Fréttir

Ættleiðingarstyrkir – örlítil upprifjan

Helgi Seljan
Helgi Seljan
9. desember 2006 | Aðsent efni | 404 orð | 1 mynd

Ættleiðingarstyrkir – örlítil upprifjan

Helgi Seljan skrifar um ættleiðingarstyrki:
"Það er hins vegar til umhugsunar að alltaf miðar okkur nú eitthvað áfram í þeirri samfélagslegu viðmiðun sem mér þykir að alltaf eigi að móta öll okkar lög."
ÞAÐ gladdi sannarlega hug minn þegar Alþingi samþykkti styrkveitingar til foreldra sem ættleiða börn erlendis frá með ærnum tilkostnaði og þakkir margra fá félagsmálaráðherra og alþingismenn örugglega fyrir þessa lagasetningu, sem löngu var tímabær.

Þegar litið er til þessara sanngjörnu laga fer ekki hjá því að hugur minn reiki um 20 ár aftur í tímann, allt aftur til ársins 1985, en þá flutti ég ásamt Karvel Pálmasyni tillögu til þingsályktunar um skattaívilnun til foreldra sem ættleiddu börn með gífurlegum tilkostnaði erlendis frá, svo vitnað sé beint í tillögugreinina.

Ekki er ég að þessu til að stæra okkur Karvel af framsýni á þeim dögum eða á annan hátt, heldur einungis að benda á þá viðhorfsbreytingu sem hér hefur blessunarlega á orðið. Sannleikurinn nefnilega sá að tillagan fékk engar undirtektir, í bezta falli góðlátleg bros yfir því hvað mönnum eins og okkur gæti nú dottið mikil fjarstæða í hug og ýmsar athugasemdir þar um eru geymdar en ekki gleymdar. Við vorum með í huga skattaívilnun í stað þess styrks sem nú hefur verið lögfestur en í sama stað kemur hvort tveggja, samfélagslegur stuðningur er niðurstaðan á hvorn veg sem litið er.

Í greinargerð segir m.a.: "Ættleiðingar barna erlendis frá færast sífellt í vöxt. Ástæður eru öllum kunnar og eiga fyllsta rétt á sér frá tilfinningalegu og mannlegu sjónarmiði. Auk þess að hafa ómetanlegt og varanlegt lífsgildi fyrir viðkomandi foreldra er einnig oft um að ræða björgun mannslífa." Eftir að hafa minnt á hina miklu og tilfinnanlegu kostnaðarhlið þessa alls er svo sagt að auðvitað komi margt fleira og þýðingarmeira til: "Aukin lífsgæfa, meiri lífsfylling, nýr lífstilgangur – þessir þættir verða að vísu aldrei metnir til fjár eða mældir á skattavog, en þetta fólk hlýtur að eiga til þess nokkurn rétt að samfélagið taki tillit til alls þessa." Ekki skal frekar rakinn rökstuðningur okkar félaga, en til að taka af öll tvímæli þá er upphaf þessarar tillögu að finna hjá konu austur á Stöðvarfirði sem hafði bæði sterka réttlætiskennd og samfélagslega sýn til að bera og hefur í engu fölskvast í tímans rás.

Það er hins vegar til umhugsunar að alltaf miðar okkur nú eitthvað áfram í þeirri samfélagslegu viðmiðun sem mér þykir að alltaf eigi að móta öll okkar lög.

Tillagan okkar Karvels fékk góðlátleg bros á sinni tíð, ekki alveg laus við hæðni, en nú sameinast þingheimur um mikið réttlætismál. Megum við því ekki af því tilefni segja: Heimur batnandi fer.

Höfundur er fv. alþingismaður.

Ættleiðingarstyrkir – örlítil upprifjan


Svæði