Íslensk ættleiðing áberandi á aðalfundi Nordic Adoption Council
Aðalfundur Nordic Adoption Council (NAC) var haldinn nú á dögunum en aðalfundir félagsins eru haldnir á tveggja ára fresti. Þessi aðalfundur var með öðru sniði en venjulega þar sem ekki var hægt að koma saman og því um rafrænan aðalfund, síðasti aðalfundur var haldinn í Reykjavík, 21.september 2019 eftir vel heppnaða ættleiðingarráðstefnu Best Pracises in Adoption á vegum Nordic Adoption Council. Nordic Adoption Council er regnhlífasamtök ættleiðingarfélaga á Norðurlöndunum ásamt foreldrasamtökum ættleiddra í Danmörku og Finnlandi.
Elísabet Hrund Salvarsdóttir formaður Íslenskrar ættleiðingar var endurkjörinn formaður NAC og var Jelena Jovanovic Hansen frá Adoptionscentrum í Svíþjóð kjörin varaformaður. Þá var Adoption & Samfund valið sem fullrúi foreldrasamtaka í stjórn NAC.
Lísa Björg Lárusdóttir hefur undanfarið ár verið fyrir hönd Íslands í stjórn NAC og Berglind Glóð Garðarsdóttir verið varafulltrúi. Á aðalfundinum höfðu þær sætaskipti og verður Berglind nú í stjórn NAC en Lísa varafulltrúi. Þá voru Kristinn Ingvarsson framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar og Ina Dulanjani Dygaard frá Adoption & Samfund valin í tilnefningarnefnd, en nefndin tilnefnir formann NAC.
Á fundinum var farið yfir stöðu ættleiðingarmála á Norðurlöndunum og helstu áskorannir ættleiðingafélaganna.
Ættleiðingarfélögum heldur áfram að fækka á Norðulöndunum.
Undanfarið hefur ættleiðingarfélögum verið að fækka smátt og smátt. Fyrir rúmum áratug sameinuðust ættleiðingarfélögin á Íslandi, þegar Alþjóðleg ættleiðing rann inní Íslenska ættleiðingu. Fyrir skemmstu voru tvö félög í Danmörku en þau sameinuðust undir merkjum Danish International Adoption. Í Finnlandi eru þrjú ættleiðingarfélög, en eitt af þeim er hætt að taka við umsóknum og mun leggja niður starfsemi þegar umsóknir sem eru í farvatni hjá félaginu klárast. Í Svíþjóð hafa verið fjögur ættleiðingarfélög í gegnum tíðina. FFIA hætti að annast milligöngu um ættleiðingar fyrir nokkru og hefur nú ákveðið að loka félaginu. Svo hefur Swedish friends of Children einnig ákveðið að hætta starfsemi í maí 2022 og verða því tvö félög í Svíþjóð eftir það.
Þróun ættleiðinga
Í Danmörku hefur ættleiðingum fækkað mikið síðastliðin ár og fækkaði um helming árin 2019 og 2020, eða úr 46 ættleiðingum niður í 23 ættleiðingar. Nú í ár hafa 22 börn verið ættleitt til Danmerkur. Mikið hefur gengið á þegar kemur að umsóknum um alþjóðlega ættleiðingu, en um tíma tók DIA ekki á móti nýjum umsóknum vegna óvissu um stöðu ættleiðingarmálaflokksins. Yfirvöld í Danmörku rannsökuðu starfsemi DIA og komust að þeirri niðurstöðu að ættleiðingum væri best komið hjá félagasamtökum. Þá var ákveðið að styðja fjárhagslega við starfsemi ættleiðingarfélagisns. Yfirvöld hafa meðal annars skoðað Íslenska ættleiðingarmódelið en enn á eftir að ákveða hvernig málaflokkurinn verður til framtíðar. Yfirvöld hafa einnig breytt innanlands ættleiðingum og eru að hvetja fólk til að sækja um á þeim biðlista. Þetta hefur haft áhrif á biðlista DIA þar sem 16 umsækjendur hafa núþegar fært sig yfir á biðlista vegna innlendra ættleiðinga.
