Akureyri vikublað - Katrín Mörk var ættleidd til Íslands tveggja vikna gömul: „Langar að vita hvaðan ég kem“
Katrín Mörk Melsen var tveggja vikna þegar hún var ættleidd frá Srí Lanka. Í einlægu viðtali ræðir Katrín um konuna sem gaf hana, þá tilfinningu sem hún upplifði í æsku að passa hvergi inn, uppreisnina á unglingsárunum og lífið með Óliver Viktori, sex ára syni sínum, sem er ofvirkur og mikið einhverfur.
Katrín Mörk Margir muna eftir Katrínu úr raunveruleikaþættinum Biggest Loser Ísland. Mynd/Guðrún Þórs.
Ég vissi lítið um einhverfu áður en ég eignaðist hann. Staðalímyndin af einhverfum einstaklingi, og það sem við sjáum í bíómyndum, er oft einhver sem vill ekki láta knúsa sig og horfir ekki í augun á þér. Þetta er hins vegar miklu flóknara,
segir Katrín Mörk Melsen en sex ára sonur hennar, Óliver Viktor, er ofvirkur, mikið einhverfur og flókinn einstaklingur.
Endalaus rússíbani
Katrín og eiginmaður hennar, Egill Örn Sigurðsson, eiga þrjú börn, Erika Rakel, átta ára, er elst, svo Óliver Viktor og yngstur er Baltasar Kasper sem er þriggja ára.
Þetta er endalaus rússíbani. Einhverfa Ólivers Viktors er mjög sveiflukennd eins og algengt er hjá einhverfum. Það er ekkert sem heitir stabílitet,
segir Katrín og bætir við að Óliver hafi strax verið frábrugðinn systkinum sínum. „Erika svaf ekki heila nótt fyrr en hún varð 18 mánaða. Hún var alltaf veik, með í eyrum, bakflæði og allan pakkann. Óliver var hins vegar mjög vær og svaf í sínu herbergi frá upphafi. Hann var algjört draumabarn og ég man að ég hugsaði með mér að þetta væri of gott til að vera satt.“
Talar ekkert
Þegar Óliver varð átta mánaða fóru hlutirnir að breytast. „Hann var afar rellinn og vildi einungis vera hjá mér, ekkert hjá öðrum. Eins árs sagði hann tvö orð en svo hurfu þau og í dag talar hann ekkert. Pabbi hans sagði einhvern tímann við mig að hann grunaði að um einhverfu væri að ræða en ég vísaði því á bug enda vissi ég varla hvað einhverfa er. Pabbi hans fann þetta greinilega á sér og svo í 18 mánaða skoðun fór allt af stað. Hann var ekki einu sinni sendur suður á greiningarstöðina, einhverfan var svo afgerandi.“
Varanleg röskun
Katrín man lítið eftir þeim tíma þegar Óliver Viktor fékk greininguna.
Ég datt bara út og þegar ég hugsa um það man ég ekki einu sinni eftir dóttur minni, sem þá var fjögurra ára. Það eina sem ég gat hugsað var; hvað verður um hann? Ég las allt sem ég fann um einhverfu, öll viðtöl, reynslusögur, fór á öll námskeið sem ég fann og var staðráðin í að tækla þetta og laga hann – sigra heiminn. Smám saman skall raunveruleikinn á mér og ég gerði mér grein fyrir að ég væri ekki að fara að breyta neinu. Einhverfa er ekki sjúkdómur. Hún er ekki læknanleg. Þetta er varanleg röskun; fötlun. Óliver er fullkomlega heilbrigður en heili hans virkar öðruvísi,
segir hún og viðurkennir að hún hafi gengið í gegnum sorgarferli. „Ég syrgði framtíð hans. Allt sem ég hafði óskað mér fyrir hann fór á hvolf. Í dag tek ég bara einn dag í einu. Það þýðir ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni þar sem ég veit nákvæmlega ekkert um hana. Ég vona að Óliver geti öðlast sjálfstætt líf en ég er hætt að missa mig í „hvað ef“ vangaveltur. Slíkt gerir mann brjálaðan.“
Mæðgurnar Katrín Mörk og Erika Rakel
Katrín var aðeins 16 ára þegar hún elti strák norður og hefur búið þar síðan.
Breytist í Hulk
Katrín segir síðasta ár hafa verið erfitt. Óliver hafi byrjaði í skóla en þar sem breytingar fari illa í hann hafi honum liðið illa og köstin því orðið mörg. Í lok árs hafi hins vegar farið að ganga betur, köstin orðið sjaldgæfari og viðráðanlegri.
