Fréttir

Smugan - Samtökin 78 krefja frambjóðendur svara um ættleiðingar samkynhneigðra

09.04.2013  |  Fréttir

Starfshópur Samtakanna ’78 um ættleiðingar hinsegin fólks hefur sent frambjóðendum til komandi Alþingiskosninga bréf er varðar barneignir og ættleiðingar hinsegin fólks. Bréfið innihélt fimm spurningar, en svörum við þeim er ætlað að varpa ljósi á afstöðu framboðanna til réttinda hinsegin fólks til barneigna.

Þó að lög númer 65/2006 heimili ættleiðingar til para af sama kyni er það svo að enn þann dag í dag hefur ekki verið komið á samningi milli Íslands og lands sem heimilar ættleiðingar til hinsegin fólks. Svar innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, staðfesti stöðu málsins en þar kom fram að frá því að lögin tóku gildi árið 2006 hafa engar millilandaættleiðingar átt sér stað til samkynja para.

Auk þess að senda framboðum bréf með áherslu á ættleiðingarmál hafa Samtökin ’78 einnig boðað til kynningar- og málefnafundar með fulltrúum allra framboða fimmtudaginn 18. apríl. Þar gefst framboðunum kostur á að kynna sig og svara spurningum félagsmanna um stefnu sína og áherslur, er varða hin ýmsu málefni hinsegin fólks.

http://smugan.is/2013/04/samtokin-78-krefja-frambjodendur-svara-um-aettleidingar-samkynhneigdra/


Svæði