RÚV - Danir stöðva ættleiðingar frá Eþíópíu
Dönsk yfirvöld hafa stöðvað allar ættleiðingar frá Eþíópíu í gegnum DanAdopt, önnur stærstu ættleiðingarsamtök landsins. Eþíópískir foreldrar höfðu verið lokkaðir til að gefa börn sín til ættleiðingar á fölskum forsendum og dánarvottorð þeirra falsað.
Félagsmálaráðhera Danmerkur, Karen Hækkerup, tók þessa ákvörðun eftir að í ljós kom að alþjóðalög voru brotin í ættleiðingarferlinu. Um 200 börn eru ættleidd frá Eþíópíu á hverju ári í gegnum DanAdopt. Danska ríkissjónvarpið rannsakaði ættleiðingarferlið og í ljós kom að menn á vegum munaðarleysingjahælisins Enat Alem, þaðan sem yfir 20 börn voru ættleidd, gengu á milli þorpsbúa og lokkuðu foreldra til að gefa börnin sín til ættleiðingar. Foreldrarnir höfðu oft enga hugmynd um undir hvað þau skrifuðu. Dánarvottorð foreldra voru einnig fölsuð. DanAdopt samökin segjast ekkert hafa vitað um að þetta viðgengist og harma það mjög. Samtökin hafa í kjölfarið sætt mikilli gagnrýni fyrir að kanna ekki nægilega vel aðstæður í Eþíópíu.
http://www.ruv.is/frett/danir-stodva-aettleidingar-fra-ethiopiu