Félags- og barnamálaráðherra heimsækir Íslenska ættleiðingu
Nú á dögunum heimsótti Ásmundur Einar Daðason, Félags- og barnamálaráðherra Íslenska ættleiðingu til að kynnast betur því mikla starfi sem félagið sinnir í þágu ættleiddra barna og fjölskyldna þeirra. Starfsfólk og stjórn félagsins fundaði með Ásmundi og fór í saumanna á þjónustunni sem félagið veitir nú til þeirra sem sækja um alþjóðlega ættleiðingu, stuðninginn sem veittur er á meðan á ferlinu stendur og þá þjónustu sem félagið sinnir fyrst eftir að fjölskyldan kemur til Íslands.
Þá voru fyrirætlanir félagsins varðandi þjónustu eftir ættleiðingu, barna- og unglingastarf ásamt þeirri þjónustu sem félagið sér fyrir sér að þurfi að veita til uppkominna ættleiddra varðandi stuðning vegna upprunaleitar og úrvinnslu þess að vera ættleiddur frá öðru landi.
Rannsóknir sem hafa verið gerðar í málaflokknum hafa aukið skilning á því að ættleiddir þurfi mun meiri stuðning en hefur verið í boði og eru þjónustuaðilar sífellt að bæta þjónustuna í ferlinu, jafnt í undirbúningsferli fyrir ættleiðingu, við ættleiðingu og þjónustu eftir ættleiðingu ásamt því að styðja við fullorðna ættleidda sem þurfa að vinna úr þeirra reynslu sem ættleiðing þeirra hefur skilið eftir sig.
Þær kerfisbreytingar sem Ásmundur Einar hefur komið í gegn á síðastliðnu kjörtímabili ættu að bylta þjónustu við ættleidd börn og fjölskyldur þeirra og kom þar berlega í ljós í samtali félagsins við ráðherra. Nú þegar útfærsla þjónustunnar er að hefjast má búast við auknum skilningi á þeirri þörf sem ættleidd börn og fjölskyldur þeirra þurfa á að halda og eru væntingar um að staðið verði betri vörð um hagsmuni ættleiddra en verið hefur.