaður ÍÆ flutti skýrslu stjórnar. Hún hóf mál sitt á því að segja frá því að árið 2006 komu 8 börn heim til nýrra foreldra sinna; 6 frá Kína og 2 frá Indlandi. Það eru mun færri börn en komu heim á árinu á undan. Ástæður þess að svona hægt gengur má aðallega rekja til aðstæðna í Kína. Flutningur skrifstofu CCAA og það að mun fleiri umsóknir eru þar nú en nokkru sinni fyrr eru meðal þess sem hefur haft áhrif. Það að tvö börn hafi verið ættleidd frá Indlandi til Íslands árið 2006 er í takti við þá þróun sem hefur verið þar lengi, það er fækkun ætteiðinga úr landi og fjölgun innanlandsættleiðinga. Frá Kolumbíu var engin ættleiðing árið 2006, en 5 umsóknir eru þar úti núna. Ættleiðingarferlið í Kolumbíu hefur verið að lengjast, en okkar aðilar þar úti segja að allt sé í eðlilegum farvegi. Nýja sambandið okkar við Tékkland hefur nú loks borið ríkulegan ávöxt og með vorinu kemur lítill drengur heim til Íslands með foreldrum sínum. Samstarfið við Tékkland hófst árið 2005 og hefur því bíðtíminn eftir fyrsta barninu tekið um tvö ár. Í öllum löndunum hefur biðtími verið að lengjast, er nú tvö ár til Kína, þrjú ár til Indlands og tvö og hálft ár til Kólombíu. Á meðan þessi þróun hefur átt sér stað, þ.e.a.s að ættleiðingartíminn hefur alls staðar verið að lengjast, hefur átt sér stað sprenging í fjölda umsókna og hefur þeim fjölgað um 100% frá árinu 2004.
Breyttar reglur í Kína, sem taka gildi 1. maí 2007 munu breyta miklu. Samkvæmt þessum reglum er nær útilokað að senda út umsókn fyrir einhleypa, þar sem segir í reglunum að þær verði settar til hliðar og látnar mæta afgangi. Mikil ásókn er frá hjónum, sem uppfylla öll skilyrði, til að ættleiða frá Kína og því ekki miklir möguleikar fyrir þennan hóp þar. Reglur varðandi hámarksaldur umsækjanda, lengd hjónabands, þyngd og almennt heilsufar hafa einnig verið hertar.
Ingibjörg talaði um að starf félagsins sem miðlara í ættleiðingarmálum hafi verið erfitt þetta árið, þar sem biðtíminn hefur lengst, umsóknum hefur fjölgað og á sama tíma hafa skilyrði verið hert. Hafa ber í huga að okkar hlutverk er fyrst og fremst að finna leiðir til að tengja saman börn sem þurfa fjölskyldu og fjölskyldur sem vilja eignast börn – og alltaf með hag barnins að leiðarljósi. Síðan fjalla yfirvöld í báðum löndum um málið og taka ákvörðun um framtíð barnsins. Það er oft erfitt að vinna málin á þann hátt að allir þessir aðilar sætti sig við niðurstöðu. Í öllum ættleiðingarlöndum eru fleiri umsækjendur en börn til ættleiðingar, því verða til biðlistar og erlend ættleiðingarfélög verða að sýna fram á að vinna þeirra sé í takt við alþjóðlegar siðareglur.
