Annað danska ættleiðingarfélagið missir starfsleyfi tímabundið
Stjórnvöld í Danmörku hafa ákveðið að svipta AC Børnehjælp, annað af tveimur ættleiðingarfélögum í landinu, starfsleyfi tímabundið vegna óreiðu í fjármálum.
Ákvörðun ráðherrans, Annette Vilhelmsen, er grundvölluð á tveimur skýrslum sem miðstjórnvaldið gerði um starfsemi AC árið 2012 og aftur núna á nýliðnu ári. Samkvæmt upplýsingum sem framkvæmdastjóri ættleiðingarfélagsins hefur sent Íslenskri ættleiðingu gerði ráðuneytið ættleiðingarfélaginu ekki grein fyrir væntanlegri ákvörðun sinni með fyrirvara og fékk starfsfólk félagsins fyrst fréttir af málinu í fjölmiðlum. Starfsfólk AC Børnehjælp hefur því haft í nógu að snúast við að upplýsa fjögur hundruð umsækjendur sem eru á biðlista hjá félaginu, um hvað nú taki við og koma fréttum á framfæri við almenning og fjölmiðla.
Aðstandendur AC Børnehjælp hafa greint okkur frá því að starfsmaður félagsins hafi verið staðinn að fjárdrætti og félagið hafi kært hann til lögreglu. Í skýrslu danskra stjórnvalda er hinsvegar talað um fjármálaóreiðu hjá félaginu og að stjórn þess hafi ekki getað greint stjórnvöldum frá því hvernig greitt verði úr henni né heldur hvernig fjármálaumsýslu félagsins verði hagað með öruggum hætti í framtíðinni.
Í þessu samhengi má geta þess að á nýliðnu ári var hitt danska ættleiðingarfélagið, Danadopt, svipt leyfi tímabundið til að hafa milligöngu um ættleiðingar frá Eþíópíu. Það var í kjölfar mála þar sem fulltrúi ættleiðingarfélagsins í Eþíópíu virtist hafa beitt foreldra í landinu þrýstingi til þess að gefa barn sitt til ættleiðingar.
Eins og kunnugt er af fréttum fækkar nú ættleiðingum milli landa um allan heim. Þetta gerist í kjölfar þess að strangari kröfur um gæði ættleiðingarstarfsins eru teknar upp með tilkomu þess að fleiri lönd innleiða Haagsamninginn um ættleiðingar og þekking á honum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verða almennari.
Það ber vissulega að fagna auknum kröfum til allra sem að ættleiðingum koma en samfara því þarf að endurhugsa þær forsendur sem sjálfstæð félög hafa til að annast milligöngu um ættleiðingar. Þegar ættleiðingum fækkar dragast tekjur ættleiðingarfélaga saman.
Samtal um þessar nýju aðstæður hófust að frumkvæði ÍÆ milli ætttleiðingarfélagsins og Íslenskra stjórnvalda árið 2010 og aukinn þungi færðist í viðræðurnar árið 2012 eins og kunnugt er af fréttum frá þeim tíma. Þetta samtal skilaði auknum skilningi á ættleiðingarmálaflokknum hérlendis og í desember 2012 voru samþykkt fjárlög á Alþingi sem gjörbreyttu aðstæðum félagsins til að standa undir hlutverki sínu.
Í kjölfar þessara ánægjulegu fjárlaga hófust viðræður um þjónustusamning milli ÍÆ og Innanríkisráðuneytisins sem var undirritaður í desember síðastliðnum. Íslensk ættleiðing er því núna í þeirri aðstöðu að gæði ættleingarstarfsins þurfa ekki að byggja á fjölda ættleiðinga. Það er ánægjuefni sem vekur athygli meðal systurfélaga okkar á Norðurlöndum sem flest hver glíma við samdrátt samfara auknum kröfum.
Í vor standa evrópusamtök ættleiðingarfélaga fyrir landsfundi sínum og veglegri ráðstefnu þar sem sem fulltrúum Íslands frá ráðuneytinu og ættleiðingarfélaginu er boðið að kynna íslensku leiðina.
Það er mikilvægt að allt ættleiðingarstarf lúti ströngu eftirliti, því það ber alltaf að hafa í huga að þegar ættleiðingar eru annarsvegar skal hafa hagsmuni barnsins í fyrirrúmi og ekkert annað. Í aðra röndina er gott að vita til þess að eftirlit miðstjórnvaldsins í Danmörku er ekki bara að nafninu til, en svo vonum við auðvitað líka að málefni vina okkar, sem árum saman voru fyrirmyndir okkar á litla Íslandi, leysist hið fyrsta. Óvissan fyrir þá sem eru á biðlista eftir barni er að jafnaði alveg nógu mikil og þeir þurfa ekkert á því að halda að upplifa það að ættleiðingarfélagið þeirra hafi ekki starfsleyfi.