Fréttir

Emma öfugsnúna

,,Emma er á móti öllu“ – eða er um annað og meira að ræða?

Kjörbörn með tengslaröskun í barnæsku eftir Joachim Haarklou, sjálfstætt starfandi sérfræðisálfræðing við Hisöy Sálfræðimiðstöðina, Noroddveien 2, 4816 Kolbjörnsvik,Noregi

Þessi grein er endurskoðuð útgáfa greinarinnar Emma er á móti öllu – eða er um annað og meira að ræða? sem kom fyrst út í félagsblaði Heimsbarna (Verdens Barn) nr. 2 frá 1998.

Eins og flest börn ganga kjörbörn í gegnum tvo þroskaferla við þróun sjálfstæðis, annars vegar mótþróaskeiðið í barnæsku og hins vegar kynþroskaskeiðið. Þau láta reyna á  sjálfstæði sitt á þessum skeiðum m.a. með því að ,,vera á móti” eins og í greininni  ,,Emma er á móti öllu“. Litið er á þessa birtingarmynd sem eðlilega út frá þroskasálfræðinni og foreldrar eru venjulega reiðubúnir til að lóðsa barn sitt eða ungling eftir bestu getu í gegnum þetta tímabil.

Börn geta líka verið í uppreisn eða ,,á móti“ af öðrum ástæðum, til dæmis vegna samskiptavandræða í fjölskyldunni. Ofvirk börn (með ADHD) sem búa við mjög afslappaðan uppeldisstíl geta þannig tekið völdin í fjölskyldunni og sýnt fram á hegðunarfrávik með því að „vera á móti“. Börn sem hafa verið veik og fengið ýmis aukahlunnindi þess vegna, geta brugðist illa við að missa hlunnindin þegar þau verða frísk.

Börn með tengslaröskun í barnæsku (skilgreining innan sálgæslugeirans) eru líka ,,á móti”. Sumir halda því fram að þessi börn séu ,,á móti” af því að þau hafa upplifað höfnun í frumbernsku, t.d. með því að fara á milli umsjáraðila. Þau reyna síðan á vissan hátt að endurskapa þessar aðstæður sínar úr frumbernsku. Þetta gera þau ekki af því að þau eru slæm eða ómöguleg, heldur vegna þess að þau eru að reyna að endurskapa sína tegund af öryggi. Börn sem eru með alvarleg einkenni tengslaröskunar eru oft mótuð af því alla tíð. Það þýðir að þau eru líka alltaf ,,á móti”. Umfang þess að ,,vera á móti” sem hægt er að skrifa á reikning mótþróaaldursins eða kynþroskaáranna, kemur sem viðbót við umfang þess að vera ,,á móti” sem skrifast á reikning tengslaröskunar í barnæsku. Kjörbarn með tengslaröskun úr barnæsku getur verið erfitt að eiga við á mótþróaaldrinum og nánast ómögulegt að tjónka við á kynþroskaaldrinum.

Skilyrðislaus ást, kennsla í nýjum og góðum tengslum ásamt því að einbeita sér að styrkingu æskilegra tengslaviðmiðunarreglna, geta bætt ástandið og jafnvel komið í veg fyrir ranga þróun í átt að persónuleikatruflunum á fullorðinsaldri.

Hvað orsakar tengslaröskun í barnæsku? 
Flestar ættleiðingarsögur eru sólskinssögur. Í Aftenposten 5. febrúar 2000 er grein sem ber yfirskriftina ,,Duglegust og best í flestu”. Greinin er byggð á rannsókn sem Diaforsk gerði sem sýndi fram á að kjörbörnum gengur betur sem hóp heldur en norskfæddum börnum á mörgum mikilvægum sviðum og tengir það við aðstæður kjörforeldra sem hóps. Þó eru til dæmi, á borð við ,,Consuelo”, sem segja allt aðra sögu.

Samkvæmt kenningu E.H. Erikson um félagssálfræðiþróun, myndast hjá barninu á fyrsta æviári eins konar grunntilfinning sem samanstendur af trausti andspænis vantrausti. Bæði fræðigreinar og eigin reynsla úr starfi mínu benda til að manneskjan reyni ævilangt að endurskapa tengsl lík þeim sem fólk bjó við í barnæsku sinni. Að því marki sem barnið hefur upplifað traust, stöðugleika, framvindu, ró, fyrirsjáanleika og yfirsýn í sínum frumtengslum þ.e.a.s. í frumbernsku, mun það síðar í lífinu sækja í tengsl af sömu tegund, gæðum og innihaldi. Þetta gerist vegna þess að sú tegund tengsla eru þekkt og þannig gefa þau öryggistilfinningu.

