Fréttir

Þjónustusamningur í burðarliðunum

Þann 29. nóvember lagði meirihluti Fjárlaganefndar fram tillögur á Alþingi þess efnis að endurgjald til ættleiðingarfélagsins vegna verkefna sem því er falið að sinna verði hækkað töluvert árið 2013.

Þann sama dag kom stjórn ÍÆ saman og sendi í kjölfarið þrjú erindi til Innanríkisráðuneytisins. Það fyrsta var tilkynning um að unt væri að halda aðalfund félagsins sem frestað var í vor vegna óvissu um gerð þjónustusamnings. Annað erindið er beiðni um endurnýjun á löggildingu félagsins til að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá og þriðja erindið er beiðni um viðræður við ráðuneytið um að gerður verði þjónustusamningur við ættleiðingarfélagið.

Erindið um þjónustusamninginn er svohljóðandi:
Fyrir liggja drög að þjónustusamningi milli Innanríkisráðuneytisins og Íslenskrar ættleiðingar en þau voru unnin af félaginu í samvinnu við ráðuneytið í árslok 2011. Þar eru tíunduð verkefni félagsins, sem byggja á fyrirmælum í lögum og reglugerðum og vísunum í Haagsamninginn um ættleiðingar milli landa. Fyrir liggur kostnaðarmat við samninginn.

Nú er ljóst að endurgjald til ÍÆ vegna verkefna félagsins, sem skilgreint er fyrir aðra umræðu um frumvarp að fjárlögum ríkisins fyrir árið 2013, nemur einungis 63% af áætluðum kostnaði við þau verk sem félaginu er ætlað að sinna. Því óskar Íslensk ættleiðing eftir viðræðum við Innanríkisráðuneyið um hvaða verkefnum félagið getur slegið á frest áfram, einnig er rétt að fara þess á leit að rætt verði hvort lögheimildir séu til að ráðuneytið eða aðrar stofnanir ríkisins annist einhver þeirra verka sem félaginu er nú ætlað að sinna.

Rétt þykir einnig að kanna hvort heppilegt sé að gera þjónustusamning um hluta verkefna félagsins eða gera samning til skamms tíma. Mikilvægt er að góð samvinna sé við ráðuneytið um hvaða verkefnum félagið sinnir á hverjum tíma og hvernig þeim er sinnt. Félagið fer því í mestu vinsemd fram á ofangreindar viðræður við ráðuneytið.


Svæði