Í kasti öskrar hann og gengur berserksgang. Þótt hann sé aðeins sex ára er hann nautsterkur þegar adrenalínið flæðir um hann. Hann hefur kastað stól í hausinn á mér, brotið klósett, brotið sjónvarp, brotið gluggakistu. Hann breytist í lítinn Hulk. Í verstu köstunum grenja ég yfirleitt með honum því ég veit að þetta er bara lítill strákur sem kann ekki að höndla aðstæður. Svona tjáir hann sig. Hann er verstur við mig og verður brjálaður ef ég fer á klósettið eða út úr húsinu. Ég er því alltaf með hnút í maganum og eins og njósnari að reikna út hvernig ég komist í burtu óséð. Stundum tek ég slaginn en það kostar kast sem getur tekið klukkutíma. Svo þegar kastinu lýkur er hann í svitabaði, algjörlega búinn á því og vill bara liggja í fanginu á mér. Við Egill erum eins og FBI-fulltrúar, alltaf að reyna að lesa í aðstæður til að vera tíu skrefum á undan honum í von um að koma í veg fyrir kast. Það fer mikil orka í þetta, hausinn þarf alltaf að vera á fullu.
Taugaáfall vegna álags
Litli bróðir hans fær sérstaklega að kenna á því. „Honum hefur verið illa við Baltasar frá upphafi og þess vegna er hann svona reiður við mig; ég kom með þetta barn inn á heimilið. Hann hefur margoft reynt að berja Baltasar og handleggsbraut mig einu sinni þegar hann ætlaði að sparka í hann. Mér tókst að setja höndina á milli og það brotnaði bein í úlnliðnum,“ segir Katrín sem fékk taugaáfall árið 2014 sökum álags. „Egill var á þessum tíma í háskólanámi og ég var alveg svefnlaus. Þetta var á því tímabili sem Óliver dreifði kúknum sínum um allt. Við urðum að skipta um öll teppi. Einn daginn sat ég í stiganum, öll útötuð í kúk, kúkur í teppinu, á veggjunum og báðir strákarnir grátandi. Ég var gjörsamlega búin og þegar maðurinn minn kom gangandi upp stigann byrjaði ég að öskra og garga. Þetta var ein ógeðslegasta tilfinning sem ég hef upplifað. Egill fór strax með mig upp á sjúkrahús. Mér fannst ég gjörsamlega misheppnuð en hitti geðlækni sem sagði að það væri ekkert að mér og útskýrði fyrir mér að hvaða manneskja sem er hefði farið yfir um í þessum aðstæðum. Ég man hvað ég fann fyrir miklum létti. Ég hafði reynt að gera mitt besta svo lengi en aðstæðurnar voru algjörlega yfirþyrmandi. Upp frá þessu fór ég að vinna í sjálfri mér.“
Saman á þrjóskunni
Katrín viðurkennir að álagið hafi komið niður á hjónabandinu. „Við höfum varla sofið í átta ár og svefnleysi gerir mann sturlaðan. Óliver hefur mikinn áhuga á tónlist og vaknar reglulega um þrjú, fjögur á nóttunni syngjandi og trommandi lög með Michael Jackson og Queen og vekur þannig alla fjölskylduna. Hann er ekki með slæman tónlistarsmekk en að vakna við þetta um miðjar nætur gerir mann ansi lúinn. Ég er ekkert hissa á að skilnaðartíðni foreldra fatlaðra barna sé um 80 prósent. Þetta er verulega strembið. Við Egill höfum breyst og þroskast í ólíkar áttir. Það sem hefur ekki breyst og mun vonandi aldrei breytast er að við erum samtaka í því sem snýr að velferð Ólivers Viktors sem og allra barnanna okkar. Þar bökkum við hvort annað upp. Það þekkir mig enginn betur en Egill og öfugt enda höfum við gengið í gegnum ótrúleg tímabil þar sem við höfum fengið að sjá hið rétta eðli hvort annars. Það hefði til dæmis verið auðvelt fyrir hann að ganga í burtu þegar ég fékk taugaáfallið og ég hefði líka getað fengið nóg þegar hann tók tímabil þar sem hann vildi ekki ræða við mig um neitt. Ég veit ekki hvað hefur haldið okkur saman, nema kannski þrjóskan. Á átta árum höfum við aldrei farið í frí tvö saman, ekki einu sinni í sumarbústað.“
Fjölskyldan
Katrín og eiginmaður hennar, Egill Örn Sigurðsson, eiga þrjú börn, Erika Rakel, átta ára, er elst, svo Óliver Viktor og yngstur er Baltasar Kasper sem er þriggja ára.
Upplifði sig öðruvísi
Margir muna eftir Katrínu eftir að hún tók þátt í raunveruleikaþættinum Biggest Loser. Hún hefur búið á Akureyri frá 16 ára aldri en var alin upp í Reykjavík, miðbarnið í hópi þriggja systkina.
