Fréttir

Aðalfundur ÍÆ 31.03.2005

haldinn 31.03.2005
á Foss hótel Lind, Rauðarstíg, kl. 20:30.

Fundargerð.

Aðalfundur ÍÆ hófst sem fyrr á því að Lisa Yoder formaður, bauð gesti velkomna og lagði til að Guðmundi Rúnari Árnasyni yrði falin fundarstjórn og Ásta Björg Þorbjörnsdóttir yrði ritari fundarins og var það samþykkt. Guðmundur tók þegar við embættinu og lagði til smávægilegar tilfæringar á liðum aðalfundar og voru þær breytingar samþykktar með lófataki.

Skýrsla stjórnar.
Lisa Yoder formaður, flutti skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár. Sjá fylgiskjal.
Fundarmönnum var gefinn kostur á að tjá sig um skýrsluna. Gíslína sagði frá því að frumvarp lægi nú þegar fyrir varðandi styrkveitingu til kjörforeldra.

Spurt var um hlutfall einhleypra sem fengu að ættleiða. Guðrún Sveinsdóttir skýrði það mál. Þeir eru 8 % af heildinni og ekki líklegt að það hlutfall breytist.

Ársreikningar félagsins
Ingvar lagði fram reikninga félagsins. Eftir hetjulega baráttu við skjávarpann fór það svo að Ingvar las upp það markverðasta úr reikningunum því letrið var svo smátt á veggnum. Fundarmönnum var gefinn kostur á að tjá sig um ársreikningana.

Nokkuð var rætt um að nota heimasíðuna meira til að kynna og leiðbeina félagsmönnum t.d hvernig hægt sé að gefa fé reglubundið til ÍÆ með sem minnstri vinnu félagsmanna . Kerfið sem hingað til hefur verið notað af félaginu er Alefli, sem er söfnunar og greiðslukerfi VISA en það er einmitt mikið notað af félagasamtökum til að safna fé til starfsemi sinnar.

Spurt var um hvernig þessu fé sem þannig væri safnað væri ráðstafað. Ingvar sagði að féð væri eyrnamerkt löndunum sem við ættleiðum frá og ætlað til að styrkja ákveðin verkefni í hverju landi.

Reikningar voru síðan samþykktir samhljóða.

Ákvörðun árgjalds.
Ingvar lagði fram tillögu frá stjórn. Hún var svohljóðandi:

Stjórnin gerir að tillögu sinni að árgjaldið fyrir árið 2005 verði eitt kr. 3500 fyrir alla félagsmenn og að ekki verði um tvískipt gjald að ræða eins og verið hefur, það er hærra gjald fyrstu 5 árin en lækki eftir það.

Í stuttu máli var hún á þá leið að hætt verði við að hafa tvískipt árgjald og haft eitt árgjald fyrir alla. Ljóst er að þessi breyting mun ekki hafa afgerandi áhrif á fjárhagslega afkomu félagsins.

Spurning barst úr sal um hvort innheimtuferli við rukkun á árgjaldi verði breytt. Margir vilja að farin verði greiðsluseðlaleiðin, þe. mynduð krafa sem birtist í heimabönkum öllum til þæginda. Guðrún sagði að þetta hefði oft komið til álita en vegna þess hve ættleiðingar eru sumum viðkvæmt mál hefur ekki verið talið rétt að fara þá leið. Það myndi þýða að félagið yrði að afhenda nafnalista til bankanna, en þessar upplýsingar heyra undir persónuverndarlög og er þar af leiðandi óheimilt að leggja fram á obinberum vettvangi.

Tillagan um 3500 króna árgjald var samþykkt samhljóða.

Kynning nefnda.
Fræðslunefnd.
Ingibjörg Jónsdóttir, í fræðslunefnd hóf sitt mál. Fimm námskeið hafa verið haldin í vetur. Einnig hefur verið haldið eitt námskeið í Háskólanum . Hún vonaðist eftir einu til viðbótar á haustdögum, um reglugerðarbreytinguna.