Öll kjörbörn hafa orðið fyrir minnst einu eða fleiri umsjárskiptum. Í hefðbundnum ættleiðingasögum flyst barnið frá kynforeldrunum til barnaheimilisins og þaðan áfram til kjörforeldranna. Oft þarf lítið til að barnið lendi í enn fleiri umsjárskiptum. Þar getur verið um að ræða kynafa- og ömmur, fulltrúa á lögreglustöðinni þar sem barnið er afhent/skilið eftir, fósturforeldra og annað starfsfólk sem hefur með barnið að gera. Í sumum tilvikum getur dvöl á sjúkrahúsi bætt við enn fleiri umsjáraðilum. Sum kjörbörn hafa áreiðanlega verið hjá enn fleiri umsjáraðilum en hér hafa verið nefndir. Svona ör umsjárskipti í barnæsku, þ.e. endurtekin rof á tengslamyndun, eru eitthvert alvarlegasta áfall sem börn geta orðið fyrir í lífi sínu. Þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir persónuleikaþróun þeirra. Því fleiri umsjárskipti og því fyrr á ævi barnsins, því meiri getur skaðinn orðið. Jafnvel börn sem verða fyrir tengslaröskun aðeins nokkurra mánaða gömul geta borið merki um það alla ævi.

Þegar bakgrunnur þessara barna liggur í þessum öru tengslamyndunun og rofum á þeim, verður grundvallarreynsla þeirra mótuð af óróleika, óöryggi gagnvart framtíðinni og að hluta til öngþveiti. Þetta getur barnið túlkað sem höfnun sem leiðir til almenns vantrausts á fullorðnum. Þessi reynslugrunnur verður síðan hluti af frumpersónuleika barnsins. Á svipaðan hátt og flestir, reyna þessi börn einnig að endurskapa sína grunntilfinningu, í þessu tilviki höfnunina, óróleikann, vantraustið og öngþveitið. Það gerir barnið með því að ,,vera á móti”. Þetta eru grundvallarþættirnir í þeim tilfinningalega skaða úr frumbernsku, tengslamyndunarvandanum og tengslaröskuninni sem hegðun þess mótast af. Mikilvægt er að skilja að barnið gerir þetta ekki til að vera slæmt eða ómögulegt, heldur af því að á þennan hátt endurskapar barnið sína eigin öryggistilfinningu, nefnilega höfnunina. Á vissan hátt hafa þessi börn þroskast ,,gegn hinu eðlilega” fram að ættleiðingaraugnablikinu, þegar öllum tengslarofum lýkur skyndilega. Koman í kjörfjölskylduna er byrjunin á þróun annars persónuleika, sem einkennist af endurmenntun varðandi það að tengsl muni endast, að þau verði fyrirsjáanlegri, lífið verði rólegra og skipulegra og að traust geti smátt og smátt orðið til.

Hvernig kemur tengslaröskun í barnæsku fram?
Þegar börn með tengslaröskun reyna að móta sína mynd af ,,öryggi“ gera þau það með því að endurskapa grunntilfinningu sína, þ.e. höfnunina. Ómeðvitað nota þau höfnun í hegðun sinni og leggja þar með grunninn að samskiptum sem einkennast af höfnunum. Þessi börn eru yfirleitt ,,á móti“ flestu. Þegar þau eru borin saman við börn sem eru ,,á móti“ af því að þau eru á mótþróaskeiðinu eða á kynþroskaaldri, eru þessi börn svo alfarið ,,á móti“ að þau skilja oft á tíðum ekki hvað kemur þeim best. Þau bregðast við með því að vera ,,á móti“ nánast eins og um grundvallarreglu væri að ræða til að endurskapa öryggistilfinningu sína. Meðal aðferða við að skapa höfnunartengsl er að láta langanir sínar ráða, sleppa því að fara að hópreglum og með því að hlusta ekki á tilmæli. Atferli þessara barna stjórnast ekki þar með af innsýn í og þekkingu á hvað er rétt hverju sinni, heldur af eigin löngunum og skyndiákvörðunum. Þau bregðast ekki við á grundvelli þróaðs siðferðis og samvisku sem eru lærðar afurðir uppeldisins sem þau hafa hlotið hjá kjörforeldrunum. Atferli þeirra einkennist af skyndiákvörðunum og grundvallast á skyndihugdettunum sem þau fá. Ég hef í starfi mínu hitt allmarga kjörforeldra sem voru úr jafnvægi og mjög örvæntingarfullir út af þessu. Þegar barninu hefur tekist að skapa þetta ástand hjá kjörforeldrunum, hefur því einnig tekist að endurskapa grunntilfinningu sína. Enn og aftur er mikilvægt að minnast þess að barnið gerir þetta ekki af því að það vill hafa hlutina svona, heldur af því að það gefur því góða grunntilfinningu.