Félagsstarfsemin var einkar blómleg þetta árið. Í apríl kom æðsti yfirmaður CCAA, hr. Lu í heimsókn til Íslands ásamt fríðu föruneyti. Þau áttu mjög svo ánægulega heimsókn hingað. Hann var sérstaklega ánægður með fjölskyldudaginn, þegar tækifæri gafst til að sjá og heilsa upp á sjálf börnin. Tilefni heimsóknarinnar var að ræða við íslensk yfirvöld um þær breytingar sem urðu á ættleiðingarsambandinu við undirskrift Kína á Haag sáttmálanum, en hún tók gildi í Kína um síðustu áramót. Hann átti fund í dómsmálaráðuneytinu um þessi mál, og lýsti hr. Lu því þar yfir hversu ánægður hann væri með samstarf CCAA og ÍÆ. Stjórn ÍÆ átti fund með sendinefndinni á Hótel Glymi þar sem kom fram almenn ánægja með ferli mála hér á landi og þau góðu samskipti sem CCAA á við ÍÆ. Á fundinum lagði hr. Lu á það áherslu að hann treysti ÍÆ það vel að hann vildi að félagið tæki að sér það krefjandi verkefni að hafa milligöngu um ættleiðingar barna með skilgreindar sérþarfir.. Þykir stjórn ÍÆ það vera heiður að veita slíku verkefni brautargengi.
Málþing ÍÆ var haldið 25. nóvember með mjög metnaðarfullri dagskrá. Félagsmálaráðherra setti þingið og tilkynnti að áralangt baráttumál ÍÆ væri nú loks í höfn, þar sem hann sæi fram á að ættleiðingarstyrkir færu í gegnum þingið fyrir jól. Fjölmörg erindi voru flutt á málþinginu. Þar má nefna erindi Unnar Steinu Björnsdóttur læknis og kjörmóður tveggja barna frá Rúmeníu sem hún nefndi Ótakmörkuð ást og umhyggja - er það nóg?. Ingibjörg Símonardóttir sérkennari og talmeinafræðingur flutti erindi um máltöku ættleiddra barna. Baldur Kristjánsson og Hanna Ragnardóttir lektorar við KÍ sögðu frá rannsókn sinni um kjörbörn á Íslandi og stöðu þeirra. Valgerður Baldursdóttir barnageðlæknir og dóttir hennar Lísa Björg Lárusdóttir fædd í Indónesíu fjölluðu um sorgina og það að skera sig alltaf úr. PAS nefndin, undir stjórn Gerðar Guðmundsdóttur, stóð að öllum undirbúningi þessa málþings.
Styrktamálið fór loks í gegn um þing á árinu og varð að lögum fyrir jól. Karl Steinar Valsson varaformaður ÍÆ átti sæti í undirbúningsnefnd ráðherra. Það má með sanni segja að hér hafi farið eitt allra mikilvægasta kjaramál kjörforeldra fyrr og síðar.
Þá fjallaði Ingibjörg um fjármál ÍÆ. Sú staðreynd að fá börn voru ættleidd hingað til lands þetta ár, hefur haft bein áhrif á fjárhagsstöðu félagsins, þar sem mun færri lokagreiðslur fengust inn árið 2006 en t.d 2005. Gjöld fyrir veitta þjónustu voru hækkuð í samræmi við verðlagsþróun en gjöldin höfðu ekki hækkað síðan árið 2000. Ríkisvaldið styrkir félagið með fastri upphæð á fjárlögum sem er 6,5 milljónir en það dugir ekki til að halda úti starfsemi félagsins. Með það í huga að fjárhagur félagsins er ekki ýkja góður um þessar mundir, sótti stjórn félagsins um nokkra fjárhagsstyrki, t.d til Baugs Group, og Alcan en án árangurs. Nú er verið að sækja á Reykjarvíkurborg, og stærri sveitarfélög, svo og pokasjóð og velferðasjóð barna og á eftir að koma í ljós hvort það ber árangur.
Fulltrúar félagsins sóttu Euradopt ráðstefnu í Barcelona í lok apríl 2006, þar sem aðalumræðuefni var þrenginar í ættleiðingarheiminum í dag. Fulltrúar félagsins sóttu einnig ráðstefnur á Norðurlöndunum, NAC fund sem haldinn var í september og nú í lok mars mun fulltrúi frá félaginu sækja Euradopt fund sem haldinn verður í Luxemburg. Aðild félagsins að NAC og Euradopt er mjög mikilvæg í þeirri viðleitni okkar að vinna að ættleiðingarmálum faglega og með þau siðferðislegu markmið að leiðarljósi sem kveðið er á um í alþjóðlegum samningum eins og Haag. Aðild okkar að þessum félagsskap er lykilatriði í því að fylgjast með því hvað er að gerast í ættleiðingarheiminum.
