Fréttir

mbl.is - Svona not­um við ekki orðið „ætt­leiðing“

Ljós­mynd/​Krist­inn Ingvas­son
Ljós­mynd/​Krist­inn Ingvas­son

Birna Gunn­ars­dótt­ir móðir ætt­leidds drengs seg­ir að það fari fyr­ir brjóstið á henni þegar orðið ætt­leiðing sé notað um dauða hluti eða gælu­dýr.

„Þótt skráp­ur­inn á mér hafi ör­lítið þykknað þessi fimm ár sem liðin eru síðan ég skrifaði nót­una hér fyr­ir neðan læt ég ennþá trufla mig þegar ég sé orðið ætt­leiðing notað af léttúð og virðing­ar­leysi. Það eru svo mörg orð sem lýsa því bet­ur þegar fólk fær sér leik­fang, potta­plöntu, dýr eða drasl. Í hug­um margra okk­ar sem höf­um ætt­leitt lif­andi barn og þekkj­um all­ar til­finn­ing­arn­ar sem því tengj­ast hef­ur orðið ætt­leiðing mjög sér­staka og nán­ast heil­aga merk­ingu sem við yrðum þakk­lát fyr­ir að fá að eiga í friði með börn­un­um okk­ar,“ seg­ir Birna. 

Pist­il­inn hér fyr­ir neðan skrifaði Birna fyr­ir fimm árum en hún seg­ir að hann eigi ennþá jafn­vel við því vanda­málið sé ekki úr sög­unni: 

Son­ur minn er ekk­ert lík­ur mér. Hann er held­ur ekk­ert lík­ur pabba sín­um, né nein­um öðrum í fjöl­skyld­unni. Stund­um strýk­ur hann mér hárið og seg­ir „við erum með al­veg eins hár“ en við vit­um bæði að það er ekki rétt, mitt hár er músar­grátt en hans er hrafnsvart. Það vefst ekki fyr­ir nein­um sem sér okk­ur sam­an að hann er ætt­leidd­ur. Hann var tæp­lega þriggja ára þegar við hitt­umst fyrst og man, eða tel­ur sig muna, þegar hann kvaddi „hinar mömm­urn­ar“ sem höfðu ann­ast hann í Kína.

Eft­ir því sem hann eld­ist og þrosk­ast eykst löng­un mín til að gera at­huga­semd­ir við notk­un orðsins „ætt­leiðing“ þar sem mér finnst hún ekki eiga við. Ég sé eft­ir að hafa stillt mig um að hringja í Rík­is­út­varpið þegar það flutti frétt af því að hóp­ur fólks hefði „ætt­leitt“ illa farið hús á Raufar­höfn og bjargað því frá niðurrifi, og ég vildi að ég hefði haft sam­band við Jón Gn­arr þegar hann vildi „bjóða áhuga­söm­um að ætt­leiða drykkju­menn sem haf­ast við á göt­um borg­ar­inn­ar“ eins og það var orðað í kynn­ingu hjá Kast­ljósi.

Und­an­farið hef ég stund­um skrifað at­huga­semd­ir hjá Face­book vin­um sem aug­lýsa dýr til „ætt­leiðing­ar“ og lang­ar tli að út­skýra bet­ur það sem ég á við. Ég vona að þessi skrif verði til þess að vekja fólk til um­hugs­un­ar um notk­un orðsins og verði því hvatn­ing til að forðast lík­ing­ar sem geta sært börn sem hafa verið í viðkvæmri stöðu og varða til­finn­ing­ar þeirra.

Ég skil al­veg hvað vak­ir fyr­ir þeim sem líkja sam­bandi fólks og dýrs við sam­band for­eldra og barns; þeir sem á annað borð ann­ast dýr­in sín vel bera oft mjög sterk­ar til­finn­ing­ar til dýr­anna og sinna þeim af ábyrgð og kær­leika. Það er sjálfsagt það sem orðinu „ætt­leiðing“ er ætlað að koma til skila þegar fólk tek­ur að sér dýr og vill líkja sam­band­inu við eitt­hvað in­dælt og var­an­legt, fólk eign­ast barn og barn eign­ast fjöl­skyldu. Það er líka skilj­an­legt að þeir sem nota orðið á þenn­an hátt um dýr hafi ekki hug­leitt ætt­leiðing­ar eða ætt­leidd börn og til­finn­ing­ar þeirra, en það breyt­ir því ekki að lík­ing­in get­ur hitt ætt­leidd börn illa fyr­ir. Og mér finnst al­veg sjálfsagt að benda á það.

