Fréttir

Framlag til verkefna ÍÆ hækkar

Fjáraukalög vegna yfirstandandi árs voru samþykkt frá Alþingi í liðinni viku. Framlag til Íslenskrar ættleiðingar árið 2012 hækkar við lagasetninguna, en það er í samræmi við tillögur félagsins til ríkisstjórnarinnar í mars á þessu ári og óskir Innanríkisráðuneytisins.

Með lagasetningunni fer endurgjald ríkisins vegna verkefna sem Íslensk ættleiðing sinnir úr 9,2 milljónum í 24,2 milljónir á þessu ári og þá er tryggt að rekstur félagsins verður í jafnvægi eða halli á rekstrinum verður viðunandi.

Þessi tekjuaukning tryggir líka að félagið getur óhikað haldið undirbúningsnámskeið fyrir verðandi kjörforeldra að nýju og samið við höfund námskeiðannna, Lene Kamm, um áframhaldandi notkun á námsefninu. Eins og komið hefur fram á vef félagsins hefur nú þegar verið gert samkomulag við Innanríkisráðuneytð um að ÍÆ sinni námskeiðshaldi næstu fimm árin.

Margir óreglulegir gjaldaliðir í rekstri félagsins hafa sagt til sín á árinu og má þar m.a. nefna heimsókn fjölskipaðrar sendinefdar frá Kína sem kom hér í vel heppnaða heimsókn í eftirlitserindum í september. Það er því mjög mikilvægt að þessi breyting varð á tekjum félagsin með fjáraukalögunum, því þar með var komið í veg fyrir óásættanlegan niðurskurð eða rekstrarstöðvun hjá ættleiðingarfélaginu.


Svæði