Fréttir

Therapeutic parenting and adoption

Sarah Naish
Sarah Naish

Í tilefni af 40 ára afmæli Íslenskrar ættleiðingar stóð félagið fyrir málþingi þann 16. mars sl. Aðalfyrirlesarinn á málþinginu var Sarah Naish, félagsráðgjafi í Bretlandi. En hún var einnig með heilsdagsnámskeið á vegum Íslenskrar ættleiðingar daginn eftir málþingið. Sarah hefur starfað sem félagsráðgjafi í tæp 30 ár og hefur mikla reynslu af ráðgjöf, þjálfun og uppeldi barna. Hún hefur ættleitt 5 börn og hefur hún notast við meðferðanálgun (Therapeutic Parenting) í uppeldi barna sinna, nálgun sem hún hefur þróað í gegnum árin. Hún hefur fjölþætta reynslu innan barnaverndar í Bretlandi og hefur í uppeldi barna sinna síðastliðin 16 ár byggt upp gagnabanka sem hún hefur miðlað úr til fagfólks og foreldra. Það var frábært að fá tækifæri til að fá Söruh hingað til lands en bæði erindi hennar á málþinginu og námskeiðið, voru skemmtileg, raunsæ og fræðandi.

Erindi hennar á málþinginu þann 16. mars hét "Therapeutic parenting and adoption", en þar fór Sarah yfir persónulega reynslu sína sem foreldri ættleiddra barna. Hún gaf áheyrendum innsýn í bakgrunn barna sinna, sem öll komu úr barnaverndarkerfinu í Bretlandi. Sarah sagði frá því hvað hefði reynst henni vel sem foreldri og hvað ekki. Sarah var óhrædd við að deila mistökum sínum og hafa húmor fyrir því sem ekki gekk vel. Hún deildi með áheyrendum vonbrigðum sínum, sigrum og áskorunum sem leitt hafa af sér sérþekkingu hennar sem gott orð fer af, ekki bara í Bretlandi heldur orðið um allan heim. Hún deildi því hvar börnin hennar sem eru uppkomin dag, eru stödd og hvaða áskoranir þau hafa haldið áfram að takast á við í gegnum lífið og hvernig þau hafa leitað leiða til að takast á við þær áskoranir og vinna úr þeim. Hún endaði á því að sína áhorfendum hjartnæmt myndband þar sem með stuttri sögu var farið yfir það hvernig börnin hennar náðu að styrkja sín tengsl og getu til tengslamyndunar í gegnum árin hjá móður sinni.

Þann 17. mars var Sarah með heilsdagsnámskeið þar sem hún leiddi þátttakendur áfram af einlægni og fagmennsku inn í heim "Therapeutic parenting". Sarah gerði grein fyrir því hvaða aðferðir hún hefur þróað og hafa virkað í uppeldi barna sem hafa orðið fyrir áföllum í lífinu og glíma við tengslavanda. Að ala upp börn sem glíma við tengslavanda og hafa jafnvel búið við vanrækslu og erfiðar aðstæður á sínum mikilvægustu mótunarárum er áskorun fyrir foreldra, sagði Sarah. En hún fór yfir leiðir sem hafa virkað, ekki bara með hennar börn heldur hjá fjölda annara fjölskyldna sem hafa tileinkað sér þær aðferðir sem Sarah hefur ásamt samtökum sínum kennt og miðlað til foreldra um heim allan. Síðast en ekki síst undirstrikaði Sarah mikilvægi þess að foreldrar treysti sjálfum sér og sínum leiðum þegar gagnrýni og aðfinnslur koma fram í samfélaginu og nærumhverfinu. Að hlusta á Söruh á námskeiðinu var hvetjandi og áhugavert, gaf fólki hugmyndir að leiðum til að tækla foreldrahlutverkið með nýjum nálgunum og áherslum. Það voru ánægðir þátttakendur sem luku námskeiði þennan dag og strax fóru að skapast umræður um að mikilvægt væri að fá Söruh til að koma aftur sem fyrst. Dagurinn hefði aðeins veitt fólki ákveðna innsýn og þátttakendur voru margir hverjir spenntir fyrir því að fá tækifæri til að læra meira af Söruh síðar meir. Það má vel vera að Íslensk ættleiðing standi fyrir því einn daginn að fá hana aftur hingað til lands.

Við höfðum samband við Söruh eftir námskeiðið og báðum hana að benda okkur eina grein sem væri í uppáhaldi hjá henni og við deilum henni hér með ykkur.

http://www.communitycare.co.uk/2016/01/05/therapeutic-parenting-helped- relieve-anger-guilt/


Svæði