Fréttir

Kjörfjölskyldan - Ættleidd börn og foreldrar þeirra. Höfundur Ester Gunnarsdóttir

Útdráttur

Heimildaritgerð þessi byggir umfjöllun sína á þeim pörum sem glíma við ófrjósemi og
ákvörðun þeirra um að ættleiða barn. Hugtakið ættleiðing er skoðað út frá sjónarhorni
fjölskyldunnar þar sem áhersla er lögð á kjörbarnið.
Í okkar samfélagi er litið á barneignir sem ákveðið samfélagslegt viðmið. Á Íslandi er
viðhorf til barneigna jákvætt en því miður eiga ekki öll pör kost á að eignast barn án aðstoðar
vegna ófrjósemis. Sú staðreynd getur verið mikið áfall fyrir pör í fjölskyldu hugleiðingum.
Sum pör leggja mikið á sig til að stofna til fjölskyldu og ganga oft í gegnum mikla erfiðleika til
þess að verða foreldrar en þau úrræði sem almennt eru í boði vegna ófrjósemis eru
glasafrjóvgun, staðgöngumæðrun eða ættleiðing. Í því sambandi er yfirleitt litið á ættleiðingu
sem lokaúrræði eftir að aðrar leiðir hafa verið reyndar án árangurs. Rannsóknir hafa sýnt að
ættleiðingarferlið er langt, andlega erfitt og kostnaðarsamt fyrir væntanlega kjörforeldra,
ættleiðing er því ekki á færi allra. Pör sem taka þá ákvörðun að ættleiða sjá í flestum tilfellum
ekki eftir því þegar barnið er komið heim, en þrátt fyrir að ættleiðingarferlið sjálft sé
yfirstaðið er ekki þar með sagt að allri vinnu sé lokið. Við tekur aðlögun bæði foreldra og
barns ásamt uppeldinu sjálfu. Þeir foreldrar sem taka ákvörðun um að ættleiða þurfa að
undirbúa sig andlega fyrir komu barnsins og væntra þarfa þess. Því er mjög mikilvægt að pör
sem ætla sér í barneignir sama eftir hvaða formi sem það er taki ákvörðunina í sameiningu.
Helstu niðurstöður ritgerðarinnar sýndu að ferlið sem fylgir ættleiðingu reynir í
flestum tilfellum mikið á andlega líðan væntanlegra kjörforeldra en rannsóknir sýna að
tíminn, orkan og allt erfiðið sem fylgir ættleiðingarferlinu hafi verið vel þess virði þegar upp
er staðið. Rannsóknir sýndu einnig að flest þeirra barna sem ættleidd eru milli landa ná að
þroskast vel bæði félagslega og andlega. Stærsti áhrifaþátturinn er aldur barns við
ættleiðingu, en því yngra sem barnið er við ættleiðingu þess minni líkur eru á vandamálum.
Fáar rannsóknir hafa verið framkvæmdar hér á landi í tengslum við ættleiðingar og því eru
niðurstöður ritgerðarinnar að mestu byggðar á erlendum rannsóknum.

Kjörfjölskyldan  - Ættleidd börn og foreldrar þeirra


Svæði