Fréttir

Stjórnarfundur 04.11.2009

Fundur stjórnar Íslenskrar ættleiðingar miðvikudaginn 4. nóvember 2009, kl. 17.15
Haldinn í húsnæði félagsins Austurveri.

15. fundur stjórnar

Mættir:

Finnur Oddsson 
Ágúst Guðmundsson
Hörður Svavarsson
Margrét Rósa Kristjánsdóttir
Karl Steinar Valsson
Pálmi Finnbogason
Vigdís Ósk Sveinsdóttir

Guðrún Sveinsdóttir og Fanney Reynisdóttir starfsmenn ÍÆ sátu einnig fundinn

Fundurinn hófst á því að fundarmenn fóru yfir síðustu fundargerð.

Mál á dagskrá: 
1. Niðurstöður úr rýnihópum – stefnumótun, þjónusta og framkvæmd
2. Önnur mál

1. Niðurstöður úr rýnihópum – stefnumótun, þjónusta og framkvæmd
Formaður stjórnar setti fundinn og gaf varaformanninum, Finni Oddssyni orðið en hann sá um framkvæmd og stjórn með rýnihópafundunum sem haldnir voru í október sl. með félagsmönnum. Finnur gerði stjórn og starfsmönnum skrifstofunnar stuttlega grein fyrir framkvæmd rýnifundanna og hvaða spurningar voru lagðar fyrir umsækjendur á fundinum. Í framhaldinu var farið yfir samandregnar niðurstöður út frá svörum fundarmanna sem skipt var í tvo hópa, annars vegar þá sem eru að ættleiða barn í fyrsta sinn og hins vegar þá sem höfðu ættleitt barn áður. Þá voru jafnframt umsækjendur í báðum hópum sem höfðu ættleitt en voru að bíða eftir öðru barni til ættleiðingar.

Markmið með rýnihópunum var að afla upplýsinga um viðhorf félaga til starf ÍÆ með kerfisbundnum hætti til að nýta til frekar uppbyggingar á starfi félagsins. Eðli málsins samkvæmt var því meiri áhersla í umræðu í rýnihópum á þætti í starfi félagsins sem betur mega fara.

Í framhaldinu af yfirferð Finns á samandregnum niðurstöðum af rýnihópafundunum ræddu stjórnarmenn og starfsmenn ÍÆ um hvar áherslubreytinga væri helst að gæta og var niðurstaðan sú að athugun þyrfti helst að fara fram á eftirfarandi:
- Verklagsreglum og ferlum inni á skrifstofu ÍÆ. 
- Nauðsynlegt að skipta upp hópunum og þjónusta eftir því hvort um biðlistahóp eða aðra félagsmenn væri um að ræða sem hefðu þegar ættleitt. 
- Áherslur á ríkari þjónustulund gagnvart félagsmönnum.

Fundur ákveðinn síðar til að halda umræðunni áfram og koma í framkvæmd og ferli framangreindum athugasemdum.

2. Önnur mál. 
Athugasemd til hjúkrunarfræðinga vegna ættleiddra barna.
Stjórnarmaður ÍÆ heyrði af því er barn sem nýlega hafði verið ættleidd var tekið úr örmum foreldra sinna þar sem færa átti það inná skurðstofu á spítala til aðgerðar. Stjórnarmaður fékk fund með yfirhjúkrunarfræðing í Fossvogi vegna þessa þar sem foreldrarnir voru með miklar áhyggjur yfir að sú tengslamyndum sem hefði átt sér stað á milli barnsins og foreldranna, yrði til lítils sökum þessa atviks. Málið var rætt og bentu hjúkrunarfræðingarnir á að rannsóknir sýndu að foreldrarnir kæmumst almennt í uppnám við að verða vitni að svæfingu barna sinna inni á skurðstofum og því væri þeirri starfsreglu oft fylgt að foreldrarnir væru ekki viðstaddir inni á skurðstofum. Var hjúkrunarfræðingunum bent á að tengslamyndun foreldra og ættleidds barns gæti farið fyrir lítið yrðu ekki gerðar undantekningar á verkferlinu og að sérstakt tillit þyrfti að taka til ættleiddra barna sem væru almennt viðkvæmari heldur en börn sem alist hefðu upp alla tíð hjá sömu foreldrunum. Var vel tekið í þessa athugasemd á Landspítalanum í Fossvogi en stjórn ÍÆ hyggst leggja til við Pas-nefnd að fylgja þessu eftir við félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og félög hjúkrunarfræðinema við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

Erindi til Fjárlaganefndar
Formanni stjórnar barst bréf frá stjórn AÆ þess efnis að félagið hefði í hyggju að ganga á fund fjárlaganefndar Alþingis n.k. föstudag 6. nóvember, til að kynna betur málstað félagsins og leggja þannig grundvöll að fyrirhugaðri beiðni félagsins um styrk vegna öflunar nýrra ættleiðingarsambanda.
Formanni stjórnar ÍÆ var falið að senda fjárlaganefnd beiðni um sérstakt fjárframlag til að fjármagna bráðnauðsynlega vinnu við uppbyggingu nýrra alþjóðlegra ættleiðingarsambanda. Í bréfinu verði lögð áhersla á að fjárveitingar til málaflokksins séu ónógar og standi ekki undir frekari öflun ættleiðingarsambanda sem þó væri nauðsynleg..

Fundi slitið kl. 19.10.

Vigdís Ó. Sveinsdóttir fundarritari


Svæði