Önnur einkenni hjá barni með tengslaröskun í barnæsku geta verið einbeitingarvandræði, óróleiki og að vera sífellt á iði. Þessi börn geta virkað annars hugar og að þau séu með dagdrauma. Þau geta jafnframt krafist sífelldrar athygli. Þau brjóta oft samkomulag, skortir sektar- og ábyrgðartilfinningu og hafa lágan þröskuld gagnvart mótlæti. Ómerkilegir atburðir geta leyst úr læðingi mikil viðbrögð, sem virðast ekki í neinu hlutfalli við stærri áföll í lífinu eins og tíð umsjárskipti, en þeim virðist barnið ekki bregðast að ráði við. Eiginleikinn til að átta sig á hvað ,,er við hæfi“ að segja og gera er veiklaður. Með þessa veikluðu eiginleika til að skynja hvað er við hæfi, eiga þau til að segja og gera hluti sem eru mjög óviðeigandi. Þetta getur skapað neikvæða stemmningu, sem barnið hefur þannig náð að endurskapa. Þau ofmeta sig og færni sína gjarnan og svo er að sjá sem þau læri ekki af eigin reynslu. Þessi börn eiga í erfiðleikum með að hugga sig sjálf og þau sýna ekki eðlilega hræðslu og hlédrægni. Þau sýna ekki ótta við aðskilnað, heldur ótta sem getur komið fram í geðshræringarsprengingum.


Tengslaröskunin getur haft í för með sér mjög skerta hæfni barnanna til að lifa sig inn í aðstæður annarra ásamt mjög skertri færni í að skapa stöðug tilfinningatengsl og djúpar og hlýjar tilfinningar gagnvart öðrum. Tengsl barnanna verða yfirborðskennd, ábyrgðarlaus og þau reyna að ráðskast með fólkið í kringum sig. Þessi börn geta lítið gefið af sér í formi tengsla og fá þar af leiðandi fáar jákvæðar upplifanir. Hegðun þeirra stjórnast ekki af innri upplifunum, þ.e. eigin tilfinningum, heldur af því hvað er hentugt að finnast. Á þennan hátt mótast hegðun þeirra að miklu leyti af hagkvæmnissjónarmiðum.

Mögulegar afleiðingar
Með því að sjá til þess að tengslin við aðra helgist af höfnun, getur barnið hrakið hina fullorðnu á barm örvæntingar. Barnið getur þannig bæði framkallað fjandsamleg viðbrögð hjá þeim fullorðnu og endurvakið sínar eigin áfallaupplifanir og aðra reynslu sem það hefur ekki náð að vinna úr. Þannig getur barnið orðið sérfræðingur í að finna veikar hliðar hjá hinum fullorðnu. Á vissan hátt má halda því fram að barnið sé að biðja um slæma meðhöndlun. Með atferli sínu getur barnið sogið kraftinn úr heilli fjölskyldu, bekk, skóla og öðrum aðstandendum. Önnur afleiðing þessarar hegðunar getur verið sú að litið sé svo á að kjörforeldrar, sem ala barn sitt upp með skilyrðislausri ást ásamt því að ala það upp við mjög ákveðna samkvæmni, séu álitnir mjög kaldir og strangir af öðrum.

Úrræði.
Hegðun barnsins, sem einkennist af að reyna að endurskapa höfnunartengsl, kemur einna skýrast fram gagnvart nýju umsjáraðilunum, þ.e. kjörforeldrunum. Á sama tíma eru það þessir sömu aðilar sem veita barninu þroskarýmið fyrir annan persónuleika sinn. Það er yfirleitt móðirin sem upplifir mestu vandamálin. Við samneyti við aðra hefur barnið kannski öðlast færni annars persónuleikans, sem veldur því að aðrir upplifa ekki atferli barnsins sem sérstakt eða að það búi við sérstök vandamál. Enn aðrir, t.d. afar, ömmur, vinir og ráðgjafar eiga þar af leiðandi erfitt með að skilja áhyggjur og uppgjöf kjörforeldranna. Þetta fólk skilur ekki heldur hvers vegna kjörforeldrarnir setja svo stranga ramma og mörk kringum barnið.

