Fréttir

Stjórnarfundur 30.04.2007

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 30. apríl 2007, kl. 20:00
2. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2007
 
Mættir: Ingibjörg J., Karl Steinar, Kristjana, Ingibjörg B. Pálmi, Helgi og Arnþrúður. Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.
 
Fjárhagsstaða félagsins
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2007 lögð fram og lítur hún ekki vel út en gert er ráð fyrir töluverðum halla á rekstri félagsins. Helstu ástæður eru að færri börn í komu til landsins í fyrra en árin áður og þ.a.l. færri lokagreiðslur greiddar, færri umsóknir hafa verið í ár en undanfarin ár og þ.a.l. færri biðlistagreiðslur, launahækkanir starfsmanna og ráðning félagsráðgjafa á síðasta ári. Nauðsynlegt er að draga saman reksturinn með einhverjum hætti. Miklar umræður um hvaða möguleikar eru í stöðunni og stjórnarmenn ekki á eitt sáttir hvaða leið skildi farin. 
 
Stjórnin tók  að lokum þá ákvörðun að segja upp félagsráðgjafa sem er í 50% stöðu, miðað við mánaðarmótin maí/júní með 3 mánaðar uppsagnarfresti. Þá tók stjórnin ákvörðun um að húsnæðismál verði óbreytt, þ.e. ekki verður farið í að skipta um húsnæði þar sem starfsmenn verða áfram tveir. Þetta tvennt ætti að rétta rekstur félagsins við að einhverju leyti. Einnig tók stjórn þá ákvörðun að skoða frekari starfsmannamál í haust.
 
Tékkland
Yfirmenn ættleiðingarmála í Tékklandi höfðu samband við ÍÆ félagið og ítrekuðu að allt samband milli landanna eigi að vera á milli ÍÆ og ættleiðingaryfirvalda í Tékklandi. Þetta er krafa sem félagið verður að virða skilyrðislaust svo og þeir sem ættleiða frá Tékklandi. Aðrar leiðir varðandi samskipti við upprunalöndin geta skaðað sambönd ÍÆ við upprunalöndin. Nauðsynlegt er að fara yfir þessi atriði og brýna mikilvægi fyrir ættleiðendum. Sá möguleiki var ræddur að endurskoða þá pappíra sem umsækjendur skrifa undir með þetta í huga.
 
Fréttir af EurAdopt fundi í Lux
Hollenskt félag sem endurnýjaði leyfi í Eþíópíu lenti í því að Eþíópía setur skilyrði fyrir endurýjun leyfisins og skilyrðin eru þau að félagið styrki ákveðinn fjölda barna í landinu eða vinni að hjálparstarfi.  Þetta stangast á við Haag sáttmálann, um ættleiðingar og siðareglur EurAdopt. Eins og staðan er í ættleiðingarmálum verða félögin að samþykkja þau skilyrði sem upprunalöndin setja.
 
Austurríki hefur verið í samstarfi við tengilið sem hefur meðal annars haft samband við ÍÆ og boðið samstarf. Fólki var ráðlagt að fara ekki í samstarf við þennan mann þar sem hann hefur ekki hreint mjöl í pokahorninu og ekki liggja nægjarlegar upplýsingar um það hvernig hann vinnur..
 
Tvö spænsk félög sóttu um félagsaðild að EurAdopt. Ráðstefna verður á næsta ári á Ítalíu þar sem aðalefni ráðstefnunnar verður ættleiðingar í Afríku.
 
Erindi frá félagsmanni
Erindi til stjórnar ÍÆ frá félagsmanni varðandi ættleiðingar einhleypra tekið fyrir. Ákveðið að kalla saman fund einhleypra umsækjenda í maí. 17 einhleypir hafa greitt árgjald félagsins og þeim verður boðið að sitja þennan fund. Karl Steinar og Guðrún munu finna dagsetningu fyrir þennan fund.
 
Verkferlar
Gert var ráð fyrir að félagsráðgjafi félagsins færi í að skrá niður verkferla á skrifstofunni vegna vinnu við miðlun ættleiðinga. Ekki hefur unnist tími til að fara í þessa vinnu vegna anna við að senda út umsóknir. Nauðsynlegt er að setja upp þessa verkferla þannig að þeir séu skjalfestir en ekki aðeins í höfðinu á framkvæmdastjóra
 
Ritnefnd vefsíðunnar
Ákveðið að Ingibjörg B. taki sæti Pálma í ritstjórn vefsíðunnar og verði með Arnþrúði og Kristjönu í henni. Þær munu vera í sambandi við ritstjórn félagsins til að draga mörkin á milli þessara tveggja ritstjórna og leggja línurnar um mismunandi áherslur á vefsíðu og í tímariti ÍÆ.
 
Önnur mál
  1. Sambönd við önnur lönd: Ættleiðingar frá Grænlandi voru ræddar aðeins. Engin börn hafa verið ættleidd til Íslands frá Grænlandi. Samkvæmt upplýsingum sem skrifstofa ÍÆ fékk frá Grænlandi eru frumættleiðingar á grænlenskum börnum sjaldgæfar, hafa verið 2 á undanförnum 12 árum. Nokkrar erlendar ættleiðingar eru til Grænlands árlega.
  1. Biðlistinn í Kína: Umræður um afgreiðslu umsókna í Kína. Útlit fyrir að biðtíminn geti farið upp í 3 til 4 ár miðað við hvernig umsóknir eru afgreiddar í dag. 87 umsóknir eru úti í Kína og 5 umsóknir um börn með skilgreindar sérþarfir. Kínverjar hafa hert skilyrði varðandi umsækjendur og hugsanlega getur það haft áhrif að færri umsækjendur séu hæfir og það orðið til þess að biðtíminn styttist eitthvað aftur.
  1. Leiðbeinendur á námskeiðum: Nauðsynlegt er að hækka laun leiðbeinenda sem fá 50 þúsund fyrir námskeið. Námskeiðiskostnað per par verður að hækka til að standa undir þessari hækkun. Gjaldkeri félagsins mun koma með tillögu um laun leiðbeinenda.
  1. Námstefna dóms- og kirkjumálaráðuneytis um ættleiðingar: Góð námstefna en fáir þátttakendur. Búið er að setja punka úr erindi Lene Kamm þá á vefsíðu félagsins.
  1. Ritnefnd: Ritnefnd hefur óskað eftir að fá fund með stjórn. Ritnefnd verður boðið að koma á fund með stjórninni fyrir næsta stjórnarfund.
 
Fleira ekki rætt og fundi slitið.
 
Arnþrúður Karlsdóttir
Fundarritari

Svæði