Fréttir

Jafnrétti til barneigna

Jóhann Sigurðsson
Jóhann Sigurðsson
4. febrúar 2006 | Aðsent efni | 428 orð | 2 myndir
 
Margrét R. Kristjánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jóhann Sigurðsson og Margrét R. Kristjánsdóttir fjalla um kjörforeldra: "Vonum að alþingismenn allir verði við ákalli þessu og skorum á þá að koma málinu í höfn á vorþinginu."
FYRIR Alþingi liggur fyrir í þriðja skipti tillaga Guðrúnar Ögmundsdóttur til þingsályktunar um að taka upp styrki til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum. Frumvarp þetta er mikið jafnréttismál sem ekki hefur fengið þær viðtökur og það brautargengi sem við mætti búast, svo sjálfsagt sem það virðist. Málið snýst um jafnræði til ættleiðinga óháð efnahag og tekur á þeirri brýnu þörf að jafna möguleika fólks til að eignast barn burtséð frá því hvort það teljist til hátekjufólks eða ekki. Um er að ræða afar hóflega styrki sem þó skipta sköpum fyrir þá sem eru að ættleiða barn.
 

Það hlýtur að teljast sanngjarnt og eðlilegt að íslenska ríkið styrki kjörforeldra til að ættleiða börn til samræmis við við það sem gerist hjá öðrum Norðurlandaþjóðum og stuðli þar með að jafnrétti þegnanna til barneigna. Ættleiðingar á Íslandi eru ekki það margar að styrkir af þessum toga setji ríkisfjármálin úr skorðum, en slíkur styrkur getur skipt verulegu máli fyrir væntanlega kjörforeldra. 

Að ættleiða barn að utan er mjög dýrt, kostnaðurinn er frá 1,2 til 1,5 milljóna miðað við að hjón fari saman út að sækja barnið. Mörgum vex þessi kostnaður í augum, einkum þeim sem lakari kjör hafa. Dæmi eru um að fólk hafi ekki séð sér fært að láta drauminn um að eignast barn rætast vegna þess að það hefur ekki ráð á því og ekki í digra sjóði að sækja. Hvað þá að láta sig dreyma um að sækja sitt annað barn.

Við sem höfum orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa ættleitt barn vitum hvílík hamingja það er að fá sína æðstu ósk uppfyllta og sú lífsfylling og ánægja sem í kjölfarið kemur verður ekki til fjár metin. Þeir fjármunir sem varið yrði til þessa máls kæmu því margfalt til baka, því hvað er betra fyrir þjóðarbúskapinn er ánægðir þegnar?

Til upplýsingar og samanburðar eru hér tölur frá nágrannalöndum okkar um þá skattfrjálsu opinberu styrki sem greiddir eru til verðandi kjörforeldra.

Danmörk: 400.000 kr.

Svíþjóð : 320.000 kr.

Finnland: 140.000-340.000 kr.

Færeyjar: 500.000 kr.

Noregur : 350.000 kr.

Við skorum á okkar ágætu alþingismenn að taka þessu þingmáli vel og veita því þann stuðning sem sómi er að. Þetta er alltof mikilvægt mál til að daga uppi í skotgröfum flokkadrátta. Styrkir til ættleiðinga eru þverpólitískt mál og ber að vinna sem slíkt. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra hefur tekið afar vel í málið. Ekki stendur á þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna, stjórnarþingmenn eru á meðal flutningsmanna á máli Guðrúnar.

Vonum að alþingismenn allir verði við ákalli þessu og skorum á þá að koma málinu í höfn á vorþinginu.

Höfundar eru kjörforeldri og verðandi kjörforeldri.

Jafnrétti til barneigna


Svæði