Fundur var haldinn með Lene Kam til að forma nýjar leiðir í námskeiðahaldi á vegum félagsins t.d. helgarnámskeið.
Þýðing á bæklingum frá Lene Kam stendur nú yfir, kennsluefni sem félaginu er frjálst að nota á sínum námskeiðum.

Lene Kam kemur aftur í vor og verður þá skipulagt námskeiðahaldið í framtíðinni.

Skemmtinefnd.
Klara Geirsdóttir og Arnþrúður Karlsdóttir töluðu máli skemmtinefndar.
Það voru 5 félagsmenn í skemmtinefndinni sl. starfsár. Þær hafa margar hugmyndir um hvernig megi efla félagsstarfið. Starfið er mjög skemmtilegt en tímafrekt og óskað var eftir fleirum í nefndina.
Þær sögðu frá hugmynd að nokkurs konar þjóðarhátíð í haust. Það sem gert er í dag, þe. foreldramorgnarnir eru meira fyrir foreldrana eins og nafnið gefur til kynna en þetta yrði fyrir alla. Þá sem bíða eftir barni, þá sem þegar eru komin með barn og fyrir ung og eldri ættleidd börn. Gaman væri að gera þetta þannig að alla langi til að mæta.

Það sem skemmtinefnd hefur m.a. staðið fyrir fyrir utan það sem formaður tiltók í sinni skýrslu er m.a.
andabrauð, sumargrill og piparkökumálun. Allt atriði sem áfram verður boðið upp á.

Á fundinum lögðu þær fram skoðanakönnun um það hvað fólk vilji helst gera.

Leitað er að nýjum aðilum til að taka þátt í skemmtilegu starfi.

Ritnefnd
Gíslína talaði fyrir hönd ritnefndar. Hún auglýsti eftir efni og myndum í blaðið.

Fjáröflunarnefnd

Kristjana Erlend talaði fyrir hönd fjáröflunarnefndar.
Útbúnir voru bolir til fjáröflunar sem seldir voru í útilegunni. Þeir hafa ekki skilað miklu því stofnkostnaður er mikill og marga boli þarf að selja áður en þetta fer að bera sig.
Hún sagði frá því að aðilar búsettir í Kína, Lára og Baddi hefðu haft hug á að útbúa slíka boli í stórum stíl og gefa til félagsins. Stefnt er að því að selja þá í næstu útilegu.
Kristjana minntist á hvatningargrein um fjáröflun sem skrifuð var í síðasta fréttablað og hvatti félagsmenn til að sinna þessu málefni betur.

Kjör stjórnar.
Guðmundur Rúnar kynnti háttinn sem yrði á þessu stjórnarkjöri.
Þar sem 4 gáfu kost á sér í 3 sæti í stjórn til næstu tveggja ára þurfti að fara fram kosning.
Auglýst var eftir fleiri framboðum en síðan las hann upp þá sem voru í kjöri.
Þeir sem buðu sig fram í stjórn voru:

• Arnþrúður Karlsdóttir
• Friðjón Guðjohnsen
• Ingibjörg Jónsdóttir
• Lisa Yoder

Allir fengu tækifæri til að stíga í pontu og kynna sig.

Friðjón byrjaði.
Hann taldi fram ýmsa jákvæða og neikvæða hluti í félaginu. Biðlista vildi hann hafa gegnsærri og aðgengilegri félagsmönnum. Birta ætti lista yfir umsóknir sem væru farnar út. Verkferlar ættu að vera skýrari og gegnsærri.
Góða fræðslu þyrfti bæði fyrir og eftir ættleiðingu.
Miðla þyrfti betur upplýsingum til félagsmanna, breytingum sem verða í löndunum, fundargerðir sýnilegri.
Félagið sé til að þjóna foreldrum en með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Þá Arnþrúður.
Hún sagðist hafa mikinn áhuga á félagsstörfum yfirleitt. Henni er hlýtt til félagsins og vill gjarnan og hlakkar til að starfa fyrir það. Hún var formaður félagsins “Einstök börn” til tveggja ára.

Síðan Ingibjörg.
Hún hefur starfað í stjórn og sinnt fræðslumálum um nokkurt skeið.
Starfar sem Félagsráðgjafi.

