Fréttir

Indlandsför

Dagana 6. til 14. október, fóru formaður Íslenskrar ættleiðingar og framkvæmdastjóri til Indlands til að sækja ráðstefnu um ættleiðingar á vegum indverskra stjórnvalda,

“2nd International Conference on Adoption” . Ráðstefnan hófst á því að J.K Mittal forseti CARA (Central Adoption Resource Authority) flutti ávarp, bauð alla velkomna og skýrði helstu markmið ráðstefnunnar. Í stuttu máli voru þau að kynna fyrir ráðstefnugestum helstu áherslur í ættleiðingarmálum Indverja, nú þegar þeir eru orðnir aðilar að Haagsamningi um ættleiðingar. Þar er rauði þráðurinn að vinna ætíð með hagsmuni barnsins í fyrirrúmi og að Indverjar leggja aukna áherslu á ættleiðingar innanlands. Ennfremur er gert ráð fyrir því í framtíðinni að CARA muni hafa auknu miðstýringarhlutverki að gegna. Að lokum hvatti hann alla málsaðila til þess að vinna í sameiningu að bættum hag barna og með hagsmuni þeirra að leiðarljósi.

Fyrirlesari frá Hollandi flutti erindi sem hann kallaði á ensku “Trans-cultural Adoption and Identiy Issues related to Children placed in International Adoptions”. Erindið var byggt á sjónvarpsviðtali við stúlku fyrir 15 árum, þegar hún var 12 ára, og síðan átti hann aftur viðtal við hana núna þegar hún er orðin 27 ára. Stúlkan var ættleidd frá Indlandi til hollenskra foreldra sem síðan skildu og voru unglingsárin henni erfið. Markmið hans var að greina upplifun stúlkunnar á eigin sjálfi og hennar leið til að skilgreina sjálfa sig. Tæknivandamál gerðu það að verkum að myndasýningin fór fyrir ofan garð og neðan þar sem ekki virtist vera hægt að fá enskt tal á myndina, þrátt fyrir að vera til staðar. Úr varð að myndin var sýnd með hollensku tali, og síðan þýddi Dr Hoksbergen jafnóðum. Ekki var laust við að maður vorkenndi honum þar sem tæknivesenið yfirgnæfði innihaldið. En jafnvel á fínustu ráðstefnum í útlandinu tekur tæknin upp á því að gera fólki lífið leitt.

Fyrirlesarar frá Svíþjóð, þær Ms. Marie Alm og Ms. Lovisa Kim, tóku næst til máls og sögðu frá undirbúningsnámskeiðum fyrir verðandi kjörforeldra og mikilvægi þeirra. Uppbygging námskeiðsins í Svíþjóð er eilítið frábrugðið því sem við notum hér heima, sem er danskt námskeið sem sálfræðingurinn Lene Kamm hefur þróað fyrir þarlend yfirvöld og einnig fyrir Noreg. Aðaláhersla fyrirlesara var að verið sé að undirbúa væntanlega kjörforeldra eins vel og hægt er til þess að tryggja hag barnanna sem best.

Dr Loveleen Kacker sem talaði fyrir hönd CARA sagði frá lagaramma ættleiðinga á Indlandi. Þrír lagabálkar fjalla um ættleiðingarmál, einn er fyrir hindúa hvort sem þeir eru búsettir í Indlandi eða erlendis, annar er fyrir fólk af öðrum trúarbrögðum og sá þriðji var samþykktur á síðasta ári og er stefnt að því að alllar ættleiðingar fari fram eftir þeim lögum, vonandi á næsta ári. Rauði þráðurinn var sá að ættleiðingar á indverskum börnum, sem búa á “barnaheimilum” börnum sem eru yfirgefin og foreldralaus séu besta leiðin til að tryggja þeim þau sjálfsögðu mannréttindi að alast upp í fjölskylduumhverfi, og fjölskyldur eigi ætíð að taka fram fyrir vist á stofnun. Þó eigi ættleiðingar innanlands ætíð að hafa forgang á ættleiðingar milli ríkja. Dr. Nilima Mehta, einnig frá CARA, fjallaði um mikilvægi þess að samfélagið kæmi til móts við fjölskyldur og vinni markvisst að barnavernd, m.a. með því að koma í veg fyrir að börn verði viðskila við fjölskyldur sínar, og stjórnvöld ættu að stefna að því að öll börn alist upp innan sinnar fjölskyldu. Dr. Aloma Lobo fjallaði um ættleiðingar barna með skilgreindar sérþarfir eða hamlanir og þeirra rétt.

Peter Selman fór yfir tölfræði um ættleiðingar frá 1950 til dagsins í dag. Það var mjög upplýsandi. Tölfræðin sýnir að ættleiðingum fer fækkandi á alþjóðavísu og einnig kom fram í tölunum sú þróun sem hefur verið í ættleiðingarmálum á Indlandi.

