Fréttir

Frettabladid.is - „Svona grín á­stæða þess að ég hef verið kölluð asísk mella“

Fréttablaðið/Samsett mynd
Fréttablaðið/Samsett mynd

Kristín Ósk Wium Hjartar­dóttir af­hjúpar kyn­þátta­for­dóma sem hún hefur upp­lifað frá því hún var barn og kallar eftir að skað­legu gríni gegn fólki sem er ekki hvítt verði út­rýmt.

Svona grín er á­stæða þess að karl­menn hafa oft kallað mig asíska mellu og spurt hvað ég kosta,“ segir Kristín Ósk Wium Hjartar­dóttir, um mynd­band skemmti­kraftsins Péturs Jóhanns Sig­fús­sonar sem fór í mikla dreifingu í síðast­liðinni viku.

Mynd­bandið hefur hlotið harða gagn­rýni en þar sést Pétur Jóhann líkja eftir totti á meðan hann talar skærri röddu með asískum hreim. Með Pétri sjást Björn Bragi og Egill Einars­son hlæja dátt að at­hæfi hans.

Skað­leg staðal­í­mynd um asískar konur

„Það er ekki fín lín milli þess að vera að grínast og gerast sekur um kyn­þátta­for­dóma,“ segir Kristín sem hefur orðið fyrir barðinu á slíkum for­dómum frá því hún var ung stúlka. „Það má alveg kalla mig fífl og asna og fleira slíkt en þegar fólk kallar mig hóru verð ég ó­sjálf­rátt með­vituð um þessa staðal­í­mynd að það að vera asísk sé að vera hóra.“

Kristín er ætt­leidd frá Indónesíu og segist ung hafa verið gerð með­vituð að hún væri ekki eins og aðrir Ís­lendingar. „Við sem erum ættuð frá Asíu gerum okkur fulla grein fyrir því að ef við værum ekki á þessu landi væru líkur á því að ein­hver hluti af okkur hefði verið sendur í kyn­lífs­á­nauð. Það er við­kvæmt mál og á­líka fyndið að grínast með það og nauðganir og barna­níð.“

,,Það er við­kvæmt mál og á­líka fyndið að grínast með það og nauðganir og barna­níð.“

Hún bendir á að það séu full­orðnir þjóð­þekktir menn sem grínist á þennan hátt og setji efnið á sam­fé­lags­miðla. „Ég hef mikinn húmor fyrir sjálfri mér og segi oft brandara um minn asíska upp­runa en ég myndi aldrei grínast með það að ég væri hóra.“ Ekki er flókið að gera greinar­mun milli þar á milli.

Erfitt fyrir börnin

„Það er erfitt þegar börnin manns koma heim há­grátandi og spyrja af hverju þau þurfi að vera svona öðru­vísi. Ég á ekki að þurfa að segja við börnin mín að þau séu annars flokks eða þurfi að passa sig extra vel. Ég vona bara að fólk fari að sýna meiri skilning.“

Einnig er vert að taka fram að fólk eigi ekki bara að passa sig þegar lituð manneskja er stað­sett í her­berginu til að halda ras­ismanum í skefjum. „Fólk fer oft að af­saka sig fyrir framan mig með því að segja að það viti ekki hvað má segja.“ Litla vinnu þurfi til að komast að því. „Ef þú hefur á­hyggjur af því hvað þú mátt segja þá þarftu bara að fara í smá sjálf­skoðun, allar upp­lýsingarnar eru þegar til staðar á netinu.“

Kristín ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum. 
 

Köstuðu klinki úr bíl

Kyn­þátta­for­dómar hafa á­vallt verið hluti af hvers­degi Kristínar „Ég er 37 ára í dag og það eru bara um fimm ár síðan ég var spurð hvort ég væri asísk mella og klinki var kastað í mig út um bíl­rúðu.“

Hún lýsir því að hafa þurft að þola pískur um sig þegar hún fór að versla í matinn í Bónus á­samt föður sínum og þremur börnum. „Það var alveg hræði­legt að sjá konur benda á okkur og segja hvað þetta væri ó­geðs­legt.“ Faðir Kristínar er hvítur og gerir fólk oft sjálf­krafa ráð fyrir að hún sé konan hans vegna litar­hafts hennar.

,,Það eru bara um fimm ár síðan ég var spurð hvort ég væri asísk mella og klinki var kastað í mig út um bíl­rúðu.“ 

„Að sjá hvítan mann leiða yngri asíska konu vekur við­bjóð fólks, sem myndi aldrei hugsa sig tvisvar um ef konan væri hvít.“ Systir Kristínar er ætt­leidd frá Ís­landi og hefur aldrei þurft að þola slíkt að­kast. 

Van­traust vegna litar­hafts

Í gegnum tíðina hefur Kristín einnig iðu­lega orðið fyrir for­dómum í starfi sínu. „Ég vann við að taka á móti fólki og þar komu stöðugt upp ó­þægi­legar upp­á­komur.“ Fólk gerði ráð fyrir að Kristín talaði ekki ís­lensku og fussaði og sveiaði yfir því einu að sjá hana. Þegar hún svaraði á ís­lensku héldu gestirnir oftar en ekki á­fram að tala bjagaða ensku.

Hvítir Ís­lendingar eru venju­lega ó­með­vitaðir um eigin for­dóma þrátt fyrir að vera gegnum­sýrðir af þeim.

Börn Kristínar og Stefáns hafa orðið fyrir barðinu á fordómum í gegnum tíðina. 
 

