Þjóðviljinn - Ættleiðing barna stöðvuð
Dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að fresta allri frekari afgreiðslu á beiðnum um ættleiðingu frá Sri Lanka þar til ákveðið mál hefur fengist upplýst. Þorsteinn Geirsson, ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu, sagði við Þjóðviljann í gær að þessi ákvörðun hefði verið tekin fyrir nokkrum vikum og væriekkert tengd bréfi Einars Benediktssonar,sendiherra í Lundúnum til utanríkisráðherra. Ástæðan fyrir því að ákveðið hefur verið að afgreiða engar beiðnir er að upp kom atvik, sem hefur fengist staðfesting á, sem sé þess eðlis að ráðuneytið hefur séð sig knúið til að láta athuga þann aðila, sem hefur séð um að útvega börn til ættleiðingar frá Sri Lanka.
„Þetta er ekki eina slíka tilvikið sem við höfum heyrt um, en að þessu sinni fékkst staðfesting á atvikinu," sagði Þorsteinn. Hann vildi ekki upplýsa Þjóðviljann um um hvað málið snerist, því þetta væri viðkvæmnismál sem gæti snert saklaust fólk.
Sagði Þorsteinn að býsna mörg börn hefðu verið ættleidd frá Sri Lanka á undanförnum árum en nú væru um 35 fjölskyldur á biðlista. En þar til skýring hefur fengist á þessu atviki verður bið á frekari innflutningi barna frá Sri Lanka.
-Sáf