Að lokum tók Lisa til máls.
Hún hefur verið formaður félagsins undanfarin ár en starfað í stjórn frá 1995. Þetta er félagsskapur sem hún vill gjarnan starfa fyrir. Á þessum tíma hefur verið unnið að ýmsum réttindamálum og nú síðast reynt að koma á styrkjum fyrir foreldra.
Félagið fékk löggildingu og margt hefur breyst á undanförnum árum.

Þá var gengið til kjörs á nýrri stjórn félagsins.
Guðmundur Rúnar, fundarstjóri stakk upp á Pálma og Guðmundi í stjórn ÍÆ, í kjörnefnd.
Spurningu var varpað úr sal hvort seðillinn yrði ógildur ef ekki vær merkt við 3 nöfn. Þessu var varpað til ákvörðunar fundarins og samþykkt að til að seðill teldist gildur kjörseðill þyrfti að merkja við 3 aðila.

Kjör nefnda

Næst voru tilgreindir þeir aðilar sem gáfu kost á sér í nefndir félagsins.

Ritnefnd:

• Alda Sigurðardóttir
• Snjólaug Sigurðardóttir
• Sigrún Þorbergsdóttir
• Þórdís Ívardóttir

Skemmtinefnd:

• Arnþrúður Karlsdóttir
• Birna Blöndal
• Inga Magga
• Ingibjörg Marísdóttir
• Klara Geirsdóttir
• Kristín Skjaldardóttir
• Laufey á Ísafirði

Fjáröflunarnefnd:

• Anna Margrét Jónsdóttirr
• Kristjana E. Jóhannsdóttir
• Sigríður Ingólfsdóttir

Fræðslunefnd:

• Ingibjörg Birgisdóttir
• Ingibjörg Jónsdóttir

Næst var kaffi.

Eftir kaffið steig talsmaður kjörnefndar í pontu, Pálmi og kynnti niðurstöður kosninga.
Fjörtíu og sex aðilar greiddu atkvæði.

Rétt kjörnir í stjórn starfsárið 2005-2006 voru Arnþrúður Karlsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir og Lisa Yoder.

Stjórn ÍÆ skipa því:

• Arnþrúður Karlsdóttir
• Gerður Guðmundsdóttir
• Guðmundur Guðmundsson
• Helga Gísladóttir
• Ingibjörg Jónsdóttir
• Ingvar Kristjánsson
• Lisa Yoder.

Önnur mál
Ásta Þorbjörnsdóttir, fráfarandi stjórnarmaður steig fyrst í pontu og lýsti því yfir að það hafi alltaf verið eindreginn vilji stjórnar að birta fundargerðir á netinu. Það væri ekki sök annarra stjórnarmanna en hennar sá dráttur sem orðið hefur á birtingu fundargerðanna.

Sigríður Ingólfsdóttir steig næst fram og spurði um nýju reglugerðina. Henni fannst hún sérkennileg og illa unnin og mörg atriði sem þyrfti að taka á sem ekki væri í reglugerðinni. Hún nefndi t.d. áfengisvandamál og offitu. Hún kvaðst líka sakna umræðu og kynningu á reglugerðinni.

Lisa, formaður fyrri stjórnar, sagði að reglugerðin væri einhliða sett af ráðuneytinu en stjórn hefði fengið leyfi til að yfirfara og breyta lítilsháttar. Hún sagði það þó mestan mun að komnar væru reglur á íslensku sem hægt væri að vísa til. Þetta hafi verið birt á heimasíðunni.

Klara Geirsdóttir tók undir með Lisu og taldi það mjög til bóta að hafa reglur á íslensku í stað þessara dönsku greina.

Gerður Guðmundsdóttir minnti á bókasafn félagsins og hvatti fólk til að koma við í heimsókn og skoða efnið sem til væri.

Þá var komið að lokum aðalfundarins. Guðmundur Árni, óskaði nýrri stjórn velfarnaðar í starfi og sleit fundi.

Fundi slitið kl. 23:11.
Ásta B. Þorbjörnsdóttir.


Svæði