Í ljósi þess að þrengra er um vik í Kína og á Indlandi, hefur sjórn ÍÆ lagt mikla vinnu í það að hafa upp á nýjum samstarfsaðilum. Skrifað hefur verið til fjölda barnaheimila á Indlandi en einnig hefur verið haft samband við sendiherra Íslands í Suður Afríku, Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur. Stjórnin hefur einnig beðið dómsmálaráðuneytið um að hafa milligöngu og liðsinna stjórn varðandi næstu skref í því að finna nýja samstarfsaðila. Enn sem komið er hefur þessi vinna ekki borið árangur en góðir hlutir gerast hægt.
Á árinu bættust þau Hörður og Arndís í hóp leiðbeinenda á undirbúningsnámskeiðum fyrir verðandi kjörforeldra sem ÍÆ sér um fyrir hönd dómsmálaráðuneytisins.
Heimasíðan fékk andlistlyftingu og nú er búið að setja upp spjallmöguleika á henni. Ritnefnd gaf út vandað blað sem barst til félagsmanna rétt fyrir aðalfund. Það er nauðsynlegt að halda úti málgagni félagsins þar sem félagsmenn eru ekki allir á veraldarvefnum.
Útilegan heppnaðist vel að vanda, foreldramorgnar voru haldnir bæði í Reykjavík og á Akureyri þá var haldið furðufataball og jólaböll í Reykjavík og á Akureyri og voru þau vel sótt. Síðan má nefna spjallhópa og fleira.
Liðsauki bættist við starfsmannahald ÍÆ þegar ráðinn var félagsráðgjafi í 50% starf til að veita faglega ráðgjöf og aðstoða Guðrúnu skrifstofustjóra ÍÆ við ráðgjöf og handleiðslu umsækenda. Það er nauðsynlegt að skrifstofa ÍÆ sé vel í stakk búin til þess að takast á við aukin verkefni og líklega enn meira krefjandi þar sem róðurinn virðist vera að þyngjast.
Tekið var upp á þeirri nýjung rétt eftir jól að bjóða upp á stuðningshópa fyrir biðlistafólk og Ingibjörg hvatti fólk til þess að nýta sér þessa þjónustu.
Við erum ef til vill ekkert ýkja fyrirferðamikil og ekki er mikill íburður á skrifstofunni, en við viljum halda áfram að gera vel. Okkur finnst stundum ganga seint og hægt, en þeir erfiðleikar gleymast þegar við sjáum árangur vinnunnar. Hvert eitt heimkomið barn er staðfesting á því að þetta sé þess virði.
Hrafnhildur þakkaði Ingibjörgu og opnaði mælendaskrá ef einhver hefði spurningar eða athugasemdir við skýrsluna. Enginn vildi tjá sig.
Ársreikningar félagsins
Ingibjörg Birgisdóttir kynnti ársreikninga félagsins. Reikningarnir hafa verið samþykktir af Price Waterhouse Copers og stjórnarmönnum ÍÆ. Fram kemur að félagsstarfið er mun dýrara í fyrra en árið áður þar sem fræðslunámskeið fyrir byrjendur eru inni í þeirri tölu og félagið greiddi með því til að byrja með. Því hefur verið hætt núna. Starfsmenn fengu launahækkun auk þess sem nýr starfsmaður hóf störf um áramót. Húsnæðiskostnaður og skrifstofu- og stjórnunarkostnaður er svipaður og árið áður. Tap er á rekstri félagsins fyrir árið 2006 og er aðalástæðan sú að helmingi færri lokagreiðslur komu inn í fyrra vegna þess að biðtími hefur lengst.
