Visir.is - Kólumbía spyr Ísland um ættleiðingar til samkynhneigðra
SNÆRÓS SINDRADÓTTIR SKRIFAR
Kólumbísk yfirvöld hafa sent innanríkisráðuneytinu bréf þar sem falast er eftir svörum um það hvernig ættleiðingar til samkynhneigðra fara fram hér á landi.
Engin lönd bjóða upp á ættleiðingar barna, út úr fæðingarlandi þeirra, til samkynhneigðra para. Ættleiðingar til samkynhneigðra eru leyfðar hér á landi en hingað til hefur aðeins tekist að ættleiða börn innanlands.
Kólumbíumenn spyrja meðal annars hvort börn séu undirbúin sérstaklega fyrir það að vera ættleidd til samkynhneigðs pars.
Stjórnarskrárdómstóll í Kólumbíu úrskurðaði í nóvember að ættleiðingarskrifstofur mættu ekki mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar. Kaþólska kirkjan í Kólumbíu segir með dóminum sé brotið á réttindum barna.
„Eins og við lesum í þetta þá er verið að taka einhver skref. Það að þeir séu að spyrja er jákvætt en það segir svo sem ekkert um framhaldið,“ segir Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar. Yfirvöld í Kólumbíu sendu fyrirtækinu 450 blaðsíðna drög að nýjum ættleiðingarreglum. Reglurnar eru á spænsku og þýðingu ólokið.
Kristinn segir að í samtali við ráðuneytið hafi verið rætt að senda ítarlegt svar um undirbúning ættleiðinga og fræðslu hér á landi. „Það er alveg skýrt að við komum ekki öðruvísi fram við samkynhneigða en gagnkynhneigða.“
Kristinn segist hóflega bjartsýnn að þetta þýði að samkynhneigðir hér á landi geti ættleitt börn á næstunni. „Það er einhver hreyfing í heiminum og ég er bjartsýnn á að innan tíu ára verið það í boði,“ segir hann.
Samkvæmt Jóhannesi Tómassyni, upplýsingafulltrúa innanríkisráðuneytisins, er ekkert sem bendir til þess í bréfinu frá miðstjórnarvaldi Kólumbíu að breytingar séu í burðarliðnum.
Visir.is - Kólumbía spyr Ísland um ættleiðingar til samkynhneigðra