Best Practises in Adoption
Dagana 19.-21.september verður haldin ættleiðingarráðstefna á Íslandi á vegum Nordic Adoption Council (NAC). Öll ættleiðingarfélög á norðurlöndunum standa að regnhlífasamtökunum NAC, ásamt tveimur foreldrafélögum ættleiddra barna. Samtökin standa fyrir ráðstefnu á tveggja ára fresti og flakkar hún á milli norðurlandanna. Að þessu sinni skipuleggur Íslensk ættleiðing ráðstefnuna og leggur upp með meginþemað Best Practises in Adoption, með þemanu verður reynt að draga fram það góða starf sem unnið er í ættleiðingamálaflokknum og læra hvert af öðru.
Á ráðstefnunni koma fram erlendir og innlendir fyrirlesarar með sérþekkingu á sviði ættleiðinga og er ráðstefnan opin öllum þeim sem hafa áhuga á þessum málaflokki. Fyrirlesarar verða Dr. David Brodzinsky, doktor í sálfræði, Päivi Pietarila, félagsráðgjafi hjá Save the Children Finland og doktorsnemi, Ondřej Bouša, yfirsálfræðingur hjá miðstjórnvaldi Tékklands, Irene Parssinen-Hentula, formaður NAC, Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri Dómsmálaráðuneytisins og Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar.
19. september
Dagskráin hefst á vinnustofu með Dr. David Brodzinsky um Clinical and Developmental issues in Adoption, milli kl. 14:00 – 17:00 í Veröld, húsi Vigdísar.
Um kvöldið verður svo sérstök sýning á finnsku heimildarmyndinni Moonchild / Kuutyttö eftir leikstjórann Önnu Korhonen. Myndin gefur innsýn inní hugarheim taílenskra mæðra sem hafa gefið frá sér barn til ættleiðingar. Myndin verður sýnd í Háskólabíói kl. 20:30 og verður Anna Korhonen viðstödd sýninguna og verður boðið uppá umræður eftir hana.
Vinnustofan, sýningin Moonchild og ráðstefnan er opin fyrir öllum þeim sem hafa áhuga á ættleiðingum.
20. september
Ráðstefnan Best Practises in Adoption hefst formlega með setningarávarpi Forsetafrúar Íslands kl. 9:10, en ráðstefnan er á milli kl. 08:30 – 16:30 í Veröld, húsi Vigdísar.
Íslensk ættleiðing er eina ættleiðingarfélagið á Íslandi og hefur löggildingu frá Dómsmálaráðuneytinu til að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. Starf ættleiðingafélags er margþætt og tekur mið af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Haagsamningnum um vernd barna og samvinnu um ættleiðingu milli landa og miðast jafnframt við siðareglur Nordic Adoption Council, siðareglur EurAdopt og siðareglur Íslenskrar ættleiðingar.
Meginmarkmið félagsins eru þrjú: að aðstoða þá sem vilja ættleiða börn af erlendum uppruna og ávallt þannig að hagsmunir barnsins sitji í fyrirrúmi. Að stuðla að velferð kjörfjölskyldna og að vinna að velferðamálum barna erlendis.
Hægt er að skoða meiri upplýsingar og skrá sig á ráðstefnuna og viðburði í kringum hana hér