Spurt var hvort búið væri að rukka félagsgjöld fyrir árið 2007. Svo er ekki þar sem félagsgjaldið er ákveðið á aðalfundi og reikningar fyrir því sendir út eftir hann. Reikningarnir lagðir undir fundinn til samþykktar og voru þeir samþykktir með lófataki
Kjör stjórnar.
Þrjú sæti eru í kjöri til stjórnar og í framboði eru þrír, Arnþrúður Karlsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir og Helgi Jóhannsson lögfræðingur. Kjör stjórnar samþykkt af fundarmönnum með lófataki.
Ákvörðun félagsgjalds
Ingibjörg Birgisdóttir gjaldkeri félagsins kemur með tillögu um 4.500 kr. árgjald í félagið. Fundarstjóri ber tillögu um félagsgjald undir fundarmenn og er það samþykkt með lófataki.
Kjör/val í nefndir
Fundarstjóri tilkynnir að þeir sem vilja bjóða sig fram í nefndir geti skrifað sig á lista sem munu liggja frammi í hléi.
2. Önnur mál
Kjörfundaratkvæðagreiðsla.
Pálmi Finnbogason kynnti tillögur og niðurstöður stjórnar. Möguleikarnir sem voru ræddir voru póstatkvæðagreiðsla, utankjörfundaratkvæðagreiðsla og óbreytt fyrirkomulag, þ.e. atkvæðagreiðsla eingöngu á aðalfundi. Póstatkvæðagreiðsla þótti of dýr í framkvæmd þar sem senda þarf kjörseðla í pósti til allra fundarmanna auk frímerkts umslags fyrir kjörseðilinn. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla var rædd talsvert og þá gert ráð fyrir að kjörkassi væri á skrifstofu félagsins en talin var hætta á að mæting á aðalfund yrði minna virði fyrir félagsmenn. Stjórnin telur mætingu á aðalfund mikilvægari en kjör stjórnar. Óbreytt fyrirkomulag er sá háttur sem er yfirleitt hafður á í félagssamtökum sem þessum. Stjórnin lagði til óbreytt fyrirkomulag á kjöri stjórnar.
Umræður um framkvæmd á kjöri til stjórnar urðu þó nokkrar. Fundarmaður kom með þá fyrirspurn hvort ekki væri nauðsynlegt að hafa aðalfund á þeim tíma sem hentar betur fyrir þá sem búa úti á landi. Fram kom að reynt var fyrir einhverjum árum að hafa aðalfund á laugardegi en mæting var ekki betri en að kvöldi til á virkum degi. Þetta hefur ekki verið reynt aftur. Stjórnin ætlar að athuga þennan möguleika fyrir næsta aðalfund. Einn fundarmaður lýsti því yfir að hann væri afar ósáttur við niðurstöðu stjórnar og að vilji aðalfundar ársins 2006 hafi verið skýr um að jafnræði eigi að ríkja meðal félagsmanna með því að gefa þeim sem búa úti á landi tækifæri til að taka þátt í kjöri stjórnar. Annar fundarmaður benti á að hægt væri að halda kostnaði við póstatkvæðagreiðslu í lágmarki með því að að senda fundarboð aðalfundar fyrr þannig að hægt væri að senda atkvæðaseðil fyrir kjör stjórnar um leið og fundarboð er sent og að viðkomandi félagsmaður sem vildi kjósa myndi sjálfur greiða póstkostnað. Nauðsynlegt er að athuga hve hátt hlutfall félagsmanna býr á landsbyggðinni og í framhaldi af því að ákveða hvernig hægt er að koma til móts við félagsmenn varðandi kjör stjórnar. Fram kom hugmynd um að nota nýja spjallsvæðið á vefsíðunni eða einhvers konar vefkosningu til að kanna hug manna til atkvæðagreiðslu vegna stjórnarkjörs. Fundurinn beinir þeim tilmælum til stjórnar að hún endurskoði möguleika á framkvæmd til stjórnarkjörs.