Kjörforeldrar upplifa uppeldi og umsjón barns með tengslaröskun í barnæsku sem verkefni sem varir 24 tíma á sólarhring allt fram að 18 ára aldri. Aðalverkefnið liggur í að gefa skilyrðislausa ást og að hjálpa barninu að endurlæra, þ.e. að þroska annan persónuleika. Nýji persónuleikinn fær nýja reynslu þar sem hann lærir að tengsl séu nú orðin varanleg og að hinir fullorðnu hverfi ekki, burtséð frá hverju barnið tekur upp á, að lífið sé skipulegt og fyrirsjáanlegt, að okkur þyki vænt um hvert annað og að þannig verði til möguleiki á þróun kærleika og trausts.

Grundvallaratriðið í þessu ferli er fastur rammi um daglegt líf og fastir skipulegir rammar um flest annað ásamt mjög ákveðinni samkvæmni. Þegar barnið lærir nýju normin er ákaflega mikilvægt að hinir fullorðnu haldi reglurnar alltaf sjálfir. Mistök af hálfu hinna fullorðnu munu þegar verða notuð af barninu til að skapa ný höfnunartengsl. Eftir því sem barnið lærir nýju normin er stundum hægt að upplifa barnið eins og það hafi tvo persónuleika, frumpersónuleikann, sem einkennist af skaðanum sem varð í barnæsku og annan persónuleikann sem einkennist af nýju normunum og stöðugleikanum við nýju tengslin. Kjörforeldrarnir, sem eru jú þeir sem þekkja barnið best, hafa tilhneigingu til að viðhalda trúnni á frumpersónuleikann. Flestir aðrir verða mest varir við annan persónuleikann og hlúa mest að honum og styrkja hann.

Þegar barnið býður upp á höfnunar- eða baráttutengsl, er mikilvægt að annað hvort hverfa frá átökunum eða sigra. Það að hverfa frá höfnunar- og baráttutengslum ætti ekki að misskilja sem eftirgjöf. Ef það að hverfa frá höfnunar- og baráttutengslum leiðir til þess að barnið taki völdin í fjölskyldunni, þá er það bjarnargreiði við alla fjölskylduna.
Hafi foreldrarnir aftur á móti metið það sem mikilvægt og rétt að vera staðföst í einhverju, þá verða þau líka að vinna baráttuna. Þá er mikilvægt að halda fast í sínar kröfur, halda barninu á vitsmunalega sviðinu og að vera skýr og ákveðin en ekki í tilfinningauppnámi, til dæmis reið. Það veitir barninu öryggi að upplifa að hinn fullorðni sé sá sterki. Við sum börn ætti aldrei að sleppa þessari tegund stýringar alveg. Börn með tengslaröskun í barnæsku ber að ala upp með aðgerðum, orðum og samkvæmni. Þegar sú staða kemur upp að halda verður barninu líkamlega er mikilvægt að gera þetta á tilfinningalega hlutlausan hátt. Réttindi og ábyrgð er veitt í því magni sem barnið ræður við. Þegar traust og öryggi er komið á, má reyna að koma á tilfinningahlaðnara samspili. Fyrir utan að veita skilyrðislausa ást er mikilvægasta verkefni foreldranna að hjálpa barninu inn í annars konar tengsl en höfnunar- og baráttutengsl.

Það að vorkenna barninu, hjálpar því ekki. Börn með tengslaröskun í barnæsku hafa snemma skaðast tilfinningalega og hafa ekki gott af að umgangast fullorðna sem auðvelt er að æsa upp, sem fara í vörn, sem rökræða, tuða og eru með siðapredikanir og sem eru kaldhæðnir. Oft á barnið líka erfitt með að vera sett í stöðu þar sem það getur valið sjálft.
Það mikilvægasta er eftir sem áður að hinn fullorðni gefi tengslin ekki upp á bátinn því það sem barnið þolir síst, eru enn ein umsjárskiptin.

Börn með tengslamyndunarröskun í barnæsku og aðstoð fagaðila.
Sumir kjörforeldrar hafa til að bera nánast takmarkalausa ást og þeir bregðast nánast sjálfkrafa ekki við tilboðum þessara barna til baráttu- og höfnunartengsla. Aðrir kjörforeldrar geta átt í svo miklum erfiðleikum með barnið að sá tími komi að þau ákveði að hafa samband við fagaðila s.s. heilsugæslu, barnasálgæsluþjónustuna, fjölskylduráðgjöf og barna- og unglingageðdeild. Á þessum stöðum er mismikil færni til staðar og kannski er það stærsta áskorunin fyrir fagaðila að skilja á milli eðlilegs mótþróa, kynþroska, vandamála vegna samkiptaörðugleika innan fjölskyldu, ADHD-barna og ,,baráttubarna“ annars vegar og hins vegar barna með tengslaröskun í barnæsku. Það að einkennin skarast á stundum, gerir málið ekki einfaldara.

