Fréttir

Mbl - Karl og kona í óvígðri sambúð fá að ættleiða

ÆTTLEIÐINGUM barna á Íslandi hefur farið fækkandi síðustu tólf árin og voru þær fæstar 28 árið 1995. Áður hafði ættleiðingum hins vegar farið fjölgandi og voru flestar 89 árið 1985. Þetta kemur m.a. fram í frumvarpi til nýrra ættleiðingalaga, sem Björn Bjarnason menntamálaráðherra og starfandi dómsmálaráðherra, mælti fyrir á Alþingi í gær.

Ef litið er á þróun ættleiðinga frá árinu 1961 kemur í ljós að fjöldi ættleiðingarleyfa breytist lítið á árunum 1961-75, samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu, en á því tímabili voru ættleiðingar um 74 á ári að meðaltali. Á árunum 1976-80 voru þær 76 að meðaltali á ári. Á árunum 1981-85 voru þær 73 að meðaltali, á árunum 1986-90 voru þær 49, á árunum 1991-95 voru þær 34 og á árinu 1996 voru þær 40 en 34 á árinu 1997, að því er fram kemur í athugasemdum frumvarpsins.

Þar kemur einnig fram að skipta megi ættleiðingum barna í þrjá hópa. Í fyrsta lagi ættleiðingar stjúpbarna. Í öðru lagi frumættleiðingar íslenskra barna og í þriðja lagi frumættleiðingar erlendra barna. Stjúpbörnum sem ættleidd voru síðustu áratugina fjölgaði til muna í upphafi níunda áratugarins, en síðan þá hefur þeim ættleiðingum fækkað. Íslenskum börnum sem ættleidd hafa verið og ekki eru stjúpbörn hefur einnig fækkað allmikið síðustu árin. Fjöldi erlendra barna, sem ættleidd hafa verið á síðustu áratugum, er á hinn bóginn mjög sveiflukenndur. Langflest þessara barna hafa komið frá Sri Lanka, næstflest frá Indlandi og síðan frá Indónesíu, en frá síðastgreinda landinu hafa þó ekki komið börn síðan 1984, að því er fram kemur í athugasemdum við frumvarpið.

Ekki fjallað um pör í staðfestri samvist

Mikilvægur þáttur í umræddu frumvarpi, að sögn ráðherra, varðar ákvæði sem þörf er á sem grundvelli að fyrirhugaðri fullgildingu Íslands á Haag-samningnum frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa. "Samningnum er ætlað að samræma þau skilyrði sem sett eru af hálfu stjórnvalda aðildarríkja hans svo að ættleiðingar milli landa megi fara fram með hagsmuni barna í fyrirúmi. Tilgangur samningsins er að við ættleiðingar milli landa séu grundvallarmannréttindi barna virt og að komið sé í veg fyrir brottnám barna og verslun með börn og að tryggja að samningsríki viðurkenni ættleiðingar sem fara fram í samræmi við samninginn," sagði starfandi dómsmálaráðherra. Hann skýrði jafnframt frá því að í tengslum við samningu frumvarpsins hefði farið fram víðtæk könnun á framkvæmd gildandi ættleiðingarlaga nr. 15/1978 og að einnig hefði verið höfð hliðsjón af þróun ættleiðingarlöggjafar á hinum Norðurlöndunum og víðar. "Af þessu leiddi að lagt er til í frumvarpinu að ýmis nýmæli um ættleiðingar verða lögfest," sagði ráðherra meðal annars.

Meðal mikilvægustu nýmæla í frumvarpinu, að sögn ráðherra, er það að karl og kona sem verið hafa í óvígðri sambúð í að minnsta kosti fimm ár hafa sömu heimildir til ættleiðingar og hjón. "Ennfremur er heimild til handa einhleypum manni til að ættleiða barn ef sérstaklega stendur á og ættleiðing ótvírætt talin barninu til hagsbóta. Heimild einhleypra einstaklinga til ættleiðingar hefur ekki áður verið lögskráð, en einhleypum einstaklingum hefur nokkrum sinnum verið veitt ættleiðingarleyfi," sagði ráðherra.

Lýstu yfir ánægju sinni með frumvarpið

Þeir þingmenn sem til máls tóku að lokinni framsögu ráðherra lýstu yfir ánægju sinni með frumvarpið og töldu það til mikilla bóta. Hins vegar töldu einstakir þingmenn miður að ekki væri tekið á ættleiðingarmöguleikum para í staðfestri samvist, þ.e. para í löglegri samvist samkynhneigðra. Guðný Guðbjörnsdóttir, Samtökum um kvennalista, sagði slíka heimild mikilvæg mannréttindi. Í sama streng tóku Bryndís Hlöðversdóttir, Alþýðubandalagi, og Ólafur Örn Haraldsson, Framsóknarflokki, en sá síðarnefndi, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga þar sem lagt er til að fólki í staðfestri samvist verði heimilt að ættleiða stjúpbörn. Sagði Ólafur Örn m.a. að í frumvarpi ráðherra væri ekki gætt að réttindum þeirra barna sem alast upp í staðfestri samvist.


Svæði