DV - Hægt að ættleiða frá Póllandi og Nepal
Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, gaf í dag út löggildingu fyrir Íslenska ættleiðingu til að annast milligöngu um ættleiðingar á börnum frá Nepal. Þá hefur ráðherra einnig gefið út löggildingu fyrir nýtt ættleiðingarfélag, Alþjóðlega ættleiðingu, til að annast milligöngu um ættleiðingar frá Póllandi.
Íslensk ættleiðing hefur þar með heimild íslenskra stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar á börnum frá sjö löndum: Kína, Kólumbíu, Indlandi, Tékklandi, Makedóníu og Tælandi, auk Nepal.
Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu segir að löggilt ættleiðingarfélög hafi þann megintilgang að hafa milligöngu um ættleiðingar á börnum milli landa og aðstoða væntanlega kjörforeldra í ættleiðingarferlinu. Hér á landi eins og í mörgum öðrum ríkjum, meðal annars norrænu ríkjunum, fari ættleiðingar á börnum frá útlöndum fram fyrir milligöngu löggilts ættleiðingarfélags. Með því að áskilja að löggilt félag hafi milligöngu um ættleiðingar er tryggt eins og kostur er að ættleiðingar fari fram í samræmi við grundvallarreglur Haagsamningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa frá 1993, að alls sé gætt sem gæta ber áður en ættleiðing fer fram og að allur ferill máls sé í samræmi við lög og reglur beggja ríkja.