Styrkjamálið
Karl Steinar Valsson sagði frá styrkjamálinu svokallaða. Þar sem tíð skipti voru á félagmálaráðherrum á tímabilinu var settur þrýstingur á núverandi félagsmálaráðherra svo að málið myndi ekki sofna. Skipuð var nefnd til að ákveða útfærslu á þessu styrkjum og lauk hún störfum í nóvember. Aðilar í nefndinni voru frá fjármálaráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu sem lítið þekktu þennan málaflokk og var því jákvætt að ÍÆ fékk að hafa einn fulltrúa í þessari nefnd. Lögð var áhersla á að gera styrkina eins einfalda og mögulegt var til að spara alla umsýslu og kostnað við afgreiðslu þeirra. Lagt var til svipað form eins og er í Danmörku þ.e. föst upphæð 480 þús sem verður endurskoðað eftir 2 ár. Leggja þarf inn reikninga fyrir kostnaði á móti styrkjaumsókninni, en ljóst er að ættleiðendur eru að leggja út mun meira fyrir ættleiðingunni en þessi styrktarupphæð hljóðar upp á. Málið naut góðs vilja frá öllum flokkum og tókst að fá þetta í gegn fyrir jól. Reglugerðin er ekki komin og ekki er byrjað að greiða út fyrstu styrkina en vonast er til að það verði innan skamms tíma. Áhersla var lögð á að fá inn ákveðna upphæð sem verður síðan reynt að hækka eftir þvi sem þurfa þykir í framtíðinni. Karl Steinar sagði að þetta styrkjamál hefði notið mikils velvilja alls staðar, í ráðuneytum og hjá alþingismönnum í öllum flokkum.
Störf ritnefndar
Kristjana Erlen kynnti störf ritnefndar sem sér um útgáfu á ritinu Ættleiðing. Frá síðasta aðalfundi hafa komið út tvö blöð, annað í júní 2006 og hitt í mars í 2007. Frá síðasta aðalfundi hafa verið haldnir 7 ritnefndarfundir.
Ein spurnng kom frá félagsmanni varðandi það að í blaðinu er engin umfjöllun um breytingar á lögum um ættleiðingar frá Kína þar sem ættleiðingar einhleypra er svo til útilokaðar eftir að þessar breytingar taka gildi. Kom fram í svari að umfjöllun um þessar breytingar hefði verið á heimasíðu ÍÆ þar sem hún var talin eiga betur heima en í blaðinu. Ritnefnd tók engu að síður undir þessa gagnrýni og hvetur félagsmenn til að koma með tillögur um efni í blaðið.
Störf PAS nefndar
Gerður kynnti starfsemi Post Adoption Service nefndarinnar. Nefndin var sett á laggirnar eftir síðasta aðalfund. Árið 2001 var af hálfu NAC (samtaka norrænu ættleiðingarfélaganna) gefin út skilgreining á PAS sem í stuttu máli segir að PAS sé fjölþætt aðstoð (jafnt fagleg, sem og félagsleg) til handa ákveðnum hópum sem hafa þörf fyrir stuðning sem tengist ættleiðingunni. Markmiðið er að aðstoða fjölskyldur við að aðlagast á sem bestan hátt að lokinni ættleiðingu. PAS nær jafnt til kjörbarna, kjörforeldra sem og stórfjölskyldunnar. Aðstoð þessi getur verið veitt á margbreytilegan hátt t.d. í formi fræðsluerinda og fyrirlestra, öflugs foreldrastarfs, reksturs bókasafns, útgáfu fræðsluefnis auk annarra þátta sem á einn eða annan hátt geta stutt við bakið á félagsmönnum. Til stendur að efla þetta starf enn frekar. Fyrsta verkefni nefndarinnar var að standa fyrir málþingi sl. haust þar sem boðið var upp á fjölbreytt úrval fyrirlestra. Tókst málþingið með ágætum en það sóttu um 100 manns. Stefnt er að því að halda fræðslufund í apríl næstkomandi, sem jafnframt verður endurtekinn á Akureyri í maí. Fyrirlesturinn verður auglýstur nánar þegar nær dregur. Í október er svo stefnt að því að halda annað málþing.