Árið 2019 sóttu 69 umsækjendur um forsamþykki vegna alþjóðlegra ættleiðinga en aðeins 10 umsóknir komu árið 2020 enda var ekki tekið á móti nýjum umsóknum frá áramótum 2019/2020 fram til september 2020.
Ættleiðingum til Finnlands hefur fjölgað smátt og smátt frá árinu 2017 en minnkuðu síðastliðið ár. Nú í ár hefur ættleiðingu fjölgað á ný og eru ættleiðingarfélögin bjartsýn á framhaldið. Umsóknum hefur fjölgað og þá sérstaklega umsóknum einhleypra. Hafa verið dugleg að kynna starfið og halda tengslum í gegnum rafræna fundi.
Á Íslandi hefur fjöldi ættleiðinga staðið í stað síðastliðin ár, en fækkað mikið frá árinu 2015 þegar 20 börn voru ættleidd til landsins. Umsóknum um alþjóðlega ættleiðingu rokkar á milli ára, t.d. sóttu 16 umsækjendur um árið 2018 en aðeins 5 árið 2019. Umsóknum fjölgaði aðeins árið 2020 og voru 9 umsóknir það árið. Í ár hafa einungis 4 umsóknir um forsamþykki verið sendar sýslumannsembættisins.
Samdráttur hefur orðið í ættleiðingum til Noregs og er mikill munur á milli ættleiðingafélaganna á milli ára. Árið 2019 voru ættleidd 89 börn til landsins en ættleiðingar drógust saman um helming árið á eftir. Nú í ár er von á að ættleiðingar standi í stað eða fjölgi lítillega. Umsóknum um forsamþykki hefur fjölgað aðeins á þessu ári.
Í Svíþjóð fækkaði ættleiðingum úr 170 árið 2019 niður í 90 árið 2020, en nú í ár hefur þeim aftur fjölgað og er áætlað að um 110 börn verið ættleitt á þessu ári. Umsóknir um forsamþykki hefur staðið í stað síðastliðin ár.
Ættleiðingamálaflokkurinn í Svíþjóð hefur einnig verið rannsakaður ofan í kjölinn og er það álit yfirvalda að núverandi skipulag, þ.e. að ættleiðingafélög séu hentugasti kostur sem milligönguaðili um ættleiðingu. En vegna neikvæðrar umfjöllunar í fjölmiðlum um alþjóðlegar ættleiðingar mun önnur rannsókn vera gerð. Þessi umfjöllun hefur þó ekki haft áhrif á nýja umsækjendur. Yfirvöld hafa stutt fjárhagslega við ættleiðingarfélögin til að tryggja rekstarhæfni á erfiðum tímum.
Skipulag í málaflokknum
Eins og áður segir hafa yfirvöld á Norðurlöndunum lagt mikla vinnu í að skoða rekstarform ættleiðingarfélaganna og skipulag varðandi alþjóðlegar ættleiðingar. Öll löndin hafa horft til Íslenska ættleiðingarmódelsins með einum eða öðrum hætti og eru ættleiðingarfélögin sammála um að það fyrirkomulag sé til fyrirmyndar.
Ættleiðingarfélögin eru einnig sammála um að lög og reglugerðir í flestum Norðurlöndunum séu orðin úreld og mikilvægt að þau séu uppfærð miðað við þær þarfir sem nú eru uppi á teningnum, en þekking á málaflokknum hefur breyst mikið með auknum rannsóknum á högum ættleiddra barna og ekki síður rannsóknir aðstæðum uppkominna ættleiddra.
Á Íslandi hefur lengi staðið til að uppfæra reglugerð um ættleiðingar, og hefur umræða um breytingar á lögum komið upp reglulega síðastliðinn áratug. Það verður spennandi að fylgjast með þeim breytingum sem lagðar verða í samráðsgátt á næstunni, en Íslensk ættleiðing hefur nú drög að reglugerðinni til skoðunar.
Mikilvægt er að halda áfram að þróa Íslenska ættleiðingarmódelið með þarfir ættleiddra og fjölskyldna þeirra í fyrirrúmi.