Hamingjustund
16.07.2018
Nú í nótt hittust þau Áslaug Júlía, Rúnar og Daníel Steinberg, hann Kristján Svanberg í fyrsta skipti. Fjölskyldan var orðin mjög spennt og eftirvæntingin sennilega mest hjá Daníel Steinberg sem er búinn að bíða lengi eftir því að verða stóri bróðir. Stóra stundin var svo mjög tilfinningaþrungin þegar loks kom að því að þau hittust öll. Bræðurnir voru fljótt farnir að leika og er greinilegt að þeir eiga vel saman.
Forstöðukona barnaheimilisins og fóstran hans komu með hann á ættleiðingamiðstöðina og fylgdu honum í fang nýrrar fjölskyldu. Það var greinilegt að Kristján Svanberg hefur verið í góðum höndum, því hann átti erfitt með að kveðja fóstruna sem hefur séð um hann síðustu þrjú árin. Ferðin á hótelið gekk vel og hann sofnaði aðeins. Þegar á hótelið var komið sat hann í fangi móður sinnar nokkuð lengi, þar var hann öruggur í þessu nýja umhverfi. Eftir smá stund var hann tilbúinn að skoða sig aðeins um, en mjög varkár. Þegar Kristján Svanberg var búinn að skoða allt í krók og kima voru bræðurnir fljótir að komast í leik á ný og hann fór brátt að leika á alls oddi. Eftir langan og strangan dag sofnuðu þeir bræðurnir svo saman.
Umsókn Áslaugar og Rúnarsr var móttekin af yfirvöldum í Kína 30. nóvember 2017 og voru þau pöruð við Kristján Steinberg 26. mars 2018. Þau voru því á biðlista í Kína í tæpa fjóra mánuði. Þetta er þriðja fjölskyldan sem sameinast með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar á þessu ári en börnin eru orðin fjögur. Nú hafa 183 börn verið ættleidd frá Kína til Íslands.