Það verkefni sem nefndin vinnur að um þessar mundir er að útbúa lista yfir sérfræðinga sem unnið hafa með ákveðin og skilgreind mál sem tengjast ættleiðingum s.s. lækna, sálfræðinga, talmeinafræðinga auk ýmissa annarra sérfræðinga, en gert er ráð fyrir að félagsmenn geti leitað til ÍÆ til að nálgast upplýsingar um slíka sérfræðinga. Búið er að semja bréf sem sent verður til að byrja með til um 25 fagaðila þar sem kannaður er áhugi á samstarfi við ÍÆ og hvort viðkomandi fagaðili sé tilbúinn að vera á þessum sérfræðingalista. Á listanum munu einnig verða nöfn kjörforeldra sem tilbúinir eru að miðla af eigin reynslu og styðja við bakið á væntanlegum og nýbökuðum kjörforeldrum.
Mikilvægt er, þegar farið er af stað með vinnu sem þessa, að vita hverjar þarfir félaga ÍÆ eru, hvar skortir helst þekkingu og hvað það er sem félagsmönnum finnst helst vanta. Gerður hvatti félagsmenn til að hafa samband við nefndina og koma skoðum sínum á framfæri með því að senda hugmyndir og vangaveltur á pas@isadopt.is.
Störf skemmtinefndar
Klara Geirsdóttir kynnti störf skemmtinefndar síðastliðið ár. Foreldramorgnar/fjölksyldustundir eru þriðja laugardag í hverjum mánuði, Hreyfiland er fyrsta laugardag í hverjum mánuði en síðan hafa verið uppákomur eins og furðufataball, jólaböll og fleira. Skemmtinefnd hefur helst verið gagnrýnd fyrir að vera ekki með dagskrá fyrir eldri krakkana í félaginu þ.e. 6 ára og eldri. Reynt var að fara í bíó en þátttaka var mjög léleg. Keila verður á sunnudaginn og hvatti Klara fólk til að mæta með eldri börnin. Netfang skemmtinefndar er nefndin@visir.is og Klara hvatti félagsmenn til að koma með hugmyndir. Útilegan í ár verður í Svarfaðardal og eru þeir sem eru á biðlista og ekki komnir með börn sérstaklega hvattir til að koma útileguna.
Störf fjáröflunarnefndar
Anna Margrét kynnti störf fjáröflunarnefndar á síðastliðnu ári. Sala á stuttermabolum með merki félagsins gekk vel, en 800 bolir voru gefnir af Láru og Bárði sem búsett eru í Kína og af þeim eru 64 bolir eftir. Prjónahúfur og flísvettlingar einnig frá Láru og Bárði komu rétt fyrir jólin og hefur sala á þeim gengið vel. Fyrirtæki á Flateyri gáfu leikskóla- og grunnskólabörnum þar í bæ húfur og vettlinga. Þá hefur fjáröflunarnefndin selt bókina Hjartagull sem Klara Geirsdóttir þýddi en 500 kr. af hverri bók rennur til félagsins. Innpökkun jólagjafa fyrir Hagkaup gaf af sér 150 þúsund. Haldið var skrappnámskeið í nóvember þar sem Þórunn Hinriksdóttir leiðbeindi. Tíu manns mættu og var afraksturinn 50 þús. fyrir kvöldið. Tveir styrkir bárust til nefndarinnar, annar frá Kaupfélagi Skagfirðinga upp á 100 þúsund og menningarsjóður Glitnis gaf 150 þúsund. Hægt að leggja inn á þrjá reikninga: Indlandsreikningur fer til verkefna á Indlandi, Kínareikningur fer til verkefna í Kína og óskilgreindur reikningur fer til annarra verkefna.
