Mbl - Ganga þarf á varasjóð
Stjórn Íslenskrar ættleiðingar hefur sent innanríkisráðuneyti tilkynningu um að ganga þurfi á varasjóð félagsins og að þær ráðstafanir kunni að leiða til þess að ekki verði rekstrarforsendur til að ljúka málum er kunna að vera til meðferðar á vegum félagsins á þeim tíma þegar félagið verður lagt niður.
Íslensk ættleiðing er enn í samdráttar- og frágangsferli, sem hófst fyrir tveimur mánuðum þegar aðalfundi félagsins var frestað vegna óvissu um gerð þjónustusamnings við innanríkisráðuneyti.
Í tilkynningunni segir jafnframt: „Ekkert hefur komið fram undanfarna tvo mánuði sem upplýsir Íslenska ættleiðingu um vilja stjórnvalda til að tryggja félaginu fjárframlag, sem stendur undir þeim verkefnum, sem lögð eru á herðar félagsins með lögum og reglugerðum.“
„Aðstæður ættleiðingarfélagsins eru nú þannig að ganga verður á þann litla varasjóð sem til er svo hægt sé að stuðla að því að að unnt verði að ljúka ættleiðingarmálum, sem eru til meðferðar á vegum félagsins. Þær ráðstafanir kunna að hafa í för með sér að þegar félagið verður lagt niður verði ekki öruggar rekstrarforsendur til að ljúka málum er kunna að vera til meðferðar á vegum félagsins á þeim tíma.“