Fréttir

Stjórnarfundur 05.08.2010

Fundargerð stjórnarfundar ÍÆ
Fimmtudaginn 5. ágúst 2010

Mættir:
Ágúst Guðmundsson
Elín Henriksen
Hörður Svavarsson
Karen Rúnarsdóttir
Karl Steinar Valsson
Vigdís Sveinsdóttir

Kristinn Ingvarsson framkvæmdastjóri sat fundinn.

Dagskrá fundarins:
1. Erindi Íslenskrar ættleiðingar til Dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins frá 18. mars.
2. Erindi til stjórnar Íslenskrar ættleiðingar frá umsækjenda um barn frá Indlandi
3. Tölvupóstur sýslumannsins í Búðardal um ættleiðingu á börnum með skilgreindar sérþarfir.
4. Beiðni ÍÆ til DMR um löggildingu til milligöngu um ættleiðingar frá Póllandi
5. Beiðni ÍÆ til DMR um löggildingu til milligöngu um ættleiðingar frá Tógó
6. Starfslýsing skrifstofumanns
7. Hliðarlistar
8. Önnur mál

1. Erindi Íslenskrar ættleiðingar til Dómsmála og mannréttindaráðuneytisins frá 18. mars síðastliðnum.
Stjórn Íslenskrar ættleiðingar telur að ráðuneytið svari ekki fyrirspurninni efnislega og rökstuðningur þess fyrir niðurstöðu sinni sé knappur og ófullnægjandi og ákveður að senda gögn málsins til nokkurra lögmanna með fyrirspurn um hvort efni sé til að vísa erindinu til Umboðsmanns Alþingis

2. Erindi til stjórnar Í.Æ. frá umsækjanda um barn frá Indlandi.
Stjórn barst erindi frá umsækjenda sem er á biðlista um barn frá Indlandi. Ákvörðun tekin um að senda bréf til Dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins þar sem fram kemur að ÍÆ hyggst eiga samvinnu við Utanríkisráðuneytið og fá það í lið með okkur til að taka út stöðu ættleiðingarmála á Indlandi. Lagt er upp með að fá aðstoð hjá sendiráðinu í Dehli og kanna möguleikana á að fá fund með miðstjórnvaldinu þar í landi. Lista þarf upp stöðuna sem er í dag gagnvart Íslandi og einstök mál sem eru í vinnslu. Jafnframt var rætt um að skoða þá möguleika að gera samkomulag við fleiri barnaheimili á Indlandi. Hugsanlega þarf að senda einhvern á vegum félagsins til fundar hjá sendiherranum með miðstjórnvaldinu. Framkvæmdastjóra falið að gera drög að bréfi sem tekur á stöðu ættleiðingarmála á Indlandi í dag og að taka málið áfram. Hagkaup/Hagar eru að styrkja barnaheimili í Indlandi. Kanna hvort möguleikar séu á samstarfi þar.

3. Tölvupóstur sýslumannsins í Búðardal um ættleiðingu á börnum með skilgreindar sérþarfir
Sýslumaðurinn í Búðardal hefur sent framkvæmdastjóra Í.Æ. tölvupóst þar sem fram kemur að ef ættleiða á barn með skilgreindar sérþarfir til landsins þá þurfa umsækjendur auðvitað að sækja um sérstakt viðbótarforsamþykki vegna þess. Það hefur verið skilningur stjórnar Í.Æ. að ef til landsins berast upplýsingar um barn sem má ættleiða til Íslands þá þurfi ekki að óska eftir sérstöku forsamþykki til ættleiðingarinnar þó tilgreint sé að barnið sé með einhverjar þarfir sem skilgreindar eru sérstaklega enda hafi væntanlegir kjörforeldrar ekki óskað eftir því sérstaklega að ættleiða barn með skilgreindar sérþarfir.

Undanfarin misseri, eða alla tíð síðan ætleiðingar hófust á börnum með skilgreindar þarfir frá Kína, hafa þeir sem óska eftir að ættleiða barn með skilgreindar þarfir fengið sérstakt forsamþykki til þess hjá sýslumanninum í Búðardal og hafa því verið með tvö virk forsamþykki í gildi í einu.

Í lögum og reglugerð um ættleiðingar er ekki getið um sérstakt forsamþykki vegna ættleiðingar á barni með skilgreindar þarfir en verklagi þar um virðist hafa verið komið á þegar hægt varð að óska eftir slíkum ættleiðingum frá Kína.

Það er alkunna og hefur komið fram í fjölda rannsókna að börn sem ættleidd eru milli landa eru flest af fátæku fólki komin og hafa lengst af dvalið á stofnunum þar sem aðbúnaði og hollustuháttum er ábótavant og þess vegna eru heilsufarsvandamál algengari meðal þeirra en annarra barna. Það er einnig virðurkennt að börn sem ættleidd eru erlendis frá sé hópur sem þarfnast sérhæfðrar fræðilegrar eftirtektar. Börnin eru oft fyrirburar eða hafa haft litla fæðingarþyngd, ekki er óalgengt að þau þjáist af D-vítamínskorti og blóðleysi. Blýeitrun og lifrarbólga B eru algengari meðal ættleiddra barna en annarra. Talið er að sálræna- félagslega- og hegðunarlega þætti auk seinkaðs þroska ættleiddra barna megi oft rekja til langrar búsetu á vanbúnum stofnunum. Það eru því fjölmargar ástæður til að ætla að sérhvert ættleitt barn búi að einhverri sérþörf þó hún hafi ekki verið skilgreind sérstaklega fyrirfram í pappírum sem berast til landsins. Það eru einnig miklar líkur á því að í gögnum um einstaka barn sem boðið er til ættleiðingar til landsins séu upplýsingar sem benda til að einstaklingurinn þurfi sérstaka umhyggju að einhverju leyti.

