Fréttir

Nýtt skipulag fræðslunnar

Með tilkomu reglugerðar nr 238/2005 um ættleiðingar sem dómsmálaráðuneytið gaf út 28. febrúar 2005, er orðið skylt að sækja námskeið fyrir ættleiðingar barna af erlendum uppruna, áður en forsamþykki er gefið út. Í reglugerðinni segir, m.a.:

20. gr.
Námskeið.

Áður en forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni er gefið út skulu umsækjendur leggja fram staðfestingu á því, að þeir hafi sótt námskeið á vegum löggilts ættleiðingarfélags um ættleiðingar erlendra barna.

Íslensk ættleiðing fagnar þessu ákvæði reglugerðarinnar. Það er aldrei of mikið gert úr nauðsyn þess að vanda allan undirbúning væntanlegra kjörforeldra. Að beiðni dómsmálaráðuneytisins hefur stjórn Íslenskrar ættleiðingar tekið að sér að sjá um framkvæmd námskeiðana.

Í kjölfarið hafa fræðslufulltrúar ÍÆ unnið að því að endurskipuleggja námskeiðið og fengu til liðs við sig sálfræðinginn og fræðslufulltrúa danska dómsmálaráðuneytisins Lene Kam Að vísu má benda á í þessu sambandi að fræðslufulltrúar ÍÆ hafa allt síðasta ár verið að endurskipuleggja og endurbæta fræðsluna, Eftir að hafa hitt Lene tvisvar sinnum og hlýtt á það hvernig hún og hennar fræðsluteymi skipuleggja og útfæra fræðsluna í Danmörku höfum við lagt upp með algerlega nýja dagskrá sem byggir á efni frá Lene, bæði lesefni og myndböndum. Þetta efni verður notað á námskeiðinu.

Í allt mun námskeiðið taka tvær helgar, frá föstudegi til laugardags, í hvort skipti. Farið verður úr bænum þar sem ró og friður ríkir, enda lagði Lene ríka áherslu á að fólk færi út úr ys og þys bæjarlífsins á þessum námskeiðum. Þannig næst betri rammi utan um námskeiðið og þátttakendur ná að kynnast innbyrðis og meðtaka efnið í kyrrð og ró. Meginhlutverk fræðslufulltrúanna á þessu námskeiði er að varpa fram spurningum og leiða umræður samhliða því að halda fyrirlestra. Uppbygging námskeiðsins byggist mikið á virkri þátttöku þátttakenda og hvað þeir fá út úr námskeiðinu liggur í virkni þeirra sjálfra. Í bland við fræðslu verður síðan slegið á létta stengi yfir kvöldverði á föstudagskvöldið, léttum gönguferðum um nágrennið, sameiginlegum morgunverði og hádegisverði á laugardeginum.

Fyrri helgina er sjónum einkum beint að væntanlegum kjörforeldrum. Þeirri grundvallarspurningu er varpað fram hvort ættleiðing er eitthvað fyrir mig? Sorgin, ættleiðingarþríhyrningurinn( kynforeldrarnir ættleidda barnið og upprunninn og kjörforeldrarnir) Hvaða hindranir hafa verið á þessari leið? barnleysið samfélagsþrýstingur og fleiri atriði. Námskeiðið byggir á virkri þátttöku þátttakenda eins og fyrr segir og verður hópnum skipt upp í litlar einingar, spjallhópa og verkefnahópa.

Síðari helgina er þunginn á umfjöllun um barnið sjálft. Hvar hefur barnið verið?, tengslamyndun og foreldrahlutverkið. Ættleiðing er lífslangt ferli sem hefur engan endapunkt. Gæði foreldranna er frumskilyrði fyrir því að vel takist til. Spurningum er varpað fram eins og „get ég tengst barni sem ég hef ekki þekkt frá fæðingu?“ „Hvaða þýðingu hefur það fyrir mig að barnið líkist mér ekki? “ ”Hvað þýðir það fyrir mig að barnið á sér bakgrunn sem ég þekki ekki og á ekki hlutdeild í?”

Stuðst verður við fræðsluefni sem er þýtt úr dönsku og staðfært, auk myndbanda.
Væntanlega verður fyrsta námskeið haldið fyrstu helgina í september og síðari hluti fimm til sex vikum síðar. Nánar auglýst síðar.

Ingibjörg Birgisdóttir fræðslufulltrúi íslenskrar ættleiðingar og Ingibjörg Jónsdóttir formaður íslenskrar ættleiðingar og fræðslufulltrúi.


Svæði