Formaður CARA, Mr. J.K Mittal, fór yfir nýjar leiðbeiningar um ættleiðingar milli landa. Þetta var það erindi sem móttökulöndin, eða fulltrúar þeirra, biðu hvað spenntastir eftir, því á grundvelli þessara regla verður að vinna. Þó nokkrar breytingar eru hér á ferð, og í aðalatriðum er breytingin sú að CARA fær aukið miðstýringarvald (stefnan virðist vera að færa skipulagið nær því sem er t.d í Kína). Þó geta ættleiðingarfélög óskað eftir því að umsóknir umbjóðenda séu sendar beint til þeirra heimila sem þau þekkja og treysta og á sama hátt geta “barnaheimili” óskað eftir því taka einungis við umsóknum frá þeim ættleiðingafélögum sem þau þekkja og treysta. Þónokkrar áhyggjur komu fram á fundinum meðal erlendra og einnig indverskra þátttakanda yfir þróuninni, en aukin miðstýring gæti valdið því að ættleiðingaferlið verði enn lengra, sem ekki er í þágu barnanna sem bíða. Talsverður tími fór í það að ræða þessar áhyggjur fram og til baka og má segja að um tíma hafi allt farið upp í loft.

Nokkur erindi voru haldin eftir þessa uppákomu og má segja að þau hafi farið fyrir ofan garð og neðan á tímabili, þar sem taugatitringur gerði vart við sig. Þó komst ró á salinn þegar ráðstefnustjóri kynnti til sögunnar þrjár ungar ættleiddar konur sem komu fram sem fulltrúar ættleiddra og sögðu sína sögu. Allar þessar stúlkur voru ættleiddar frá Indlandi til Bandaríkjana og voru á aldrinum 20 til 24 ára. Ein stúlknanna sem var alin upp í 6 barna hópi, sagði frá því hvernig hún liti á sína kjörforeldrana sem foreldra og sagði einfaldlega - það eru þeir sem hafa hugsað um mig, auðvitað lít ég til upprunnans og er stolt af honum, en þrátt fyrir allt eru þetta mamma mín og pabbi sem hafa alltaf verið þarna fyrir mig. Hún lýsti því einnig hvernig hún hafi reynt að borga til baka það sem “barnaheimið gerði fyrir hana” með því að vinna sjálfboðastarf inni á einu slíku um tíma. Önnur stúlkan hafði svipaða sögu að segja. Hennar saga var þó frábrugðin að því leyti, að hún var ættleidd fjögurra ára gömul svo hún hafði einhverjar minningar um barnaheimilisvistina. Sú stúlka sem hreif alla var tvítug stúlka, ættleidd sem sérþarfabarn þar sem hennar sérþarfir voru bæði heyrnaskerðing og CP (heilalömun), málhelti og fleira. Það má segja að salurinn hafi kólnað allverulega þegar þessi unga stúlka sagði frá því á átakalegan hátt hvernig henni og móður hennar hafi tekist að lifa með fötluninni, tekist á við heyraskerðinguna með hjálp tækja og tóla. Einnig sagði hún frá því að hún hafi nýlokið MBA námi í uppeldisfræðum og sagði einfaldlega - ættleiðingin gerði mér þetta kleift annars hefði ég dáið. Þegar búið var að segja þessi orð féllu allir aðrir viðmælendur í skuggann, í það minnsta var það mín upplifun, og salurinn var sannfærður ættleiðing snýst fyrst og fremst um mannréttindi barnsins.

Á þessum orðum var í rauninni ráðstefnunni lokið, þó nokkur skemmtiatriði og umræður hafi fylgt í lokin.

Þó svo að ráðstefnunni væri lokið var verkefnalisti okkar ekki tæmdur. Áður en ráðstefnan hófst, áttum við fund með íslenska sendiherranum í Delhi, Gunnari Smárasyni. Það var vel tekið á móti okkur með tei og súkkulaðiköku og við ræddum meðal annars mikilvægi þess að fólk léti sendiráðið vita af ferðum sínum þegar þetta framandi ríki er sótt heim. Einkum ef “börnin “ okkar fara að heimsækja upprunalandið. Einnig var rætt um það að vegabréfsáritun fyrir þau börn sem verða ættleidd í framtíðinni fari í gegnum sendiráðið, en eins og fólk veit sem hefur sótt börn til Indlands, fara börnin okkar á indverskum passa heim, og þar af leiðandi þurfa þau að fá sömu áritun og aðrir Indverjar sem sækja Ísland heim. Fram að þessu hefur breski ræðismaðurinn í Kolkata séð um þessi mál fyrir okkur, og fólk hefur flogið heim frá Kolkata í gegnum Bretland.