Í mín­um huga skipt­ir á end­an­um minna máli hvað lík­ing­unni er ætlað að gera fyr­ir þann sem not­ar hana en það sem hún get­ur gert þeim sem taka hana nærri sér.

Ætt­leidd börn eru sjaldn­ast mjög göm­ul þegar þau átta sig á að þau fund­ust ein­hvers staðar þar sem þau höfðu verið skil­in eft­ir. Mörg þeirra upp­lifa erfiðar spurn­ing­ar og til­finn­ing­ar tengd­ar höfn­un, að eitt­hvað sem þau voru eða voru ekki hafi orðið til þess að þau voru yf­ir­gef­in. „Af hverju vildi mamma þín ekki eiga þig?“ er t.d. spurn­ing sem önn­ur börn spyrja í barna­skap sín­um. Þegar ætt­leidda barnið stálp­ast get­ur það á vits­muna­sviðinu skilið að ör­birgð er lík­leg­asta skýr­ing­in á að móðir þess lét það frá sér en til­finn­ing­arn­ar eru engu að síður mjög sár­ar og sum­ir kljást við þær alla ævi.

Að vísa til ensku í þessu sam­bandi finnst mér hald­lítið. Sögn­in „adopt“ og nafn­orðið „adopti­on“ eiga upp­runa í lat­ínu þar sem merk­ing­in er al­menn: að taka að sér, taka upp, gera að sínu, en merk­ing ætt­leiðing­ar í ís­lensku af­mark­ast í upp­hafi við það þegar barn er tekið í fjöl­skyldu. Ensku­mæl­andi sam­kund­ur hika ekki við að „adopt a resoluti­on“ en okk­ur fynd­ist frá­leitt að „ætt­leiða samþykkt". Notk­un orðsins „adopti­on“ í tengsl­um við dýra­vernd er hvarvetna um­deild og mörg­um ætt­leidd­um til ama; það þarf eng­inn að fara langt á in­ter­net­inu til að finna grein­ar og blogg því til staðfest­ing­ar.

Ætt­leiðing­ar­lík­ing­in er held­ur ekki aðeins notuð í já­kvæðri merk­ingu. Það líður varla svo vika að ég sjái ekki status, komm­ent eða heyri í for­eldr­um tala um að hitt eða þetta barnið sé svo óþekkt, leiðin­legt, lasið eða frekt að viðkom­andi langi til að biðja ein­hvern að „ætt­leiða“ það. Auðvitað á þetta að vera grín, en í hugs­un­ar­leysi verður hinn full­orðni til þess að vekja hjá börn­um hug­mynd um að eitt­hvað í fari ætt­leiddra barna hafi orðið til þess að þau voru yf­ir­gef­in.

Það er full­kom­lega eðli­legt að fólk al­mennt átti sig ekki á þess­um teng­ing­um fyrr en því er bent á þær. Vegna son­ar míns finn ég mig knúna til að reyna að fá fólk til að íhuga þessa orðanotk­un og breyta henni, jafnt vini og kunn­ingja sem starfs­menn dýra­vernd­un­ar­sam­taka og aðra.

Kett­ling­inn sem ann­ars hefði verið lógað gild­ir einu hvaða orð er notað um sam­band hans við fólkið sem tek­ur hann að sér. Hann þarf bara að vona að eng­inn fái of­næmi eða flutt verði í hús þar sem katta­hald er bannað.

„Á ís­lensku má alltaf finna svar“ og því er auðvelt að kom­ast hjá því að særa börn með því að setja þau í flokk með yf­ir­gefn­um dýr­um, illa förn­um hús­um eða öðrum fyr­ir­bær­um sem eru löskuð og/​eða þarfn­ast „björg­un­ar“.

Ætt­leiðing er nefni­lega ekki góðgerðar­mál held­ur fjöl­skyldu­mál.

mbl.is - Svona not­um við ekki orðið „ætt­leiðing“


Svæði