Fréttir

Stjórnarfundur 26.07.2006

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 26. júlí 2006, kl. 20:00
6. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2006

Fundarstaður: Húsnæði ÍÆ, Ármúla 36, Reykjavík

Mættir: Ingibjörg J., Ingibjörg B., Karl Steinar og Kristjana. Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn. 

1. Ættleiðingar samkynhneigðra. Mikil umfjöllun um ættleiðingarmál samkynhneigðra hefur átt sér stað í fjölmiðlum undanfarið. Stjórn ÍÆ vill ítreka að félagið tekur ekki afstöðu um hæfi umsækjenda enda ekki umsagnaraðili mála. ÍÆ verður ávallt að gæta hlutleysis. Ákveðið var að biðja um fund með fulltrúa dómsmálaráðuneytis vegna breytinga á lögum varðandi ættleiðingar samkynhneigðra. ÍÆ er í samstarfi við sambærileg félög á Norðurlöndunum og fylgist vel með gangi mála þar. 

2. Húsnæðismálin. Ákveðið að bíða og sjá til þar sem það mun vera samdóma álit manna að hvorki sé ráðlegt að kaupa né leigja húsnæði að svo stöddu á meðan markaðurinn sé í þeirri uppsveiflu sem hann er í dag. Málið verður tekið upp aftur í lok ársins og afgreitt miðað við stöðuna á húsnæðismarkaðnum þá. 

3. Styrkjamálið. Búið er að tilnefna fólk í vinnuhópinn sem á að fjalla um styrki til ættleiðinga. Dómsmálaráðuneyti er með tvo fulltrúa í nefndinni, fjármálaráðuneyti einnig og félagsmálaráðuneyti sömuleiðis og er annar þeirra fulltrúi ÍÆ. Fyrsti fundur hópsins er áætlaður 18. ágúst og á hann að skila vinnu sinni 1. október n.k.

4. Fræðslumálin. Tekin ákvörðun um að ýta aðeins við þeim sem hafa sýnt áhuga og sent inn fyrirspurnir vegna fræðslunámskeiða félagsins og vonast eftir formlegri umsókn.

Næsti fundur ákveðinn 24. ágúst. Fleira ekki rætt og fundi slitið.

 
Kristjana Erlen Jóhannsdóttir
Fundarritari

 


Svæði