Pressan.is - Ættleiðendur ósáttir við sýslumann: Hrunið eyðileggur – Sumir hætta við eða flytja út
Félagið Íslensk ættleiðing er ósátt við nýtt verklag sýslumannsins í Búðardal í kjölfar hrunsins við meðferð umsókna til ættleiðingar. Allir með neikvæða eiginfjárstöðu sendir í sérstaka rannsókn. Segja það tefja og jafnvel skemma fyrir. Sýslumaður ber fyrir aukinni rannsóknarskyldu.
Hörður Svavarsson, formaður Íslenskrar ættleiðingar, skrifar grein á heimasíðu félagsins þar sem hann lýsir yfir óánægju með framferði sýslumannsins í Búðardal, sem hefur allar ættleiðingar á sinni könnu.
Það sem óánægjunni veldur er nýtt verklag sýslumanns sem felst í því að umsóknir allra þeirra sem mælast með neikvæða eiginfjárstöðu á skattaframtali eru settar í sérstaka meðferð hjá ættleiðinganefnd. Margir þessarar umsækjenda séu með góðar tekjur og geti vel séð fyrir fjölskyldu.
Skuldir hafi aftur á móti snarhækkað en eignastaðan ekki með. Það veldur skekkju í eiginfjárhlutfallinu.
Hörður segir þetta tefja málsmeðferð einstaklinga sem og torvelda starf ÍÆ.
Þetta stíflar svolítið starfsemina okkar. Fram til 2009 virtist okkur sem svo að það væri nóg að fólk gæti vel framfleytt sér. Það er það sem skiptir máli, að menn geti framfleytt sér.
Aðspurður um hvort hrunið hefti ættleiðingar svarar Hörður:
Hrunið er að hefta ættleiðingar, eða túlkun sýslumannsins á því sem hefur gerst. En eins og við segjum, afkoma margra er góð, þrátt fyrir það að eiginfjárstaðan mælist í einhverjum tilvikum neikvæð samkvæmt skattaframtali.
Sumir hafa hætt við, flutt úr landi jafnvel.
Sýslumaðurinn í Búðardal, Áslaug Þórarinsdóttir, hefur gefið Íslenskri ættleiðingu þær skýringar að embættið sé að fylgja rannsóknarskyldu sinni sem er orðin enn meiri en áður. Ekki náðist í Áslaugu við vinnslu fréttarinnar en hún er í sumarleyfi.
Nú þegar hefur einni synjun sýslumanns eftir neikvætt álit nefndarinnar verið snúið við í innanríkisráðuneytinu. Hörður segir engan í ættleiðingarnefnd hafa sérþekkingu á fjármálum og það sé óhentugt þegar nefndin fjallar um mál sem þessi.
Nú hefur kæra fallið umsækjendum í hag og við búumst við fleiri kærum á næstunni.
Ættleiðendur ósáttir við sýslumann: Hrunið eyðileggur – Sumir hætta við eða flytja út