Aðalfundur ÍÆ 25. mars 2014
Stjórn Íslenskrar ættleiðingar, boðar til aðalfundar sem haldinn verður í hátíðarsal Tækniskóla Íslands (gamla Sjómannaskólanum), Háteigsvegi, þriðjudaginn 25. mars 2013, kl. 20:00.
Dagskrá fundarins er samkvæmt samþykktum félagsins hefðbundin aðalfundarstörf.
Þrjár tillögur að breytingum á samþykktum félagsins bárust stjórn ÍÆ fyrir janúarlok og ber að kynna þær í fundarboði svo hægt sé að bera þær upp á aðalfundi.
1. Lagt er til að í stað orðanna “í marsmánuði” í fyrstu málsgrein 7. gr. samþykktanna komi orðin “fyrir marslok”
Eftir breytingu verði 1. mgr. 7. gr, samþykkta ÍÆ svohljóðandi: Aðalfundur skal haldinn fyrir marslok ár hvert. Skal hann boðaður bréflega eða með öðrum sannanlegum hætti með minnst þriggja vikna fyrirvara. Til aukaaðalfundar skal boða með sama fyrirkomulagi og til aðalfundar samkvæmt 7. mgr.
2. Lagt er til að í stað orðann “Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna” í 1. mgr. 2. gr. Samþykkta ÍÆ komi orðin “Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins”
Eftir breytingu verði 1. mgr. 2. gr. Svohljóðandi:
að vinna að alþjóðlegum ættleiðingum með því markmiði að hagsmunir barnsins séu ávallt hafðir í fyrirrúmi í anda Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Haagsamningsins um alþjóðlegar ættleiðingar.
3. Lagt er til að í stað orðanna “þau greiða” í 1. mgr. 4. gr. samþykkta ÍÆ komi orðin “fyrir þau er greitt”
Eftir breytingu verði 1. mgr. 4. gr. svohljóðandi:
Félagsmenn eru einstaklingar sem skrá sig í félagið og greiða félagsgjald. Foreldrar geta skráð börn sín í félagið en fyrir þau er greitt hálft félagsgjald.
Vert er að taka fram að þann 9. febrúar var boðað að aðalfundur 2014 færi fram þann 4. mars en vegna ábendingar um að fundurinn væri lítið auglýstur ákvað stjórn ÍÆ að fresta fundinum og boða hann á nýrri dagsetningu.