Sam­starfs­fólkið í sjokki

Í eitt skipti vildi við­skipta­vinur ekki að Kristín tæki við greiðslu. „Konan hélt fast í seðlana og spurði hvort hún gæti fengið að láta ein­hvern annan en mig fá peningana.“ Sam­starfs­fólk Kristínar féll ó­sjaldan í stafi yfir um­mælum og fram­göngu fólks þegar hún átti í hlut.

„Einu sinni hafði ég verið í sam­skiptum við banka sem var að koma til okkar en þegar full­trúinn kemur labbar hún beint upp að sam­starfs­konu minni, sem var undir mér, og spyr hvernig skuli leysa eitt­hvað.“ Sam­starfs­konan benti á yfir­mann sinn en þegar konunni varð litið á Kristínu segist hún hafa átt í sam­skiptum við aðra konu. „Ég sagði henni að hún hafi vissu­lega talað við mig bæði í gegnum síma og tölvu­póst en hún leit bara aftur á sam­starfs­konu mína og spurði hvað ætti að gera,“ segir Kristín for­viða.

„Eitt af því versta við þetta var að ég var orðin svo vön þessu að sam­starfs­kona mín var í miklu meira sjokki en ég yfir þessu. Maður er orðin sam­dauna svona for­dómum.“

For­réttindi að hugsa ekki um kyn­þætti

Hvítt fólk er í þeirri for­réttinda­stöðu að hafa aldrei tekið eftir kyn­þátta­for­dómum hér á landi að mati Kristínar. „Ég vil ekki heyra að fólk sé „bara ekkert að spá í þessum hlutum“ og að þau „hugsi ekki um kyn­þætti.“

„Hræðslan mín var svo mikil vegna þess að ég vissi ekki hvernig þau myndu taka því að ég væri öðru­vísi á litin.“ 

Þegar Kristín eignaðist sinn fyrsta kærasta voru á­hyggjurnar aldrei fólgnar í því að hugsa hvort for­eldrum hans myndi líka við hana heldur hverjar skoðanir þeirra væru á því að hún væri ekki hvít. „Hræðslan mín var svo mikil vegna þess að ég vissi ekki hvernig þau myndu taka því að ég væri öðru­vísi á litin.“ Hvítir Ís­lendingar þurfi ekki að hugsa á þennan hátt.

Hvítt fólk þarf að viðurkenna eigin forréttindi. 
Fréttablaðið/Getty


Eru Kín­verjar ó­geðs­legir?

„Ég á þrjú börn þau hafa öll lent í svnoa for­dómum og þau eru bara hálf asísk.“ Þegar sonur Kristínar var sex ára kom hann heim til sín og spurði hvort Kín­verjar væru ó­geðs­legir. „Í kjöl­far þess komumst við maðurinn minn að því eldri strákar í hverfinu sátu alltaf fyrir honum eftir skóla, hrintu honum og kölluðu hann Kín­verja.“

For­eldrarnir leituðu strax til ein­eltis­full­trúa skólans. „Þar var okkur sagt að strákar á hans aldri væru oft að bjóða upp á ein­elti.“ Þau fengu aldrei út­skýringu á því hvernig fólk byði upp á kyn­þátta­for­dóma en gerðu ráð fyrir að það væri ein­fald­lega með því að vera til. Engin svör fengust frá skóla­stjóranum og aldrei var neitt að­hafst í málinu.

„Okkur var sagt að strákar á hans aldri væru oft að bjóða upp á ein­elti.“ 
 

„Það fæðist enginn sem ras­isti, börnin læra bara það sem er fyrir þeim haft en það vantar mikið uppá að út­skýrt sé fyrir börnum hvaða af­leiðingar kyn­þátta­for­dómar hafa.“

Full­orðna fólkið verst

Kristín man eftir því úr eigin æsku að oft var það fremur full­orðna fólkið en börnin sem voru hvað há­værust um kyn­þátta­for­dóma. Það var til að mynda harð­lega gagn­rýnt þegar Kristín var valin eitt aðal­hlut­verkið í upp­færslu Baltasars Kormáks af Bugsy Malone í Loft­kastalanum. „Ég lék Blou­sy sem átti auð­vitað að vera ljós­hærð og það var haft hátt um að það væri ekki við­eig­andi.“

Sá leikur endur­tók sig þegar um­ræða skapaðist um hvort Kristín gæti orðið fjall­kona Hafnar­fjarðar. „Þar var meiri­hlutinn ó­sam­mála þar sem þeim þótti fá­rán­legt að láta stúlku af er­lendum upp­runa klæðast ís­lenska þjóð­búningnum.“ Alls staðar sé hægt að finna fólk sem finnst á­kveðnir hlutir ekki við­eig­andi fyrir fólk sem er ekki hvítt.

Löngu úr­elt grín

„Ég er komin með svo leið á þessari um­ræðu um að ekkert megi og að ég eða hinn sé ekki með neinn húmor og sé þess vegna að gagn­rýna skað­lega orð­ræðu. Það má alls­konar, bara ekki segja ó­geðs­lega hluti og færa þá yfir á einn kyn­þátt.“

For­dómar lifi góðu lífi á Ís­landi og nú sé tíminn löngu komin á að skað­legu gríni verði út­rýmt. „Ég meina Laddi hætti að grínast með þetta fyrir tuttugu árum, þetta er komið gott.“

SJÁ EINNIG

Pétur Jóhann biðst af­sökunar: „Það var ekki ætlun mín að særa“

Frettabladid.is - „Svona grín á­stæða þess að ég hef verið kölluð asísk mella“


Svæði