Hagnaður fjáröflunarnefndar árið 2006 er samtals 1.363.095. Sendir voru styrkir til Indlands 5000$ í október 2006 í verkefni sem tengjast fátækum börnum í Kolkata. Til Kína voru sendir 3000 $ í mars 2006 og 3000$ í mars 2007 og fór þeir í Tomorrow Plan Project.
Störf fræðslunefndar
Ingibjörg Birgisdóttir kynnti starfsemi fræðslunefndar síðastliðið ár. Fræðslunámskeið fyrir þá sem eru að ættleiða í fyrsta skiptið var fyrirferðamesti þáttur í starfi nefndarinnar. Arndís Þorsteinsdóttir og Hörður Svavarsson bættust í hóp leiðbeinenda síðastliðið haust. Haldin verða 5 til 6 námskeið á ári eftir fjölda þátttakenda en Lene Kamm sérfræðingur frá Danmörku kemur einu sinni á ári og er með handleiðslu fyrir leiðbeinendur. Lene Kamm mun einnig halda erindi á námsstefnu sem dóms- og kirkjumálaráðuneyti mun halda fyrir starfsfólk félagsþjónustu sveitarfélaganna. Annað fræðslustarf innan félagsins er PAS nefndin og spjallkvöld á vegum skemmtinefndar. Þá hafa verið gefin út fræðsluritin “Kjörbörn og kynbörn” og “Kjörnbörn og skóli” sem hægt er að kaupa á skrifstofu ÍÆ.
Umræða um ættleiðingar einhleypra
Fundarmaður kvað sér hljóðs með fyrirspurn um hvað stjórn ætli að gera til að koma til móts við einhleypa sem eiga litla sem enga möguleika á að ættleiða. Félagið er að mismuna félagsmönnum þar sem þessi hópur hefur ekki lengur möguleika á ættleiðingu. Ingibjörg Jónsdóttir svaraði fyrirspurninni á þann hjátt að hlutverk félagsins sé að halda úti þeim samböndum sem þegar eru og leita eftir nýjum samböndum en það hefur enn sem komið er ekki borið árangur.
Önnur fyrirspurn kom frá fundarmanni um það hvernig haldið er utan um skráningu á hliðarlista fyrir einhleypa. Guðrún starfsmaður á skrifstofu félagsins svaraði að þeir sem hafa samband við skrifstofuna og greiða árgjald félagsins séu skráðir á hliðarlistann en biðlistagjald er ekki greitt við skráningu á hliðarlista. Staða einhleypra er mjög erfið í dag en mjög fá lönd eru opin fyrir ættleiðingar einhleypra. Ingibjörg Birgisdóttir bætti við að staðan væri ekki góð í ættleiðingarlöndunum, fjöldi umsækjenda er fleiri en fjöldi barna sem eru til ættleiðingar og fjöldi para er það mikill að einhleypir hafa mjög takmarkaða möguleika.
Þá kvartaði fundarmaðurinn undan slæmri þjónustu ÍÆ, lélegum og misvísandi svörum á skrifstofu og að félagið væri ekki að standa sig í öflun nýrra sambanda fyrir einhleypa.
Umræða um húsnæðismál
Fundarmaður kom með fyrirspurn um það hvort að stjórn væri að leita að húsnæði sem hentar starfsemi félagsins þannig að hægt sé að komast hjá því að borga leigu á öðrum stöðum. Fram kom hjá stjórn að leitað hefur verið að húsnæði en ekki hefur fundist heppilegt húsnæði sem ÍÆ hefur ráð á. Leit verður haldið áfram.
Fleiri kváðu sér ekki hljóðs og þakkaði Hrafnhildur fundarmönnum fundarsetuna, benti á erindi Ketils Lehlands eftir kaffihlé um breytingar í alþjóðlegum ættleiðingum. Að svo búnu sleit hún fundinum.
Arnþrúður Karlsdóttir
Fundarritari