Stjórnarfundur 14.10.2009
Fundur stjórnar Íslenskrar ættleiðingar miðvikudaginn 14. október 2009, kl. 17.17
Haldinn í húsnæði félagsins Austurveri.
13. fundur stjórnar
Mættir:
Ágúst Guðmundsson
Hörður Svavarsson
Karl Steinar Valsson
Margrét Rósa Kristjánsdóttir
Pálmi Finnbogason
Fundurinn hófst á því að fundarmenn fóru yfir síðustu fundargerð.
Mál á dagskrá:
1. Indland
Á seinasta stjórnarfundi var ákveðið að fulltrúar nýrrar stjórnar gangi á fund sendiherrans til að viðhalda góðum tengslum. Fundurinn fór fram 7. Þessa mánaðar og voru fulltrúar Í.Æ. á fundinum stjórnarmennirnir Pálmi Finnbogason, Ágúst Guðmundsson og Vigdís Sveinsdóttir auk skrifstofustjóra félagsins Guðrúnu Sveinsdóttur. Stjórn Í.Æ. gerir sér grein fyrir hve mikilvægt er að rækta vel þau ættleiðingasambönd sem til staðar eru og hefur hug á því að senda erindreka stjórnarinnar til Indlands við fyrsta tækifæri.
2. Vinnuregla um að ekki megi óska eftir annari ættleiðingu fyrr en ár er liðið frá því foreldrar koma heim með fyrra barn.
Sú regla er í gildi hér á landi að ekki megi sækja um nýtt forsamþykki til að ættleiða annað barn fyrr en ári eftir heimkomu með ættleitt barn. Regla þessi getur verið íþyngjandi og hana er hvorki að finna í lögum né reglugerð um ættleiðingar.
Vinnureglan er óformlegt samkomulag sem verið hefur milli ráðuneytis, sýslumanns og Í.Æ. Vera kann að einhvern tíma hafi verð gagn að þessari vinnureglu, t.d. þegar biðtími og afgreiðslutími voru samanlegt styttri en venjuleg meðganga. Erfitt er að sjá þörf fyrir þessa forsjárhyggju í þeim aðstæðum sem nú ríkja. Í ljósi áralangrar biðar sem liggur fyrir þeim sem óska eftir að ættleiða barn, er það mikil hindrun að mega ekki hefja ferli við aðra ættleiðingu fyrr.
Foreldrafélag ættleiddra barna sendi dómsmálaráðherra kröfugerð í mörgum liðum fyrr á árinu og hefur ráðuneytið svarað með einum eða öðrum hætti öllum þáttum erindisins nema þeim sem lúta að þessari vinnureglu. Það kann líka að vefjast fyrir embættismönnum að fjalla um óskrifaðar reglur og leggja af með formlegum hætti það sem ekki er til stafur um. Í samræðum formanns Í.Æ. við ráðamenn hefur þó komið fram það sjónarmið að ekki sé við því að búast að haldið verði fast í téð vinnulag í þeim aðstæðum sem nú ríkja. Ekki virðist því ástæða til halda í vinnuregluna og eingöngu þurfa frumkvæði til að lýsa því yfir að hún sé aflögð.
Stjórn Íslenskrar ættleiðingar lýsir því yfir að vinnuregla um að ekki megi óska eftir annari ættleiðingu fyrr en ár er liðið frá því foreldrar koma heim með fyrra barn verði aflagt um sinn af hálfu félagsins. Ákvörðun stjórnar verður endurskoðuð þegar biðtími eftir ættleiðingu erlendis frá styttist verulega. Ákvörðunin tekur gild hinn 7. nóvember næstkomandi.
3. Meðferð söfnunarfjár
Eitt af meginmarkmiðum Íslenskrar ættleiðingar er aðstoð við yfirgefin börn og þau börn sem búa við erfiðar aðstæður í heimalandi sínu en verða ekki ættleidd.
Á vegum félagsins starfar fjáröflunarnefnd í þessu skyni og er hún skipuð dugmiklum eistaklingum sem hafa lagt á sig gríðarlega sjálfboðavinnu við að skrapa saman fé fyrir yfirgefin börn erlendis.
Nú háttar þannig til að reglur eru sumstaðar erlendis þannig að erfitt er um vik fyrir ættleiðingarfélag að senda fé beint til barnaheimila í viðkomandi ríkjum og algjörlega þarf að vera tryggt að fé sem sent er til styrktar komi ekki frá verðandi kjörforeldrum.
Í sumar fundaði formaður félagsins með félagsmönnum sem mynda svokallaðan Kólombíuhóp og í kjölfar þess fundar hóf stjórn Í.Æ. undirbúning að stofnun sérstaks félags eða sjóðs til að halda utan um söfnunarfé sem fara á til barna erlendis.
Stjórnarmenn hafa borið hugmyndir um væntanlegan sjóð undir skrifstofustjóra í Dómsmálaráðuneyti og fengið vinsamleg viðbrögð og ráðleggingar.
Stjórn Í.Æ. felur Vigdísi Sveinsdóttur að forma samþykktir slíks styrktarfélags með hliðsjón af fyrirliggjandi minnisblaði.
4. Endurskoðun
Kostnaður við ársreikningagerð tvöfaldaðist nánast milli ára. Ekki fengust skýringar á hækkuninni og verðið fékkst ekki lækkað. Formanni félagsins er falið að semja við annað endurskoðunarfirma sem uppfyllir kröfur félagsins.
5. Önnur mál
Rússland
Stutt yfirlit um hvað er að gerast í tilraun Í.Æ. til að koma á ættleiðingasambandi frá Rússlandi.
Nepal
Fjallað um stöðuna í verkefni Í.Æ. við að koma á ættleiðingasambandi frá Nepal. Farið yfir nýleg bréfaskipti við tengiliði félagsins í Nepal og umsögn ráðuneytis um skilyrði. Stjórn Í.Æ. ákveður að láta reyna á samninginn við Nepal en fyrstu ættleiðingarnar út úr landinu áttu sér stað fyrir um viku síðan, í því skyni mun félagið senda þær greiðslur sem nepölsk stjórnvöld gera kröfu um auk greiðslu kostnaðar til tengiliða félagsins í Nepal. Í kjölfarið má búast við að hægt sé að taka við umsóknum til Nepal á næstu vikum, ef ekkert óvænt gerist.
Samvinna
Á Íslandi starfa tvö ættleiðingafélög, Íslensk ættleiðing (Í.Æ.) og Alþjóðleg ættleiðing (A.Æ.). Mikil samvinna hefur verið milli félagana síðan í vor en formenn félaganna hafa hist reglulega ásamt formanni Foreldrafélags ættleiddra barna. Stjórn Íslenskrar ættleiðingar telur að heppilegt sé að stjórnir ættleiðingafélaganna hittist á sameiginlegum fundi til skrafs og ráðgerða.
Fundi slitið kl. 19.30.
Hörður Svavarsson ritað fundargerð
Í forföllum Vigdísar Sveinsdóttur.