Systir mín er níu árum eldri en ég en svo áttu mamma og pabbi ekki að geta eignast fleiri börn. Ég var því ættleidd, tveggja vikna gömul, frá Srí Lanka. Tæpum tveimur árum síðar fæddist svo bróðir minn. Ég átti erfitt með að eignast systkini enda hafði ég fengið alla athyglina þar til hann fæddist. Ég hafði alltaf lítið sjálfstraust en bróðir minn var öruggur með sig, gekk vel í skóla og var góður í íþróttum. Ég hafði enga trú á að það yrði eitthvað úr mér og fannst ég hvergi passa inn og þótt fjölskyldan hafi aldrei látið mér finnast það þá upplifði ég mig öðruvísi,
segir hún og bætir við að hún hafi verið erfiður unglingur. „Ég strauk að heiman og vildi bara hanga með eldri krökkum. Ég er mikill „rebel“ í eðli mínu og hef alltaf farið mínar eigin leiðir. Aðeins 16 ára elti ég strák norður og þótt við hættum saman var ég of þrjósk og stolt til að fara heim aftur. Ég bjó þess í stað hér og þar þangað til ég kynntist manninum mínum, Agli, sem var það besta sem gat komið fyrir mig á þeim tíma. Egill var svo saklaus, kom úr vernduðu umhverfi og hafði góð áhrif á mig. Ég hafði verið týnd svo lengi og hafði eflaust verið þunglynd. Ég hef ekki verið auðveld fyrir mömmu og pabba.“
Gefin tveggja vikna
Katrín Mörk fæddist í Colombo, höfuðborg Srí Lanka. „Ég veit að blóðmóðir mín átti dreng fyrir og að blóðfaðir minn yfirgaf þau þegar hún gekk með mig svo hún sá enga aðra leið en að gefa mig frá sér. Það er ekki hægt að ímynda sér aðstæðurnar. Pabbi stalst til að taka mynd af henni þegar hún rétti mömmu mig. Þetta er svo falleg mynd en það er svo mikil sorg í andliti þessarar konu. Þau máttu ekki tala við hana, ekki þakka henni fyrir eða rétta henni pening. Hún átti bara að rétta þeim barnið og láta sig hverfa. Maður fær sting í hjartað. Ef ég fæ einhvern tímann tækifæri til að hitta hana langar mig að þakka henni fyrir og segja henni að hún hafi tekið rétta ákvörðun – að það sé í lagi með mig og ég hafi fengið góða fjölskyldu. Vonandi get ég sagt henni þetta en ef ekki, þá vona ég að hún viti það innst inni.“
Þráir stöðugleika
Katrín viðurkennir að hafa mikinn áhuga á Srí Lanka en segist framan af ekki hafa viljað vita neitt um upprunann.
Ég held að mér hafi fundist það of sárt en í dag langar mig að vita hvaðan ég kem. Það er hins vegar dýrt ferli og eitthvað sem ég get ekki lagt á fjölskyldu mína núna. Það mun bíða. Eins og er ganga börnin mín fyrir. Það mikilvægasta er að ná jafnvægi í lífi þeirra áður en ég fer af stað og róta upp í mínu lífi. Núna þurfum við að koma á stöðugleika á heimilinu og komast til botns í þessum svefnvandamálum krakkanna svo við getum öll sofið betur.
Þakklát fyrir stuðninginn
Katrín vill koma þökkum til Elvu Haraldsdóttur hjá Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar.
Við eigum henni svo margt að þakka. Hún tók á móti mér í geðshræringu, reiðri, sorgmæddri, pirraðri. Alltaf tók hún á móti mér með breitt bak, með ráðleggingar, tilbúin að gera allt fyrir okkur. Ég veit ekki hvar við værum án hennar. Við erum líka afar þakklát fyrir stuðningsfjölskyldu Ólivers Viktors sem hefur algjörlega bjargað okkur. Óliver elskar þau og ég er ekki viss um að ég muni nokkurn tímann sleppa þeim,
segir hún brosandi og bætir við að þrátt fyrir að Óliver sé krefjandi sé hún óendanlega þakklát fyrir að fá að vera mamma hans. „Ég trúi því að okkur séu falin verkefni sem við ráðum við og ég er upp með mér að mér skuli vera treyst fyrir þessu ótrúlega stóra verkefni. Þetta er hins vegar miklu meira en að segja það og bitnar oft mikið á hinum börnunum og þá sérstaklega dóttur okkar. Oft er maður alveg búinn með þolinmæðina. En sem betur fer kann ég að biðjast fyrirgefningar og þá útskýri ég fyrir henni að mamma sé ekki fullkomin, að ég hafi átt erfiðan dag og hafi látið það bitna á henni. Í gegnum þetta ferðalag okkar með Óliver hef ég lært svo margt varðandi sjálfa mig. Ég hefði aldrei unnið í mínum ókláruðu málum nema fyrir hann. Vegna hans hef ég komist að því hvernig manneskja ég er og vil vera.“