Fréttir

Nýr félagsráðgjafi til starfa

Aðalbjörg Jóhanna Bárudóttir
Aðalbjörg Jóhanna Bárudóttir

Að kröfu upprunaríkjanna eru gerðar eftirfylgdarskýrslur þar sem fylgst er með hvernig líðan barnsins er hjá foreldrum sínum. Mikill munur er á milli upprunaríkjanna um hversu margar skýrslur skulu gerðar og á hvaða tímapunkti í lífi barnanna. Fæstar skýrslur eru sendar til Kólumbíu en þar á bæ vilja þau aðeins fá fjórar skýrslur á tveimur árum frá því að barnið kemur til Íslands. Flestar skýrslur eru sendar til Tékklands, en þar eru fjórar skýrslur sendar fyrsta árið, en allt í allt níu skýrslur, allt til átján ára aldurs.

Þegar Lárus H. Blöndal fór að minnka við sig vinnu hjá félaginu, var Rut Sigurðardóttir ráðin til að sitja við skör meistarans og nema af honum. Til að ná skörun á meðan Lárus væri að minnka við sig starfshlutfall og fram að því að hann hætti vegna aldurs, nýtti félagið þær tekjur sem Rut hafði fengið sem verktaki til að brúa bilið sem uppá vantaði til að hafa ráð á því að borga henni laun í takti við menntun hennar og reynslu.

Nú þegar Rut hefur alfarið tekið við fræðslu- og ráðgjafahlutverkinu, lætur hún af gerð eftirfylgniskýrslna.

Félagið hefur því ráðið nýjan félagsráðgjafa til verksins, Aðalbjörgu Jóhönnu Bárudóttur en hún mun sinna gerð eftirfylgniskýrslna á höfuðborgarsvæðinu.

Aðalbjörg lauk námi í félagsráðgjöf til starfsréttinda frá Háskóla Íslands árið 2008. Að lokinni útskrift sinnti hún starfi félagsráðgjafa á krabbameinsdeildum Landspítala í eitt ár áður en hún hóf störf hjá Barnavernd Reykjavíkur sumarið 2009. Hjá Barnavernd sinnti Aðalbjörg meðal annars málefnum barna sem vistuð eru utan heimilis, fylgdi þeim eftir og veitti fósturforeldrum stuðning. Auk þess að gera úttektir á þeim einstaklingum sem óska eftir því að gerast fósturforeldrar og þeim sem sótt hafa um að ættleiða barn. Í febrúar 2016 lauk Aðalbjörg viðbótardiplómanámi við Háskóla Íslands í barnavernd. Frá apríl 2017 hefur Aðalbjörg starfað sem félagsráðgjafi hjá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða þar sem hún sinnir félagslegri ráðgjöf við íbúa hverfisins auk þess að vera í teymi um málefni útlendinga í sérstökum aðstæðum.


Svæði