Stjórnarfundur 11.04.2011
Fundur stjórnar Íslenskrar ættleiðingar mánudaginn 11. apríl 2011 kl. 17.15
1. fundur nýrrar stjórnar
Mættir:
Ágúst Hlynur Guðmundsson Elín Henriksen
Jón Gunnar Steinarsson Hörður Svavarsson
Vigdís Ósk Sveinsdóttir
Fundurinn hófst á því að fundarmenn fóru yfir síðustu fundargerð og samþykktu hana.
Mál á dagskrá:
1. Áherslur í stefnumótun
2. Útgáfa
3. Ráðgjöf til kjörforeldra
4. Bókasafn
5. Rekstur skrifstofu
6. Þakkir til fyrri stjórnarmanna og annarra
7. Formannaskipti í Pas-nefnd
8. Önnur mál
1. Áherslur í stefnumótun
Mikið grundvallarstarf hefur verið unnið á seinustu misserum varðandi uppbyggingu ættleiðingarsambanda, ættleiðingarlöggjöfina og fyrirkomulag ættleiðingarmála. Mörg merki eru um það að þeir græðlingar sem þar hefur verið sáð séu að skjóta rótum og fari að bera ávöxt, þá er eðlilegt að áherslur stjórnar Í.Æ. hvað uppbyggingu varðar breytist og hægt verði að setja meira afl í félagsstarfið og skipulag á þjónustu við félagsmenn sem búnir eru að ættleiða og þá sem ættleiddir hafa verið. Stjórn Í.Æ. mun nú hefja stefnumótunarvinnu með nýjum áherslum og leggur eins og áður áherslu á að félagsmenn komi að þeirri vinnu með margvíslegum hætti.
2. Útgáfa
Fyrir liggur að gefa út nokkur rit á vegum félagsins. Í síðustu viku skilaði formaður Pasnefndar handriti að bæklingi um máltöku ættleiddra barna til skrifstofunnar en Ingibjörg Símonardóttir talmeinafræðingur þýddi ritið úr sænsku snemma á seinasta ári. Stjórn Í.Æ. þakkar Ingibjörgu og Pasnefnd framtakið og samþykkir að gefa bæklinginn út. Hann verður nú settur í umbrot og kemur væntanlega bæði út í rafrænu formi og á pappír en Ingibjörg telur mikilvægt að ritið verði aðgengilegt í prentútgáfu.
Jafnframt er verið að vinna að útgáfu að leiðbeiningariti um ættleiðingu barna með skilgreindar þarfir sem þau Arnþrúður Karlsdóttir, Birna Blöndal, Helga Magnea Þorbjarnardóttir, Helgi Jónsson, Ingibjörg Magnúsdóttir, Kristbjörg Richter, Sigríður Viðarsdóttir unnu handrit að. Þeim er öllum þakkað framtakið.
Stjórn mun einnig gefa út nokkur rit í skýrsluformi sem unnin hafa verið á vegum stjórnar undanfarin misseri. Stjórn leggur áherslu á að útgáfa á vegum félagsins verði aðgengileg í rafrænu formi og ekki sé lagt í prentkostnað nema nauðsyn beri til.
3. Ráðgjöf til kjörforeldra
Gerðir hafa verið samningar við Arndísi Þorsteinsdóttur sálfræðing og Guðlaugu Jónsdóttur félagsráðgjafa um viðtalsþjónustu fyrir kjörforeldra en það er liður í stefnumörkun stjórnar um auknar áherslur á þjónustu eftir ættleiðingu. Viðtölin verða niðurgreidd af félaginu og greiða félagsmenn einungis lágmarks komugjald. Samhliða viðtalsþjónustunni verður gerð könnun á þörf fyrir þessa þjónustu og athugað með hvaða hætti er hægt að mæta þjónustuþörfinni hvar sem er á landinu. Arndís og Guðlaug hafa mikla og víðtæka þekkingu á ættleiðingum auk þess sem þær eru færir sérfræðingar á sínu sviði. Innan skamms verður þessari þjónustu hleypt af stokkunum og hún kynnt veglega.
4. Bókasafn
Í samræmi við stefnumörkun stjórnar um auknar áherslur á þjónustu eftir ættleiðingu skilgreinir stjórn nú tilgreinda upphæð, eitthundrað þúsund krónur, til að efla bókasafn félagsins á fyrri hluta þessa árs. Bókasafn ÍÆ er fyrir félaga en félagsmenn geta fengið lánuð rit úr safninu sér að kostnaðarlausu.
5. Rekstur skrifstofu
Lögð fram tilkynning um fæðingarorlof og orlof framkvæmdastjóra. Rætt um rekstur skrifstofunnar á orlofstíma og það skipulagt. Lögð fram drög að skipulagi afleysingaþjónustu.
6. Þakkir til fyrri stjórnarmanna og annarra.
Formanni falið að annast framkvæmdina í fjarveru framkvæmdastjóra.
7. Formannaskipti í Pasnefnd
Lögð fram tilkynning frá Eyrúnu fulltrúa á skrifstofu Í.Æ. um að Snjólaug Elín Einarsdóttir hafi látið af formennsku í Pasnefnd en Ingibjörg Margrét Jónsdóttir tekið við hlutverkinu. Um leið og stjórn ÍÆ þakkar Snjólaugu fyrir sín störf fagnar hún nýjum formanni Pasnefndar og hlakkar til samstarfsins. Samstarf stjórnar og Pasnefndar hefur verið umtalsvert en nú þegar hafin er stefnumörkunarvinna um nýjar áherslur í starfsemi félagsins er mikilvægara en áður að þetta samstarf sé náið og gott.
Önnur mál.
Kostnaður við skýrslu 28 þús. kr. hver skýrsla – ca. 1120 þús. kr. á ári. Tillaga um að ráða félagsráðgjafa í 20% starfshlutfall í staðinn.
Hörður mun taka að sér að finna þjónustuaðila til að uppfæra bókhaldið. Þá er lögð fram tillaga um að sækja um til Vinnumálastofnunar einstaklinga til starfsþjálfunar á 3ja mánaða samningum.
Unnið er að nýrri heimasíðu Íslenskrar ættleiðingar sem mun líta dagsins ljós innan skamms.
Vinna verður nú sett í að stofna styrktarsjóð vegna barna sem ekki verða ættleidd, samkvæmt samþykkt aðalfundar ÍÆ 2011.
Næsti fundur ákveðinn kl. 20 á þriðjudag eftir páska.
Fundi slitið kl. 18.30
Vigdís Ó. Sveinsdóttir fundarritari