Fréttir

Stjórnarfundur ÍÆ 03.03.2005

kl. 20:15.

Mætt: Ásta B. Þorbjörnsdóttir, Gerður Guðmundsdóttir, Guðmundur Guðmundsson, Helga Gísladóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Ingvar Kristjánsson, Lísa Yoder. Auk þeirra sat Guðrún Sveinsdóttir framkvæmdastjóri fundinn.

Fundargerð.

Reglugerðin um ættleiðingar er farin frá Dómsmálaráðuneyti og var birt í Stjórnartíðindum 28.feb. 2005.

Það hefur vakið athygli stjórnar að reglur ÍÆ eru birtar á utanaðkomandi heimasíðu án samráðs við stjórn ÍÆ.

Ingibjörg Jónsdóttir, Ingibjörg Birgisdóttir og Guðrún hittu Lene Kam, danskan sálfræðing og þerapista, og fór hún yfir námskeiðið sem dönsk stjórnvöld hafa látið skipuleggja og sem umsækjendur um ættleiðingu eru skyldaðir til að sækja áður en forsamþykki er gefið út. Einnig miðlaði hún af sinni reynslu. Henni þótti vera farið yfir of mikið efni á of skömmum tíma hjá okkur. Hún mælti með að námskeiðin yrðu flutt út á land á tímanum frá hádegi föstudags og fram eftir laugardegi. Foreldrar gætu þá haft sunnudag til að fara yfir efnið og ræða saman. Hún taldi að óskafjöldi á slíku námskeiði væri hámark 18 manns.

Þetta fyrirkomulag myndi verða nokkuð dýrt og rætt var um að ef út í þetta breytta form yrði farið væri ekki rétt að blanda þeim rekstri saman við rekstur félagsins. En slíkt fyrirkomulag á námskeiði væri eflaust mjög jákvætt fyrir vináttu væntanlegra foreldra og yrði örugglega mjög skemmtilegt.

Félagið hefur fengið tvo bæklinga frá Lene Kam sem er undirstaða fræðslunnar hjá henni og þarf að koma þeim í þýðingu hið fyrsta. Rætt var um að sækja um eingreiðslu til ráðuneytisins til að standa að þýðingum á kennsluefni þar sem ráðuneytið hefur ákveðið að ÍÆ sjáu um námskeiðin.

Þann 29. apríl hefur Lene Kam hug á að sækja okkur heim aftur.

Gerður athugar með þýðingu á bæklingum Lene og reynt verður að afla fjár fyrir gerð fræðsluefnis.

Guðrún og Lisa eru að fara til Indlands, að sækja barn. Ekki er þörf á að heimsækja Cara í þessari ferð, en fara þess í stað beina leið til Kolkata.

Reikningar félagsins eru komnir til endurskoðanda og verða tilbúnir fyrir aðalfund. Fundarboð var í fréttablaði ÍÆ og við munum setja tilkynningu um aðalfundinn á heimasíðuna okkar. Rétt er að senda áminningu á sitt hvorn spjallvefinn.

Athuga þarf með ný framboð til stjórnarkjörs.

Stjórnarmenn ítrekuðu hvað þeir væru ánægðir með störf skemmtinefndar félagins og hún hefur staðið vaktina vel.

Fjöldi virkra fjölskyldna er 240.

Síðasti fundur stjórnar á þessu starfsári er áætlaður í hádeginu þann 30. mars.

Fleira var ekki rætt á þessum fundi.
Fundi slitið kl. 22:00.


Svæði