Fréttir

Vísir.is - Ísland ákveðin fyrirmynd í ættleiðingarmálum

Mynd VÍSIR/AFP
Mynd VÍSIR/AFP

INNLENT
21:00 09. FEBRÚAR 2015

Biðtími fjölskyldna eftir ættleiðingum frá erlendum ríkjum er umtalsvert styttri nú en áður. Það skýrist meðal annars af góðu samstarfi á milli stjórnvalda og ættleiðingarfélagsins Íslensk ættleiðing og hefur það samstarf vakið mikla athygli ytra. Félagið á því von á að löndum sem það á ættleiðingarsamskipti við fjölgi á næstunni. Þetta segir Hörður Svavarsson, formaður Íslenskrar ættleiðingar.

Upprunalöndum fari fjölgandi
Fimmtíu og ein fjölskylda bíður þess nú að fá að ættleiða barn frá erlendu ríki. Þar af eru tuttugu og níu á biðlista erlendis en tuttugu og tveir á ýmsum stigum í svokölluðu forsamþykkisferli hér heima. Á síðasta ári ættleiddu Íslendingar ellefu börn erlendis frá en átta árið áður. Flest þeirra koma frá Kína en einnig eru fjölmörg frá Tékklandi og sum hver frá Kólumbíu og Tógó.


„Biðtíminn er nokkuð stuttur um þessar mundir og stundum talinn í örfáum mánuðum,“ segir Hörður Svavarsson.
„Biðtíminn er nokkuð stuttur um þessar mundir og stundum talinn í örfáum mánuðum,“ segir Hörður Svavarsson.

Hörður Svavarsson, formaður Íslenskrar ættleiðingar, segir biðtímann vissulega misjafnan þar sem það fari allt eftir samstarfi við hvert land fyrir sig. Hann á þó von á að upprunalöndum muni fara fjölgandi á næstunni.

„Það eru alltaf einhverjar sveiflur í fjölda ættleiðinga milli ára og ræðst það oftast af aðstæðum í upprunalöndum barnanna. En flest börnin eru frá Kína og þar hefur ekki verið löng bið. Biðtíminn er nokkuð stuttur um þessar mundir og stundum talinn í örfáum mánuðum,“ segir Hörður.

Ísland ákveðin fyrirmynd
Þá segir hann að samstarfið við Tékkland gangi afar vel. Félagið fékk löggildingu til að annast milligöngu ættleiðinga frá Tékklandi árið 2004 en fór heldur hægt af stað til að byrja með. Fyrsta barnið sem ættleitt var frá Tékklandi til Íslands var árið 2007 en það var ekki fyrr en árið 2010 sem næsta barn eftir það var ættleitt til landsins. 

„Þeir treysta okkur mjög vel og samstarfið mun væntanlega vaxa. Þau hafa líklega séð hvernig við vinnum og hversu vel við undirbúum fjölskyldur og fylgjum vel eftir þegar heim er komið. Ísland er orðin ákveðin fyrirmynd í þessum málaflokki og þar er talað um „íslenska módelið“ sem þykir spennandi,“ segir hann.

Nýtt fyrirkomulag á ættleiðingum komst á laggirnar með þjónustusamningi innanríkisráðuneytisins árið 2013. Alþingi samþykkti þrefalda hækkun á endurgjaldi ríkisins til ættleiðingarfélagsins í nóvember 2013, en fyrir þann tíma hafði félagið verið í miklum fjárhagserfiðleikum og þurftu fjölskyldur að bíða í hátt í þrjú ár eftir ættleiðingu.

Halli var á rekstri félagsins árum saman og var því ekki unnt að sinna öllum þeim skyldum sem stjórnvöld höfðu tekið á sig með því að undirgangast alþjóðlega samninga, til að mynda að bjóða læknisþjónustu og sinna þjónustu eftir ættleiðingar. Hörður fagnar því þessum nýju breytingum og segir allt vera að færast í rétt horf. 

Ísland ákveðin fyrirmynd í ættleiðingarmálum


Svæði