Hápunktur dvalarinnar í Delhi var svo heimsókn okkar á skrifstofu CARA þar sem endurnýjun á starfsleyfi okkar til þess að halda áfram að vinna að ættleiðingarmálum á Indlandi var til umræðu . Þessi fundur var árangursríkur og sannfærðust yfirvöld um að vinna ÍÆ að þessum málum sé í hæsta gæðaflokki, þrátt fyrir smæð okkar. Vitanlega hefur dregist að fá starfsleyfið endurnýjað og kom t.d í ljós að pappírar sem höfðu verið sendir á skrifstofu CARA höfðu aldrei skilað sér, en þeir áttu að fara í gegnum sendiráð Indlands í Osló. Hvað gerðist og hvernig er ómögulegt að segja. Stjórnendur CARA lögðu áherslu á mikilvægi eftirfylgniskýrslna, sem foreldrar verða að skrifa og skila tímanlega. Leyfi fékkst frá þeim til þess að senda pappíra hér eftir í gegnum “Central Authority” Niðurstaða fundarins var að ekki sé neitt því til fyrirstöðu að endurnýja leyfi okkar og halda áfram því góða starfi sem skilað hefur 150 börnum heim. Mrs. Mishra sem sat fundinn og er starfandi “deildarstjóri” spurði einnar spurningar í lokin, þegar við vorum í þann mund að þakka fyrir okkur. “How are the children doing? That is the only thing I want to know.” Ég svaraði því af sannfæringu: “þeim vegnar vel, ég er sannfærð um það”. Þetta vakti mig til umhugsunar um þá miklu ábyrgð sem á okkur kjörforeldrum hvílir. (,... með það gengum við Gunna út í hitamolluna inn í leigubil sem beið okkar. Lítið rugbrauð sem hékk saman á málningunni og vananum. Keyrðum í gegnum þvöguna upp á hótel).

Ferðalaginu var ekki lokið með þessari heimsókn því enn átti eftir að verða hápunktur. Ferðinni var heitið til Kalkútta, í heimsókn á barnaheimilið. Við flugum innanlands daginn eftir og komum til Kalkútta um 5 leytið að staðartíma. Mikill mannfjöldi er í Kalkútta enda ein af fjölmennustu borgum veraldar. Nú voru enn fleiri á götunum en áður þar sem nokkrir dagar voru til hátíðar Bengala “Durga Pooja”...einskonar jól og síðustu tækifæri að gefast til þess að gera innkaup, en Indverjar skiptast á gjöfum á þessari hátíð. Ekki var um neitt að ræða annað en að stinga sér til sunds inn í þvöguna ef við ætluðum að eiga eitthvað tækifæri til þess að kíkja í búðir. Tvær konur fara nú aldrei til útlanda án þess, enda engin ástæða til. Okkur tókst með mikilli þolinmæði að vera eins og tvær ljósaperur í mannþvögunni í 37 stiga hita og viti menn, okkur tókst að komast í ríkisbúðina, þar sem maður verslar í ró og næði og getur keyp allskonar framandi varning.

Daginn eftir fórum við svo á barnaheimið. Sú heimsókn var yndisleg og erfið í senn, öðruvísi en sú sem ég fór í fyrir 6 árum því þá var ég að ná í dóttur mína og fókusinn var á henni og allt annað fór fram hjá mér einhvernvegin. Núna fór ég á allt öðrum forsendum og sá barnaheimilið í öðru ljósi, sá hversu mikið mannúðarstarf þarna er unnið og þessi börn eiga allt sitt undir því. Þau geta enga björg sér veitt og eiga alla sína framtíð undir ákvöðunum annarra. Enginn getur spurt þau hvað þau vilja. Já ábyrgðin er mikil hjá okkur sem erum að vinna að þessum málaflokki. Við berum mikla ábyrgð og við verðum að standa undir henni. Sí Dagana 6. til 14. október, fóru formaður Íslenskrar ættleiðingar og framkvæmdastjóri til Indlands til að sækja ráðstefnu um ættleiðingar á vegum indverskra stjórnvalda,

Síðan áttum við gott spjall við Anju ( forstöðukonu) færðum henni gjafir til barnaheimilisins, og hún fullvissaði okkur um að um leið og endurnýjunin kæmi þá hæfumst við handa á ný. Breyttar áherslur eru þó hjá henni eins og öðrum sem vinna að þessum málum á Indlandi og indverskir foreldra hafa forgang, og það er aukning í innlendum ættleiðingum. Á það eigum við að fallast, enda ekki okkar að hafa áhrif þar á. Verum einungis minnug þess að okkur hefur tekist að ættleiða 150 börn frá þessu barnaheimili - það er ekki lág tala. Hugsum - hvert barn er kraftaverk og þegar við gengum út úr “barnaheimilinu” inn í leigubílinn sem beið okkar í hitastækjunni og keyrðum í gegnum þvöguna á flautunni, var ég sannfærð um það að það að vera kjörforeldri er í sjálfu sér kraftaverk og ég er þakklát örlögunum að hafa farið með mig þá leið.


Svæði