Það er meðal annars vegna þeirra sérstöku þarfa sem ættleidd börn hafa almennt sem úttekt barnaverndar vegna umsóknar um forsamþykki fyrir ættleiðingu barns erlendis frá er svo vönduð og ítarleg.

Samkvæmt ofangreindum tölvupósti sem framkvæmdastjóra Íslenskrar ættleiðingar barst þann 13. júlí síðastliðinn virðist það vera skilningur sýslumannsins í Búðardal að óska þurfi eftir viðbótarforsamþykki ef ættleiða á barn til landsins sem sýnist hafa tilgreindar sérstakar þarfir sem barnið hefur umfram börn almennt. Verði sá háttur hafður á að alltaf beri að senda inn beiðni um viðbóatarforsamþykki þegar upplýsingar berast til landsins um barn sem hefur skilgreindar þarfir kann það að tefja ættleiðingu viðkomandi barna verulega enda sérstök úttekt barnaverndarstarfsmanna og sýslumanns tímafrek og álag mikið á þessum stofnunum.

Í ljósi þess að ekki er getið um sérstakt forsamþykki vegna ættleiðingar á börnum með skilgreindar þarfir í lögum eða reglugerð, með tilliti til þess að úttekt vegna hefðbundinnar umsóknar um forsamþykki er ítarleg og vönduð, með hliðsjón af því að mikill hluti ættleiddra barna kann að hafa sérstakar þarfir sem ekki eru tíundaðar fyrirfram og með það í huga að meðferð á beiðni um sérstakt forsamþykki er tímafrek og getur tafið ættleiðingu er ástæða til að óska eftir leiðbeiningu Dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins um hvernig beri að haga þessum málum.

Ákveðið er að fela framkvæmdastjóra að senda beiðni um leiðbeiningu þessa efnis til ráðuneytisins. Rétt er að það komi fram í erindinu að ósk um leiðbeiningu sé eingöngu lögð fram vegna þess hve mikilvægt er að standa löglega og vel að verki þegar unnið er að ættleiðingum barna erlendis frá og í erindinu felist ekkert vantraust á skoðunum eða viðhorfum sýslumannsins í Búðardal.

Af gefnu tilefni er ef til vill ástæða til að minnast á það við ráðuneytið að með vísan 17. gr. laga um ættleiðingar skal Ættleiðingarnefnd veita umsagnir í ættleiðingarmálum sem ráðuneytið leggur fyrir nefndina og ráðherra getur falið nefndinni fleiri verkefni.

4. Beiðni Í.Æ. til DMR um löggildingu til milligöngu um ættleiðingar frá Póllandi.
Þann 24. júní síðastliðinn var undirritaður samningur um samruna Alþjóðlegrar ættleiðingar og Íslenskrar ættleiðingar með þeim hætti að starfsemi undir merkjum Alþjóðlegrar ættleiðingar er lögð niður en áfram verður unnið að verkefnum félagsins undir merkjum og kennitölu Íslenskrar ættleiðingar.

Alþjóðleg ættleiðing hefur löggildingu til að annast milligöngu um ættlæðingar frá Póllandi. Brýnt er að hægt sé að sinna þessu verkefni undir merkjum Íslenskar ættleiðingar. Framkvæmdastjóra er falið að óska eftir fyrir hönd félagsins að DMR veiti félaginu löggildingu til að annast milligöngu um ættleiðingar frá Póllandi.

5. Beiðni Í.Æ. til DMR um löggildingu til milligöngu um ættleiðingar frá Tógó
Þann 24. júní síðastliðinn var undirritaður samningur um samruna Alþjóðlegrar ættleiðingar og Íslenskrar ættleiðingar með þeim hætti að starfsemi undir merkjum Alþjóðlegrar ættleiðingar er lögð niður en áfram verður unnið að verkefnum félagsins undir merkjum og kennitölu Íslenskrar ættleiðingar.

Ráðherra hefur sjálfur sent beiðni til Tógó í því skyni að geta veitt Alþjóðlegri ættleiðingu löggildingu, að beiðni félagsins, til að annast milligöngu um ættleiðingar frá landinu og ráðuneytið hefur unnið að því að koma á ættleiðingarsambandi milli ríkjanna.

Mikilvægt er að þessi vinna á vegum ráðuneytisins haldi áfram af fullum krafti og er framkvæmdastjóra falið að óska eftir fyrir hönd félagsins að DMR veiti Íslenskri ættleiðingu löggildingu til að annast milligöngu um ættleiðingar frá Tógó.

6. Starfslýsing skrifstofumanns.
Framkvæmdastjóra var falið að útbúa starfslýsingu/atvinnuauglýsingu fyrir þann starfsmann sem þarf að ráða inn. Áætlað er að auglýsa á vef félagsins, facebook og einnig í dagblöðum. Framkvæmdastjóri sendir drög að starfslýsingu í tölvupósti til stjórnarmanna.

7. Hliðarlistar einhleypra
Búið er að hafa samband við bróðurpart þeirra sem skráðir eru á svokallaðan hliðarlista. Fyrir liggur að boða til fundar með einhleypum, kynna þeim stöðuna og hvað í boði er fyrir einhleypa hvað ættleiðingar varðar. Í boði verður sérstakt námskeið fyrir einhleypa umsækjendur. Áætlað er að halda fundinn í síðasta lagi í kringum mánaðarmótin ágúst/september n.k.


Fundi slitið kl. 23:00
Elín Henriksen


Svæði