Börn með tengslaröskun í barnæsku eru oft mjög einbeitt ,,á móti“ en samhliða því eru þau ljúf og góð börn og unglingar gagnvart fagaðilum. Þessi börn geta gjarnan gefið sannfærandi mynd af ,,hinum erfiðu foreldrum sínum“. Ef fagaðilinn hefur ekki skilið alvarleika vandans og útskýrir atferli barnsins með skýringunni um sjálfstæðisskeiðið, kynþroskann eða að um sé að ræða samskiptavanda sem meðhöndla beri með fjölskylduþerapíu, mun kjörforeldrunum finnast að menn skilji ekki vandamálið sem staðið er frammi fyrir. Í meðferðarstarfi mínu með kjörfjölskyldum hef ég oft ítrekað að ég lít ekki á eina þessara skýringa sem hina réttu, heldur að kjörforeldrarnir verði að vinna að því að finna út hvaða skýring passar í þeirra tilfelli. Áskorunin sem sálfræðingurinn stendur frammi fyrir er að skapa sameiginlegan skilning með kjörforeldrunum. Ef ekki er rétt að þessu staðið getur sálfræðingurinn lent í því að vera ekki í aðstöðu til að hjálpa og reynir þá kannski að skýra málið með því að segja að kjörforeldrarnir séu ,,ekki tilbúnir í meðferð“. Sú staðreynd að kjörforeldrar eru oft á tíðum vel gefið fólk með góða innsýn í sálræna heilsu barna sinna og þar af leiðandi með mikla færni í að meta vandamál barnsins, gerir það ekki einfaldara fyrir fagaðilann sem oft hefur einlægan vilja til að hjálpa þeim sem eiga í erfiðleikum.

Sumir meta það þannig að kjörbarnið þurfi á einstaklingsmeðferð að halda. Þetta er umdeilt. Barnið hefur mikið til enga eigin vandamálaupplifun og þar af leiðandi enga ósk um meðferð. Ef um er að ræða barn með tengslaröskun í barnæsku og meðferðaraðilinn hefur náð sameiginlegum skilningi með kjörforeldrunum, er mikilvægt að vinna út frá því. Það að gera kjörforeldrunum grein fyrir því að hegðunarvandamál barnsins tengjast fyrst og fremst uppvaxtarskilyrðum þess, er ákveðinn léttir fyrir flesta foreldra og gefur þeim aukinn styrk. Einnig má, að undangengnu mati, gefa kjörbarninu innsýn í bakgrunn sinn og þannig útskýra fyrir því hvers vegna því líður eins og því líður.

Batahorfur
Það er erfitt að spá í framtíðina. Það er án alls efa rétt, að því dýpri og alvarlegri sem tengslaröskunin í barnæsku var, því síðri eru líkurnar á fullum bata. Samtímis er hægt að setja fram kenningar um að sumir muni ná sér að fullu, kannski sér í lagi eftir að þeir verða fullorðnir og hafa flutt frá kjörforeldrunum.

Fram að þeim tíma, verður mikilvægt að halda út til að forðast fleiri tengslarof hjá barninu. Tímann ætti að nota fyrir sem flestar jákvæðar upplifanir, m.a. til að forðast of mikla athygli á neikvæða hegðun barnsins. Fyrst ætti að viðurkenna tilvist vandamálsins, síðan ætti að styrkja jákvæðu hliðarnar og upplifanirnar. Ef koma á í veg fyrir ranga þróun á fullorðinsárum er þörf á miklu magni skilyrðislausrar ástar í bland við mikinn ramma og samkvæmni. Gott getur verið að beita þroskahvetjandi samskiptastíl milli kjörforeldra og barns/unglings, t.d. með aðferðum Marte Meo. Ef vandamálið er orðið alvarlegra en það, getur barna- og unglingageðdeild aðstoðað foreldrana til að taka völdin á ný með aðstoð nýþróaðra meðferðaraðferða á borð við PMT (foreldrastjórnunarþjálfun) fyrir börn og MST (fjölkerfaþerapía) fyrir unglinga.

Arendal, október 2001

Þýðandi: Reynir Gunnlaugsson, 2006


Svæði